c

Pistlar:

30. október 2022 kl. 21:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Goðsögnin Maradona

Diego Armando Maradona var augljóslega orðinn stjarna á HM á Spáni 1982 þegar pistlaskrifari sá hann á leikvelli. Það var á leik Brasilíu og Argentínu sem lyktaði með öruggum sigri Brasilíu sem voru með stórkostlegt lið þá. Maradona var aðeins 22 ára, hafði verið skilinn eftir fyrir utan lið Argentínu fjórum árum áður þegar þeir urðu heimsmeistarar í heimalandi sínu. Maradona var þá þegar orðinn einn umtalaðasti knattspyrnumaður heims, hafði leitt unglingalið Arngentínu til heimsmeistaratitils og sýndi getu á vellinum sem enginn hafði séð áður. En hans tími var ekki kominn, Maradona var rekinn af velli eftir ergelsisbrot og lauk þar með þátttöku sinni á HM það sinnið. Hans tími kom ekki fyrr en árið 1986 í Mexíkó þegar hann gerði nánast upp á eigin spýtur Argentínu að heimsmeisturum í annað sinn.maradona1

Lifandi minning í Napólí

Í dag er afmælisdagur Diego Armando Maradona. „Maradona elskaði Napólí og Napólíbúa vegna þess að þeir líktust mjög íbúum Buenos Aires, heimabæjar hans,“ skrifar Valerio Gargiulo rithöfundur ættaður frá Napólí á Facebook-vegg sinn. Færsla Valerio sýnir vel þá ást sem Napólíbúar hafa á Maradona en hann var kynntur sem nýr leikmaður Napóli í júlí 1984 á San Paolo leikvanginum (sem nú er skírður honum til heiðurs Diego Armando Maradona leikvangurinn) fyrir framan 70.000 aðdáendur. Hann átti eftir að breyta lífi Napólíbúa og enn í dag er nafn hans umlukið dýrðarljóma. Því var haldið fram að 20 þúsund sveinbörn hefðu verið skýrð í höfuð hans meðan hann var í borginni og sumir segja að hann hafi átt sum þeirra sjálfur. Þegar pistlaskrifari var í Napólí fyrir stuttu var ekki hægt annað en undrast hve lifandi minningin um hann er enn í dag. Minjagripir eru út um allt, myndir af honum á veggjum, börum og veitingastöðum. Ekki er langt pistlaskrifari horfði á skemmtilega kvikmynd þar sem koma Maradona til Napólí var í forgrunni. Goðsögnin Maradona er óumdeilanlega helsti dýrlingur Napólíbúa.

„Ég man þegar ég var lítill, þá sá ég hann í æfingamiðstöðinni hjá klúbbnum í Napólí. Fyrir mig voru þetta forréttindi,“ skrifar Valerio. Engum blöðum er um það að flett að Maradona á heiðurinn af því að Napóli vann tvo ítalska meistaratittla í fyrsta skipti í sögu félagsins, ítalska bikarinn og UEFA bikarinn, eftir úrslitaleik við Ásgeir Sigurvinsson og félaga í Stuttgart. Maradona átti leikinn og andrúmsloftið var þrungið nærveru hans. Napólí fagnaði og tryllt fagnaðarlæti brutust út í borginni og raunar víðar á Suður-Ítalíu og stóðu yfir í viku eftir hvern titil.maradona2

Sigur suðursins

„Meira að segja fjölskylda mín og ég fögnum sigri Napólí. Það var ekki aðeins sigur fótboltaliðsins, heldur einnig hefnd suðurborgar gagnvart ríku borgunum á Norður-Ítalíu. Maradona er partur af sögu borgar minnar,“ segir Valerio. Það verður að skilja skiptingu Ítalíu og stöðu suðursins til að skilja hlutverk og mikilvægi Maradona.

Valerio benir á að sumt fólk dæmir Maradona fyrir einkalíf hans og fíkniefnaneyslu sem sannarlega var skrautleg og átti sinn þátt í ótímabærum dauða hans. Maradona sagði reyndar alltaf sjálfur að hann væri ekki til fyrirmyndar. En hann lék knattspyrnu af fádæma snilld og leikgleði og enn undrast fólk snilli hans. Á þeim tíma voru stjörnurnar ekki verndaðar á velli og Maradona var sparkaður niður oft í leik sem kostaði bæði fjarveru og að hann varð mótækilegri fyrir fíknisjúkdómum.

Áhrif Maradona á knattspyrnusöguna eru ótvíræð. Það er ekki hægt að gera lista með bestu knattspyrnumönnum heims án þess að hann sé ofarlega.