c

Pistlar:

7. nóvember 2022 kl. 17:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Loftslagsráðstefna í gjaldþrota Egyptalandi

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP27) fer nú fram í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi og þó ekki sé gert ráð fyrir stórum ákvörðunum að þessu sinni koma mörg stórmenni þangað, meðal annars fjölmennur hópur Íslendinga. Næsta ár verður COP28 haldið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Staðarvalið gefur tilefni til að skoða þróun mála í þessu sögufræga landi. Egyptaland er fjölmennasta ríki Arabaheimsins. Íbúar landsins eru rúmlega 100 milljónir talsins. Egyptaland er vanþróað land á margan hátt og ólæsi er landlægt og gríðarleg stéttaskiptin sem birtist meðal annars í hálfgerðu þrælahaldi innflutts vinnuafls sunnar úr Afríku, nokkuð sem gjarnan er stundað í Arabalöndunum og sást til dæmis í kringum framkvæmdirnar í Katar vegna HM í knattspyrnu.egypt1

Óróleiki arabíska vorsins

Egyptaland er vegna stærðar og mannfjölda stórveldi í þessum heimshluta og á valdatíma Gamal Abdel Nasser Hussein (1918-1970) varð það eitt af forysturíkjum Araba og stýrði baráttu þeirra gegn Ísraelsríki. Síðustu áratugi hafa samskipti þeirra við Ísraela verið friðsamari og Ísraelar afhentu öll hertekin svæði á Sínaískaga, sem meðal annars voru tekin í Sex daga stríðinu 1967. Egyptar voru fyrsta arabaþjóðin til að gera friðarsamninga við Ísraela en eftir að Mubarak forseti var hrakin frá völdum 2011 versnuðu samskiptin enda má segja að sá óróleiki sem kom með arabíska vorinu hafi ekki aukið á stöðugleika í Mið-austurlöndum.

Hagkerfi Egyptalands er það annað stærsta í Afríku, næst á eftir Nígeríu, en stendur að sumu leyti á brauðfótum, meðal annars vegna þess að meirihluti landsmanna býr á um það bil 40.000 ferkílómetra svæði á bökkum Nílar en þar er eina ræktanlega landið. Sahara-eyðimörkin þekur drjúgan hluta landsins og lítt byggileg en landið er tíu sinnum stærra en Ísland. Egyptar hafa þurft að treysta á aðra með korn og eiga erfitt með að brauðfæða sig.

AGS til bjargar

Olíulindir finnast í Egyptalandi en ekkert í líkingu við það sem gerist hjá nágrönum þeirra í austri og vestri. Pólitískur óróleiki undanfarins áratugar hefur leikið efnahag landsins grátt og nú í lok október var gert samkomulag um aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Samkomulagið bíður staðfestingar stjórnar í desember en felur í sér aðstoð uppá 3 milljarða Bandaríkjadala með mögulegri viðbót. Þessu til viðbótar munu nágranalöndin koma með 5 milljarða dala inn í pakkann en það kemur að mestu frá olíuauðugum nágrönum í austri.

AGS hefur gefið upp að samhliða fjárhagsaðstoð verði ráðist í margvíslegar kerfisbreytingar í Egyptalandi sem í senn er ætlað að styrkja stoðir hins sameiginlega rekstrar en um leið ýta undir og efla einkaframtakið í landinu. Seðlabankinn hefur hækkað vexti en egypska pundið hefur gefið verulega eftir það sem af er ári samhliða verulegum verðlagshækkunum. Skipt var um seðlabankastjóra í ágúst síðastliðnum en fráfarandi bankastjóri, Tarek Amer, hafði reynt að halda genginu stöðugu. Spáð er ríflega 6% hagvexti í Egyptalandi í ár en verðbólgan er um 8,5%. Þetta er í ellefta sinn sem Egyptar leita á náðir AGS.egypt2

Þurfa meira fé

Í New York Times er haft eftir hagfræðingum að Egyptaland þyrfti mun meira fé - og djúpstæðar skipulagsbreytingar á efnahagslífinu - til að standa undir gífurlegum skuldum landsins og endurmóta hagkerfið þar sem verðmæti pundsins þeirra hrundi gagnvart dollar og matvæla- og orkuverð hækkaði í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Eftir að stríðið og meðfylgjandi efnahags- og orkukreppur hófust, dróst mikilvægur ferðamannaiðnaður Egyptalands saman en hann reiðir sig mjög á rússneska og úkraínska ferðamenn. Um leið hækkaði innflutningsverð á hveiti og olíu. Og þá flúðu erlendir fjárfestar og tóku að minnsta kosti 20 milljarða dollara með sér.

Egyptar eins og flestar nágranaþjóðir þeirra búa við gríðarlegt skrifræði en það ásamt landlægri spillingu er eins og lamandi hönd á landið sem býr að einstakri sögu og eftirtektarverðum möguleikum henni tengt, svo sem í ferðamennsku.