Það er ekki endilega upplifun áhugamanna um stjórnmál að nýliðnar kosningarnar í Bandaríkjunum sé ein allsherjar lýðræðisveisla. Eigi að síður eru Bandaríkin næst fjölmennasta lýðræðisríki heims og að mörgu leyti burðarríki vestrænnar stjórnmálamenningar eftir að hafa verið stórveldi í ríflega 100 ár. En bandarískt samfélag er margflókið og þó það geti talist merkilegur bræðslupottur ólíkra kynþátta og fólks sem á ættir sínar að rekja alls staðar að úr heiminum er margt sem mætti betur fara og er gagnrýnisvert. Þó ekki endilega svo að það réttlæti þau skammar- og hnjóðsyrði sem margir temja sér í umræðunni. Bandaríkin eru sannarlega merkilegt stórveldi með þeim kostum og göllum sem því fylgja.
En undanfarin ár hafa verið átakamikil í bandarískum stjórnmálum hvað svo sem veldur því. Sumum finnst þægilegt að takmarka útskýringuna við persónu Donalds Trumps en það er einföldun þó að í stjórnmálavafstri hans birtist margt af því sem útskýrir átakafleti og áherslur í bandarískum stjórnmálum. Ef fólk vill tala um aukna skautun eða pólariseringu í bandarískum stjórnmálum er líklega nær að horfa til þeirra hugmyndafræðilegu breytinga sem birtast í hinu síðpóstmóderníska ástandi sem á ensku er kallað woke-ismi, einhverskonar allsherjar afstæðishyggju sem sprettur upp úr nýmarxískri orðræðu og leiðir af sér merkimiðapólitík (Identity politics). Þetta ástand hefur grasserað í bandarískum háskólum og fjölmiðlum og smám saman gert almenning afhuga þessum stofnunum og upplýsingum sem þaðan koma. Ég leyfði mér að útskýra þetta með eftirfarandi hætti í til þess að gera nýlegri grein í Þjóðmálum.
„Við erum komin með nýjan hóp rannsakenda, nýjan kenningaheim, og fáum þar af leiðandi nýjar niðurstöður. Þetta er hluti af stærra vandamáli samfélagsumræðunnar og verður líklega ekki skilið án tengingar við greiningu Foucault á drottnun, eða því sem mætti skilgreina sem nokkurs konar orðræðuvald sem birtist sem vald yfir hugtakanotkun og dagskrármálum innan tiltekinna umræðuhefða, í gervi myndaðra, óvefengjanlegra sanninda. Þetta birtist að hluta til í rétti ofurborgaranna til að móðgast í sínum eigin orðræðuheimi og skilja útskýringuna og afsökunina eftir á borði „gerendanna“, hvaða nafni sem þeir nefnast. Því þarf hinn upplýsti maður dagsins í dag að takast á við hópmenningu nútímans sem birtist í grátmenningu, afturköllunarfári og samsemdarstjórnmálunum sem allt leiðir til útskúfunaráráttu. Lykilþáttur í þessu er að stýra fjölmiðlaumræðunni og skapa hávaða á samfélagsmiðlum.“
Það er margt sem styður að þetta hafi mest með það að gera að skautun hefur aukist í bandarísku þjóðfélagi, miklu frekar en að breytt túlkun hæstaréttar frá 2010 varðandi fjárframlög hafi sett eitthvert ferli af stað eins og Þorvaldur Gylfason prófessor hélt fram í viðtali á Stöð 2. Eins og flestum er ljóst eru Bandaríkin ríkjasamband og sambandið ferðast um í hæðum og lægðum. Á milli ríkjanna hafa ávallt verið ólíkar menningarlegar og stjórnmálalegar áherslur. Þannig hafa demókratar verið sterkari á vestur- og austurströndinni á meðan repúblikanar hafa sótt fylgi sitt inn í miðjuna en þetta byggir vissulega á einföldunum. En þetta birtist meðal annars í því að borgir eins og New York og Kalifornía eru alfarið á valdi demókrata eins og sést af kjöri Alexandriu Ocasio-Cortez sem í raun má kalla sósíalista. Hún hélt sæti sínu í fulltrúadeildinni en hefur gagnrýnt árangur demókrata í kosningunum harðlega enda ætlar hún sér stærra hlutverk í framtíðinni. Hún kennir meðal annars um þjónkun demókrata við ríkistjórann Andrew Cuomo sem íslenskir álitsgjafar Ríkisútvarpsins töldu líklegan forsetaframbjóðenda fyrir ekki svo löngu síðan en nú er öldin önnur og hann úthrópaður #meetoo-dólgur.
Er Ríkisútvarpið bergmálshellir?
En það er svo að þrátt fyrir stöðugt fjölbreyttari tækifæri til að hafa samskipti og skiptast á skoðunum færast fleiri og fleiri innar í sinn eigin bergmálshelli. Fjölmiðlar eru ekki ónæmir af þessu og sumir beinlínis virðast mótast í þessu andrúmsloft og hafa misst getuna til að endurvarpa ólíkum sjónarhornum. Það er sérlega meinlegt þegar það gerist með fjölmiðil eins og Ríkisútvarpið sem eðli málsins hefur sterkt dagskrárvald enn þann dag í dag. Ekki endilega um það hvað er til umræðu heldur hverjir eru í umræðunni.
Þetta sést einkar vel í afstöðu starfsmann Ríkisútvarpsins til stjórnmála í Bandaríkjunum en ef einhver finnst hliðhollur repúblikönum þá heyrist í það minnsta ekki í honum í sölum Ríkisútvarpsins. Þegar kemur að greiningu á ástandi mála í Bandaríkjunum höfum um allt langt skeið verið háð stjórnmálaskýringum Silju Báru Ómarsdóttur stjórnmálafræðings sem á þessum tíma hefur forframast og er nú prófessor við Háskóla Íslands. Silja Bára féll nánast í ómegin kosninganóttina þegar Donald Trump var heldur óvænt kosinn forseti Bandaríkjanna árið 2016 og átti augljóslega erfitt að sinna hlutverki stjórnmálaskýrandans. Það má kannski segja Silju Báru til hrós að hún hefur náð aðeins betri tökum á hlutdrægni sinni með tímanum og fer varlegar í fullyrðingum þó hún sé ennþá sami demókratinn enda fyrrverandi frambjóðandi Samfylkingarinnar og stoppar gjarnan við á kosningavökum demókrata þegar hún er á ferðinni í vestan hafs. Nú hefur þáttastjórnandinn Egill Helgason lýst svipuðum líkamlegum viðbrögðum við kosningu Donalds á sínum tíma og hlotið lof fyrir í sínum bergmálshelli.
Það er ótvírætt að Donald Trump hefur frá upphafi fyrirlitið það pólitíska vald sem safnast hefur saman í Washington eða nánar tiltekið á Capitol Hill en það er ekki endilega það sama og að fyrirlita lýðræðið eins og margir andstæðingar hans leggja honum á háls. Með því er ekki verið að gera lítið úr áhrifum Trump enda virðast andstæðingar hans lítið um annað geta hugsað. Þeim til hugarhægðar virðist kosningin nú ekki endilega styðja framboð Trumps til forseta í næstu kosningum en hann hefur boðað tilkynningu þar um á fimmtudaginn kemur.
Löng saga kosningasvindls
Það er ekkert að því að Silja Bára útskýri ástandi þar vestra en það gæti verið áhugavert að hleypa öðrum að líka, jafnvel einhverjum sem gæti haft skilning á sjónarmiðum repúblikana. Þannig gæti umræðan orðið dýpri og málefnalegri í stað þess að allir hljómi eins. Sum mál hafa á sér tvær hliðar og má þar nefna fyrirkomulag kosninga og hættu á svindli. Það er ekki nýtt að talað sé um kosningasvindl í Bandaríkjunum og það er stutt sterkum rökum í dag að slík svik hafi átt drjúgan þátt í að koma John F. Kennedy í forsetastólinn 1960. Aftur og aftur kemur upp ágreiningur og var líklega hatrammastur þegar Al Core vildi ekki samþykkja úrslit forsetakosninga árið 2000 en pistlaskrifari rakti málsatvik þar í nokkuð ítarlegu máli hér.
Það skiptir líka miklu að breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi kosninga, meðal annars vegna þess að hin einstöku ríki hafa nokkuð frjálsar hendur þar um. Þannig hefur verið dregið mjög úr kröfum um framvísun skilríkja sem eðlilega getur skapað tortryggni. Það eru einkum demókratar sem vilja slaka á kröfunni þar um með vísun í að það sé íþyngjandi fyrir minnihlutahópa. Á móti hafa komið upp dæmi þess að kjósendur misnoti þetta og kjósi oft og endurtekið. Þá er notkun rafrænna kosningavéla og meðhöndlun kjörgagna þeim tengd flókin og getur skapaða vandamál. Slíkum tilvikum virðist fara fjölgandi milli kosninga.
Þá er það ekki sanngjarnt að segja að repúblikanar einir leggi fram ásakanir um kosningasvindl. Það á einnig við um demókrata og ef þeim hentar þá draga þeir niðurstöðu í efa. En fjölmiðlar hafa smíðað hugtakið kosningaafneitari (election denier) utan um afstöðu repúblikana. En til að gæta sanngirni mættu þeir horfa til tals demókratans Stacey Abrams sem tapaði aftur í ríkistjórakosningu í Georgíu fyrir Brian Kemp og endurtekur nú ásakanir sínar um að rangt sé haft við í kosningum og jafnvel kosningasvindl.
Ólíkur stuðningur kjósendahópa
Bandaríkin eru og hafa verið bræðslupottur ólíkra menninga og kynþátta þó lengstum hafi hvítir mótmælendur (stundum kallaðir WASP eða White Anglo-Saxon Protestants) mótað þjóðfélagsgerðina. Allt hefur þetta áhrif á kosningahegðun og í kosningunum núna var þetta áberandi. Þannig nutu repúblikanar meirihlutastuðnings meðal hvítra á meðan aðrir kjósendahópar studdu undantekningalítið demókrata. Hvort þarna megi sjá vaxandi skautun skal ósagt látið.
En átakamál geta haft ólík áhrif á hina einstöku hópa. Átök um þungunarrof geta til dæmis haft áhrif á afstöðu meðal spænskumælandi (latinos) en þeim fjölgar stöðugt í Bandaríkjunum. Áhrif kaþólsku kirkjunnar eru mikil þar og þessi hópur á erfitt með að sætta sig við þungunarrof en í kjölfar nýlegs úrskurðar hæstaréttar var ákvörðun um það færð til ríkjanna en það byggir á grunnhugmynd bandarísku stjórnarskrárinnar. Að ríkin sjálf takist á um dýpri siðferðileg áleitaefni sem virðast þrátt fyrir allt gjarnan vera á borðum bandarískra kjósenda. Það er ekki óeðlilegt að þau kalli á átök og tilfinningar sem getur verið erfitt fyrir utanaðkomandi að setja sig inní.