c

Pistlar:

23. nóvember 2022 kl. 17:09

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Efasemdir um innflytjendastefnuna aukast

Á Íslandi og hinum Norðurlöndunum eru svo ríkuleg velferðarkerfi að heimurinn öfundar þessi lönd. Aðflutningur fólks skapar vaxandi álag á þessi velferðarkerfi og hér á Íslandi sjáum við að aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur kostar meira og meira með hverju árinu. Hér í pistli fyrir rúmum tveimur árum var vakin athygli á því að ekki þurfi mikið að gerast til að þessi liður vaxi enn hraðar, jafnvel svo mjög að hann hafi óhjákvæmilega áhrif á getu samfélagsins til að sinna öðrum skyldum sínum. Ákvarðanir sem teknar eru af tilfinningu augnabliksins geta þannig unnið gegn skynsamlegri nýtingu fjármuna. Það er jú hægt að gera það sama fyrir 100 manns og hægt er að gera fyrir einn ef skynsamar ákvarðanir eru teknar.hæli

Fjármunirnir nýtast best ef þeim er varið sem næst heimkynnum flóttamannanna, allar rannsóknir sýna það. Þá er hægt að hámarka hamingju sem flestra. Á þetta er bent aftur og aftur en ekkert breytist og nú er rætt opinberlega um að móttaka flóttamanna kosti íslenskt samfélag 10 milljarða króna í ár en flestir vita að þar til viðbótar er verulegur falinn kostnaður sem birtist í auknu álagi á velferðar- heilbrigðis- og menntakerfið.

Eðlilega spyr fólk, hver sé stefna íslenskra stjórnvalda í flóttamannamálum? Að hafa landið algerlega opið og taka við öllum sem hingað leita? Að hingað komi á ári nokkur þúsund manns og móttaka flóttamanna verði þannig stærsti útgjaldaliður íslenska velferðakerfisins? Vissulega tala margir óábyrgir stjórnmálamenn þannig en almenningur sér í gegnum það eins og nýjar kannanir sína.

Afstaðan harðnar

Fréttablaðið greindi frá í gær að ný könnun fyrirtækisins Prósents sýndi að afstaðan til flóttafólks hefur harðnað. Alls er sveiflan tíu prósent frá þeim sem telja að Ísland veiti of fáu flóttafólki hæli yfir til þeirra sem telja Ísland veita of mörgum hæli. Það er mikil breyting á stuttum tíma og það þrátt fyrir að umfjöllun fjölmiðla byggist á nokkurri feimni við vandamálið. 33 prósent svarenda í könnuninni telja Ísland veita of mörgum flóttamönnum hæli. Fyrir tæpu hálfu ári var hlutfallið 22,5 prósent. Að sama skapi hefur hlutfall þeirra sem telja Ísland taka við of fáum lækkað úr 40,4 prósentum í 31.

Í dag fer Fréttablaðið á stúfanna og leitar viðbragða. „Fólk talar á villandi hátt um þessi mál. Vissulega fylgja því útgjöld að taka á móti fólki en líka ávinningur,“ segir Nichole Leigh Mosty, forstöðumaður Fjölmenningarseturs, í samtali við Fréttablaðið. Verðbólgan og slæmar efnahagshorfur hérlendis og erlendis hafi áhrif. Hún segir félagsráðgjafa og aðra sem starfa með flóttafólki þekkja best þann ávinning sem hlýst af því að taka við fólki. „Það vantar fólk og fjölbreytni er frábær fyrir samfélagið,“ segir hún.

Getur verið að fólk, aðrir en forstöðumaður Fjölmenningarsetursins, átti sig á að það er ekki sami hluturinn, að fá fólk inn í atvinnulífið og að taka við innflytjendum í gegnum velferðakerfið?hæli2

Er umræðan villandi?

Þegar litið er til nágranalanda og þróunarinnar þar er augljóst að við erum nokkrum árum á eftir en erum að gera þau mistök sem nágranalönd okkar, eins og Danir og Svíar, hafa reynt að takast á við. Því er undarlegt að lesa haft eftir Atla Viðari Thorstensen, sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða krossins, í Fréttablaðinu í dag að umræðan um flóttafólk og kostnað sé oft villandi. Bendir Atli á skýrslu Arion banka frá árinu 2015 þar sem kom fram að hagræn langtímaáhrif komu flóttafólks væru jákvæð. Það er auðvitað svo að nýtt fólk getur auðgar samfélagið og getur einnig haft jákvæð áhrif. En það er ekki sama hvernig staðið er að málum.

Aðspurð segir forstöðumaður Fjölmenningarsetur í Fréttablaðinu að ekki sé endilega að óttast að kynþátta- eða útlendingahatur sé að aukast. Hins vegar sé könnunin vísbending um að þörf sé á að spyrna við. Ríkið þurfi að verja meira fé í fjölbreytnifræðslu, til dæmis á vinnustöðum og stofnunum. „Viðhorfið er númer eitt,“ segir hún og bendir á að fólk sem starfar með flóttafólki telur efnahagsmálin og orðræðu fólks á samfélagsmiðlum og víðar spila inn í aukna andstöðu við komu flóttafólks. Nauðsynlegt sé að auka fræðslu og spyrna við þróuninni.

Fræðsla er góðra gjalda verð en það er líka mikilvægt að segja satt og rétt frá og leyna ekki staðreyndum svo sem vegna kostnaðar og álags á velferðarinnviði landsins. Það áttar almenningur sig á. Erlendis hefur það gerst að fleiri og fleiri vantreysta upplýsingagjöf meðal annars vegna nálgunar fólks sem neitar að horfast í augu við staðreyndir málsins.

Það er ömurleg niðurstaða ef ekki tekst að reka innflytjendastefnu sem almenningur í landinu sættir sig við. Það er einnig slæmt ef nýtt fólk hér á landi upplifir sig ekki velkomið og nær ekki að aðlagast. Vítin eru til staðar. Farsælast er að fara varlega í innflytjendamálum og leita eftir sátt við almenning en ekki reyna að þvinga hana fram.