c

Pistlar:

25. nóvember 2022 kl. 10:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Viðtal aldarinnar byggði á blekkingum og fölsunum

Í fimmtu og nýjustu þáttaröðinni um Krúnuna (The Crown) er ítarleg frásögn af hinu örlagaríka viðtali þáttagerðarmannsins Martin Bashir við Diönu prinsessu (1961 - 1997) árið 1995 en segja má að viðtalið hafi skekið breska fjölmiðlaheiminn æ síðan. Í Krúnunni er rakið hvernig Bashir með svikum náði trausti Diönu prinsessu og bróður hennar og notaði til þess fölsuð skjöl og stöðu og orðspor BBC. Það er ljóst að handritshöfundur þáttanna, Peter Morgan, telur þennan atburð skipta miklu fyrir sögu konungsfjölskyldunnar eins og hann rekur hana í þáttaröðinni. Sviðssetning hans telst vera mjög nákvæm og sannleikanum samkvæmt en hafa verður í huga að BBC hét því að sýna þátt Bashri aldrei aftur. Hann er því bara til í sjóræningjaútgáfum, klippum og uppskrifum. Sviðsetning Peter Morgan skiptir því miklu máli.dinna1

Margt hefur verið upplýst um atburðarásina en þættirnir bæta eigi að síður mörgu við. Upphaf málsins má rekja til þess að Martin Bashir vingaðist við Charles Spencer, bróðir Díönu prinsessu, með því að sýna honum falsaða pappíra til að vekja áhuga hans. Samkvæmt þáttunum hafði Bashir undirbúið sig rækilega áður en hann fór af stað gagnvart systkinunum. Í framhaldinu kynnir Charles síðan Diönu fyrir Bashir og er rakið nákvæmlega í myndinni hvernig hann blekkir hana í viðtal með því að ná trúnaði hennar með fölsuðum bankayfirlitum og ósönnum kjaftasögum, meðal annars um meint framhjáhald Karls með barnfóstrunni Tiggy Leggy-Bourke. Einnig sýndi Bashir henni fölsuð bankayfirlitin sem áttu að sýna að leyniþjónustan hefði greitt háttsettum starfsmönnum bresku hirðarinnar fyrir upplýsingar um Díönu. Þá dró Bashir fram reikninga sem áttu að sýna að einkaritari Diönu tæki þátt í njósnunum. Allt studdi þetta vaxandi tortryggni og vænisýki sem var að grafa um sig hjá Diönu.


BBC í breyttum heimi

Bashri tók viðtalið upp undir merkjum fréttaskýringaþáttarins Panorama og það fékk gríðarlegt áhorf en talið er að 23 milljónir manna hafi horft í beinni útsendingu sem er fáheyrt. Í 25 ár var það lofað sem eitt af fréttaviðtölum aldarinnar. Engum blöðum er um það að fletta að Bashri beitti alvarlegum blekkingum og fölsunum til að fá viðtalið en Diana valdi þó orð sín sjálf og hefur sjálfsagt meint það á þeim tíma eins og þættirnir um Krúnuna sýna. Sum ummæli Díönu í þættinum lifa enn sem hluti af minningu um líf hennar. Vitaskuld hafði áhrif að Bashri var búinn að stilla upp sögunni (narratívínu eins og sagt er á vondri íslensku) og hún féll fyrir blekkingunni.

En í þáttunum er staða BBC einnig dregin inn í málið en fyrirtækið bjó við innri átök um hvert skyldi stefnt í dagskrárstefnu ríkismiðilsins í fjölmiðlaheimi sem var að taka miklum breytingum. Morgan fléttar öllum þessum átakaþáttum vel saman og setur framleiðslu og birtingu þáttarins í áhugavert samhengi, þó sjálfsagt sé hann að taka sér ákveðið skáldaleyfi þar.diana2

Vildu ekki rannsaka málið í fyrstu

Charles Spencer fór strax fram á að ríkisútvarpið breska bæði fjölskyldu hans og almenning afsökunar þegar upp komst árið 2020. Fyrstu viðbrögð BBC við ásökununum komu frá Tim Davie, framkvæmdastjóra BBC, en hann hafnaði því að taka þær til rannsóknar en baðst afsökunar á notkun hinna fölsuðu gagna. Spencer sagðist hins vegar aldrei hafa kynnt systur sína og Bashir ef ekki hefði verið fyrir fölsunina og hann hefur látið hafa eftir sér að hann telji að bein tengsl séu á milli viðtalsins og dauða Diönu en. Þá sagði hann forsvarsmenn BBC ekki átta sig á alvarleika málsins en falsanirnar voru gerðar í grafíkdeild BBC og vörumerkið stofnunarinnar notað út í ystu æsar. Ekki síður það að Bashri starfaði við þáttinn Panorama sem var þekkt vígi rannsóknarblaðamennsku í Bretlandi og hafði Bashri þegið verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín. Er merkilegt að sjá hvernig bankayfirlitin voru hönnuð að forskrift fréttamannsins og sýnir glögglega hvað lítið þarf til þegar kemur að fölsun gagna.

Glæstur ferill eftir viðtalið

Bashir naut mikillar frægðar eftir viðtalið enda var það á hvers manns vörum eftir sýningu þess árið 1995. Bashir starfaði hjá BBC frá 1986 til 1999, meðal annars við Panorama áður en hann gekk til liðs við ITV. Þar stóð hann fyrir heimildarmynd um Michael Jackson árið 2003. Frá 2004 til 2016 starfaði hann í New York, fyrst sem stjórnandi (akkerismaður) fyrir ABC Nightline og síðan sem stjórnmálaskýrandi fyrir MSNBC. Þá var hann með eigin dagskrá og fréttaritari fyrir NBC Dateline NBC. Ýmislegt hefur gengið á hjá honum, 2008 var honum vikið frá tímabundið í kjölfar ummæla sem þóttu sýna mikinn dómgreindarbrest. Hann sagði af sér hjá MSNBC í desember 2013 eftir að hafa komið með „illa rökstudd“ ummæli um fyrrverandi ríkisstjóra Alaska og varaforsetaframbjóðandann Söru Palin. Árið 2016 sneri hann aftur til BBC sem fréttaritari um trúarmál. Hann hætti þar á síðasta ári í kjölfar uppljóstranina og glímir nú við heilsubrest.bash

Heim­ildarmyndin Diana: The Truth Behind the Interview var sýnd á Channel 4 í október 2020 og ásakanir Spencers voru birtar í Daily Mail mánuði síðar. Nefnd undir forystu Lord Dyson komast að því í fyrra að alvarleg brot hefðu átt sér stað við gerð þáttarins. Pistlaskrifari hefur ekki orðið var við að Ríkisútvarpið hafi tekið myndina til sýningar eða áformi það.

Þáttaröðin um Krúnuna nýtur fádæma vinsælda og það verður ekki tekið af Peter Morgan að vefur hans er glæsilegur þar sem hann dregur fram sagnfræðileg sannindi og skáldar af mikilli innlifun og þekkingu í eyðurnar. Það má ekki gleymast að þetta er leikið efni en mun án efa hafa mikil áhrif á viðhorf kynslóða til bresku konungsfjölskyldunnar.