Höfðu þá álhattarnir rétt fyrir sér? Eru undanfarnir sólahringar sigur fyrir samsærissmiði heimsins? Það er gaman að setja slíkar spurningar fram en öllu gamni fylgir nokkur alvara. Á föstudag birti blaðamaðurinn Mat Taibbi gögn úr fórum Twitter á Twitter sem Elon Musk, nýr eigandi og stjórnandi fyrirtækisins, hafði veitt honum aðgang að. Afhjúpa þessi gögn, sem eru fengin úr tölvukerfum fyrirtækisins það, sem margir hafa talað um sem samsæri fram að þessu. Nú sést svart á hvítu að starfsmenn Twitter beittu harðvítugri ritskoðun undir forskrift pólitískra afla og tóku þannig að sér að stýra samfélagsumræðunni eftir markmiðum sem voru almenningi og notendum miðilsins hulin. Þetta hafði augljóslega gríðarlega pólitíska þýðingu. Afhjúpunin sem felst í Twitter skjölunum eða Twitter Files, sem nú er svo kallað Twittergate, er í senn sláandi og óhugnanleg. Augljóst er að framferði stjórnenda Twitter gefur umræðustjórnun alræðisríkja lítið eftir.
En það er ekki síður merkilegt að horfa á viðbrögðin við afhjúpuninni nú tveimur dögum eftir að hún kom fram. Þannig má sjá að Twitter-heimurinn logar (sic!) en að mestu ríkir þögn á öðrum samfélagsmiðlum og er það sérlega áberandi á Facebook en óhjákvæmilega velta menn fyrir sér hvernig lítur óhreini þvotturinn út á þessum miðlum ef hann væri viðraður eins og Musk er nú að gera á Twitter? En það vekur ekki síður athygli að þögn ríkir á íslenskum fjölmiðlum og þegar þetta er skrifað er það aðeins Samstöðin sem hefur fjallað um málið fram að þessu. Má hafa í huga að þegar Musk tók yfir Twitter var mikið umræða um það í íslenskum fjölmiðlum hvaða afleiðingar það myndi hafa og margir álitsgjafar dregnir fram sem lýstu yfir ótta sínum með áform Musk. Gott ef ekki var heill Kastljós-þáttur tekin undir það í Ríkissjónvarpinu. Hvað skyldi það fólk segja núna þegar Twitter skjölin eru að birtast?
Annars hefur Elon Musk gefið það út að þessi afhjúpun á föstudag sé einungis byrjunin. Fljótlega munu fleiri afhjúpanir koma fram. Fróðlegt verður að sjá hvar kemur næst, en vitað er að margir vilja vita hvernig allri umræðu um Covid 19 var haldið niðri, og þá hverjir tóku þær ákvarðanir.
Demókratar stýrðu umræðunni
En frá umræðu um umræðuna yfir í gögnin sjálf. Hvað eru Twitter skjölin að sýna okkur? Jú, þau sýna að starfsfólk Twitter vann mjög náið með stjórnmálafólki, einkum úr Demókrataflokknum, við að ritskoða efni á samfélagsmiðlinum. Gögnin sýna líka hvernig yfirmenn fyrirtækisins beittu fyrir sig röngum fullyrðingum til þess að réttlæta allsherjar ritskoðun frétta sem byggðu á gögnum úr fartölvu, Hunter Bidens, sonar Joe Biden, þá forsetaframbjóðanda demókrata, vikurnar fyrir kosningarnar 2020.
Gögnin sýna meðal annars tölvupóstsamskipti þar sem starfsfólk stjórnstöðva Demókrataflokksins sendir beiðnir til Twitter um að fjarlægja fjölda færslna. Fyrirtækið hafði þróað aðferðir til að stöðva ruslpóst og annað óæskilegt efni en með tímanum voru þessi tæki notuð til að fjarlægja óheppilegar upplýsingar og skoðanir pólitískra andstæðinga og almennra kjósenda. Fyrir kosningarnar 2020 tóku starfsmenn Twitter við óskum frá báðum flokkum og fjarlægðu efni eftir pöntunum.
Bæði Demókratar og Repúblikanar reyndu að nota tengsl sín við starfsfólk Twitter til að þrýsta á um ritskoðun. Vandi Repúblikana var hins vegar sá að nær allir starfsmenn Twitters fylgdu demókrötum að málum. Því hafði flokkurinn mun betra aðgengi og möguleika til að fá sínu fram. Gögn frá vefsíðunni OpenSecrets sýna að meira en 98% allra styrkja starfsfólks Twitter til stjórnmálaflokkanna fóru til demókrata árið 2020. Það var í þessu andrúmslofti sem hin ótrúlega ákvörðun var tekin að slökkva á Twitter-aðgangi Donalds Trumps, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Nú er að fást betri mynd af því hvernig að þeirri ákvörðun var staðið.
Stöðvuðu fréttir úr fartölvu Hunter
Þá sýna gögnin að yfirmenn fyrirtækisins ákváðu, að ritskoða fyrir síðustu kosningar allar fréttir sem tengdust alræmdri fartölvu Hunter Biden. Þeir sem fylgdust með fréttum tóku eftir því að New York Post (NYP) birti fréttir úr tölvu Hunter þremur vikum fyrir kosningarnar 2020. Heimildarmennirnir voru sagðir vera þeir Steve Bannon fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trump og Rudy Guiliani, lögmaður hans, en hann var sagður hafa látið blaðið hafa eintak af harða drifinu. Fréttin var strax dregin í efa af meginstraumsmiðlum og notendur Twitter gátu ekki deilt henni eða sent hana áfram á miðlinum. Til að réttlæta ritskoðunina vísaði fyrirtækið í reglur sínar um stolin gögn þótt ekki hafi verið sýnt fram á að fartölvunni hafi raunverulega verið stolið. Eins og NYP sagði þá þegar hafði Hunter Biden gleymt að sækja tölvuna úr viðgerð á tölvuverkstæði og þannig komust gögn úr henni í umferð.
Samkvæmt gögnum af fartölvunni kynnti Hunter Biden föður sinn, þáverandi varaforseta Joe Biden, fyrir æðsta stjórnanda úkraínska orkufyrirtækisins Burisma innan við ári áður en Biden þrýsti á embættismenn í Úkraínu til að reka saksóknara sem var að rannsaka fyrirtækið. Þá var Hunter Biden á launum sem námu 50 þúsund bandaríkjadölum á mánuði frá fyrirtækinu þrátt fyrir litla þekkingu á málefnum þess eða orkumarkaði Úkraínu.
Andúð á Trump leiddi til þöggunar
Erlendir og innlendir miðlar hafa átt í miklum erfiðleikum með fartölvumálið en augljóslega hefðu fréttir um hana nýst kosningabaráttu Donalds Trump enda höfðu menn honum tengdir barist fyrir birtingu hennar. Að lokum virtist það verða óskrifað samkomulag milli stjórnenda samfélagsmiðla og meginstraumsmiðla að hafna tilvist gagna úr tölvu Hunters og koma í veg fyrir nokkra umræðu þar um.
Í mars á þessu ári viðurkenndi ritstjórn The New York Times loksins tilvist fartölvu Hunter Biden. Íslenskir fjölmiðlar tóku svipaða afstöðu. Vísir.is sagði fréttina af fartölvunni „vafasama“ í fyrirsögn og að FBI væri að rannsaka hvort um upplýsingahernað Rússa væri að ræða. Nú hefur komið í ljós að svo reyndist ekki vera. Jafnframt sýna skoðanakannanir nú að vitneskja um tölvuna og það sem á henni var kunni að hafa breytt nægjanlega mikið afstöðu margra Bandaríkjamanna til að breyta úrslitum kosninganna.
Fyrir nokkrum dögum áminntu embættismenn Evrópusambandsins Elon Musk fyrir að hafa aflétt ritskoðun og opna áður lokaða reikninga, meðal annars hjá Donald Trump. Ókjörnir embættismenn sambandsins hafa lýst yfir að sambandið vilji að Twitter hlýði vissum reglum sambandsins sem Musk telur að feli í sér ritskoðun. Ljóst er að baráttan um Twitter, tjáningarfrelsi og þó ekki síst umræðustjórnun mun halda áfram.
Nú bíðum við eftir næstu afhjúpun en þess er vænst að þær kunni að verða allnokkrar á næstu dögum og vikum.