c

Pistlar:

15. desember 2022 kl. 17:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Verður Rúanda að fjármálamiðstöð?

Í flestum tilfellum streymir fjármagn sem myndast vegna atvinnurekstrar frá Afríku til erlendra fjármálamiðstöðva og svo hugsanlega til baka í formi fjárfestinga og aðstoðar. Það er í raun erfitt að átta sig almennilega á hringrás peninga í þessari næstfjölmennustu álfu heims sem er þar að auki ekki þekkt fyrir fjármálamiðstöðvar eða yfir höfuð mikla þekkingu á banka- og fjármálastarfsemi. Þessu vilja stjórnvöld í Rúanda breyta en segja má að metnaður stjórnvalda þar sé talsverður og á sumum sviðum hefur ríkið notið furðu mikillar velgengni og framþróunar frá því að þjóðarmorðin hryllilegu áttu þar stað fyrir bráðum þrjátíu árum.kikagi

Rúanda er til þess að gera lítið ríki, landlukt og ekki með miklar náttúruauðlindir. Á afrískan mælikvarða hefur landið fáa möguleika til að auðgast. En eins og við þekkjum af löndum eins og Sviss, Danmörku og Lúxemborg þarf ekki alltaf miklar náttúruauðlindir til að efnast, hugmyndaauðgi og kannski pínulítil bankastarfsemi getur hjálpað til þess. Nú róa Rúandabúar að því öllum árum að skapa fjármálamiðstöð í höfuðborginni Kigali. Stjórnvöld hafa sett lög sem ætlað er að auðvelda fjármálastarfsemi og draga að fjárfesta. Um leið hafa verið gerðir samningar við bankamiðstöðvar í fjarlægum löndum eins og Marokkó og Belgíu. Ætlunin er að gera Rúanda að gátt inn í Afríku hefur tímaritið Economist eftir Nick Barigye, framkvæmdastjóra Rwanda Financial Limited, en það er stofnunin sem rekur framtakið.

Fleiri afrískar borgir

Kigali er þar með komin í hóp þeirra borga í Afríku sem reyna að byggja upp slíka starfsemi en um þessar mundir fljóta fjármunir þaðan helst í gegnum aflandsreikninga á til dæmis Mauritíus sem er eyríki á Indlandshafi. Og fleiri íhuga það sama. Embættismenn í Kenýa gengu nýlega frá samkomulagi við aðila í fjármálahverfinu í Lundúnum um að setja upp fjármálamiðstöð í höfuðborginni Nairobi.

Ghana er einnig að vinna með svipaðar áætlanir og þar hafa menn sagt að Accra geti orðið orðið miðstöð fyrir lífeyrissparnað og einkafjárfesta, nokkurskonar Singapore Vestur-Afríku. Sumir myndu telja þetta nokkuð bjartsýn áform en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilkynnti í gær að hann hefði fallist á að veita Ghana 3 milljarða Bandaríkjadala (426 milljarða króna) neyðarlán. Með fylgja yfirlýsingar um endurskipulagningu fjármála og skulda en verðbólgan æðir áfram og greiðslubyrði lána hefur rokið upp úr öllu valdi. Ghana er, öfugt við Rúanda, ríkt af náttúruauðlindum eins og fjallað hefur verið um hér í pistli. Landi vinnur mikið gull og kakóræktun er umtalsverð auk þess sem landið býr yfir olíulindum og þó einkum ríkulegum gaslindum.afrikp

Eru nauðsynlegir innviðir til staðar?

En margir hafa verið að kynna fyrir stjórnvöldum í Afríku möguleika þess að efla og styrkja fjármálastarfsemi og menn reynt að gylla fyrir heimamönnum möguleika þess. Þó er ljóst að það þarf verulega sérfræðikunnáttu á sviði laga, endurskoðunar og fjártækni til að geta sett upp slíka starfsemi. Efast má um að slíkir innviðir séu til staðar í umræddum löndum og hingað til hefur flæði út úr hagkerfunum verið vandamál.

Það ýtir án efa eftir áhuga heimamanna að slíkar fjármálamiðstöðvar gætu auðveldað að koma upp virkri verðmyndun á skuldabréfum og jafnvel hlutabréfum frá nærliggjandi svæðum. En samstarfið milli fjármálahverfis Lundúna og Kenýa gæti auðvitað gefi fyrirtækjum í síðarnefnda landinu tækifæri til þess að selja verðbréf víðar.

Skjól fyrir flóttamenn og peninga

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, heimsótti haustþingi Alþjóðaþingmannasambandsins í Rúanda í haust, meðal annars til að kynna sér aðstæður fyrir flóttamenn en nokkrar þjóðir hafa íhugað að senda flóttamenn þangað. „Þetta er land sem hefur náð alveg ótrúlegum árangri á tiltölulega fáum árum eftir hræðilega borgarastyrjöld og fjöldamorð. Þá er þetta land farið að kynna sig sem öruggasta land Afríku,“ sagi Sigmundur í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins við heimkomuna. Nú er spurning hvort Rúanda verður skjól bæði fyrir flóttamenn og peninga.