c

Pistlar:

21. desember 2022 kl. 10:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lárus Welding: Bankamaður segir frá


Áhrif bankahrunsins fyrir rúmlega 14 árum voru gríðarleg og þau hafa mótar þjóðmálaumræðuna síðan og munu án efa gera um ókomin ár. Enn erum við að fá nýjar upplýsingar og nýja sýn á það sem gerðist í hruninu bæði í aðdraganda þess og ekki síður í eftirmálanum. Ný bók, Uppgjör bankamanns, eftir Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, veitir mikilvæga innsýn í atburðarásina og nauðsynlegt rit til dýpri skilnings á lykilþáttum bankahrunsins. Lárus var einn af „gerendunum“ ef svo má kalla, þeim hópi sem margir töldu bera ábyrgð á því hvernig fór. Að sumu leyti er það ósanngjarnt, og sérstaklega hvað varðar Lárus sem var lengst af starfaði erlendis og tók ekki við sem bankastjóri fyrr en óveðurskýin höfðu hrannast upp. Hugsanlega var allt komið í óefni strax í sumarbyrjun 2007 þegar íslenska hlutabréfavísitalan sló öll fyrri met en um það leyti tók Lárus við bankastjórastólnum, þá þrítugur að aldri.

En þessir 17 mánuðir sem Lárus stýrði bankanum reyndust örlagaríkir fyrir hann. Allt síðan Lárus hætti störfum hjá bankanum í október 2008 hefur hann háð sína baráttu í réttarkerfinu, fyrir öllum dómstigum innanlands, með fjölmargar ákærur á bakinu. Hann þurfti að þola dóma í nokkrum málum en sat þó aldrei inni umfram gæsluvarðhaldsvist. Málareksturinn hefur afhjúpað veikleika réttarkerfisins og sum málanna eru enn til meðhöndlunar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu. Það sjá allir að það er umdeilanlegt og í raun ómannúðlegt að láta fólk bera stöðu sakbornings í á annan áratug. Það er heldur ekki hægt að kenna sakborningum um þó að þeir beiti öllum réttarfarsúrræðum við vörn sína, það er réttur hvers manns. Enginn er jú sekur nema sekt sé sönnuð. Eins og Lárus rekur vel þá er mjög erfitt að lifa við það að vita ekki hvenær ákærendurnir leika næsta leik eða hvaða forsendur eru fyrir ákvörðun ákæruvaldsins. Við lestur bókar Lárusar fáum við einstaka sýn í þá hlið réttarfarsins.welding

Pólitískt ákæruvald

Hér hefur áður í pistlum verið rætt um hið sérstaka ástand sem myndaðist eftir hrun þar sem stjórnmálin hófu bein afskipti af réttarkerfinu, meðal annars í gegnum hin franska ákæranda Evu Joly sem hópur vinstri manna bauð sérstaklega til landsins og var í framhaldi þess gerð að ráðgjafa sérstaks saksóknara í hrunmálum. Það var mjög misráðin. Þegar á reynir verða ráðamenn að virða þá stjórnarskrá sem gildi og tryggja að valdi sé ekki misbeitt, það er án efa ein af stóru lexíunum eftir hrunið. En átti ekkert að gera? Vissulega vafðist fyrir landsmönnum að skilja hvernig fór og margir fóru illa út úr bankahruninu, hér verður ekki gert lítið úr þjáningum þeirra sem sáu sína fjárhagslegu tilveru hrynja. Mikilvægt er að fá skilning á því sem gerðist svo hægt sé að forðast atburðarás af líku tagi, sé mönnum yfir höfuð gefið að læra af slíkum atburðum.

En voru refsiverð brot framin? Lárus bendir á að margt af því sem hann var ákærður fyrir (en ekki til dæmis forveri hans) voru starfsaðferðir og verkferlar sem höfðu viðgengist lengi. Hann og aðrir bankamenn hafi orðið að verjast ákærum um refsiverða háttsemi eftir nýjum skilgreiningum á umboðssvikum, auk þess sem hugtakið „fjártjónshætta“ varð allt í einu fyrirferðarmikið þó leikmönnum birtist það sem réttarfarslegur óskapnaður. Það er merkilegt að lesa sig í gegnum einstök refsimál og þá ekki síður að lesa um það í hvaða stöðu dómarar landsins komu sér, hafandi áður verið fjárfestar í þessum sömu bönkum. Fjártjón þeirra sjálfra og aðkoma að dómsmálum í ljósi umræðu um vanhæfni sýna hve einstakur atburður íslenska bankahrunið var.

Sem gefur að skilja er uppbygging bankakerfisins og málareksturinn eftir hrunið fyrirferðarmikill í bók Lárusar. En hann hann segir jafnframt sína sögu og ekki verður séð að hann hlífi sjálfum sér og hann segir skilmerkilega frá því hvaða áhrif þetta hafði allt á líf hans og fjölskyldu hans. Lárus gengst við áfengisvanda sínum og þunglyndi og sigrast á hvoru tveggja. Sagan er þannig öðrum þræði saga manns sem er stöðugt að meta eigið líf og horfir um leið gagnrýnum augum á verk sín og ákvarðanir. Lesandanum birtist einlægur og hæfileikaríkur maður sem gengst við veikleikum sínum á trúverðugan hátt. Hvort fólk lætur þar við sitja er annað mál.

Mistök í bankakerfinu

Það er fróðlegt að fá innsýn í bankarekstur og umsvif íslenska bankakerfisins fyrir hrun en Lárus var lengst af staðsettur í Lundúnum sem lykilstarfsmaður Landsbankans þar. Hann kemur því að mörgum þeim stóru útrásarverkefnum sem urðu að veruleika á árunum 2003 til 2007, flest í gegnum Baug og umsvif Jóns Ásgeirs Jóhannessonar en um málsvörn hans var fjallað hérá sínum tíma. Augljóslega er Lárus inni í hringiðjunni miðri og því kemur eilítið á óvart að hann skyldi ekki sjá betur þann vanda sem við blasir þegar hann tekur við sem bankastjóri. Hann er þó fullkomlega heiðarlegur með það, játar að margt fór fram hjá honum og veltir fyrir sér hvaða grundvallarmistök voru gerð í uppbyggingu íslenska fjármálakerfisins og orsökuðu fall þess. Vitaskuld er hér um flókna greiningu að ræða en frásögn Lárusar er upplýsandi og mjög skilmerkileg þannig að lesendur fá góðan skilning á undirliggjandi þáttum, hvort sem þeir hafa þekkingu á bankarekstri eða ekki.larus2

Margar spurningar hafa vaknað um orsakir bankakerfisins og ekki síður um viðbrögðin þegar allt stefndi í óefni. Lárus gerir vel að draga fram það sem gerðist hér í samhengi við atburðarásina erlendis. Vissulega var íslenska bankakerfið risavaxið sem hlutfall af landsframleiðslu og stjórnendur bankanna gerðu sér grein fyrir því. Lárus rekur ágætlega þann fjármögnunarvanda sem tók við um nánast um leið og hann settist í stól bankastjóra. Hann setur „litlu“ bankakreppuna 2006 í áhugavert samhengi en þá töldu menn sig hafa komist fyrir horn og söfnun á innlánareikninga hefði verið lexían sem varð að læra af því. Það reyndist skammgóður vermir, innlánareikningarnir, Icesave og Kaupthing Edge, kölluðu á reiði meðal erlendra bankamanna sem fóru að beita sér gegn íslensku bönkunum. Veikleikar þeirra urðu skotspón erlendra vogunarsjóða, að lokum veðjuðu flestir gegn íslensku bönkunum og krónunni. Við fátt var ráðið, hér voru reginöfl að verki.

Skýringar og sakborningar

Það var einn grunnþátta í bók Styrmis heitins Gunnarssonar, Umsátrinu, að Ísland hefði verið umsetið andsnúnum öflum. Með því var Styrmir ekki að fría landa sína ábyrgð en þetta er mikilsverður þáttur sem einnig birtist í rannsóknarskýrslu dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar þar sem vandlega er farið yfir hvernig lokað var á fjármögnun íslensku bankanna auk þess sem margir beinlínis nýttu sér vandræði þeirra. Enginn er annars bróðir í hinum alþjóðlega fjármálaheimi. Hannes taldi sig geta fundið fimm höfuðástæður fyrir hruni bankanna og var með ágætlega sannfærandi rök fyrir því. Skýringar Hannesar mótast af hinu pólitíska umhverfi. Lárus leitar á önnur mið, horfir inná við en afhjúpar um leið veikleikanna í íslenska bankakerfinu.

Það, hvar nákvæmlega sökin liggur, hefur verið einn helsti ásteytingasteinn íslensks samfélags undanfarin áratug. Ný bók um Landsdómsmálið er liður í uppgjörinu við þennan „sakamannatíma“ en Geir var einn stjórnmálamanna látinn bera pólitíska refsiábyrgð. Bók Lárusar er fyrsta andsvarið frá hópi um 200 bankamanna sem hafa sætt rannsóknum allan þennan tíma og ekki haft mörg tækifæri til að bera af sér sakir. Reiði margra er mikil enn þann dag í dag og það sést meira að segja núna, þrátt fyrir að mörgu leyti auðmjúkt og hógvært uppgjör Lárusar, geta margir ekki stillt sig í reiðilestrinum.

Hugsanlega var sundurlyndisfjandinn innanlands verstur, bæði á milli bankamannanna og ekki síður tortryggnin sem kom frá stjórnkerfinu og þá ekki síst Seðlabankanum. Lárus fer vel yfir atburðarásina þegar íslenska ríkið, eftir ráðgjöf Seðlabankans, tók yfir Glitni banka en hætti svo við þá ákvörðun nokkrum dögum síðar þegar ákveðið var að beita neyðarlögum og fella í raun íslenska bankakerfið. Frásagnir Lárusar af þessu dýpka mjög skilning á þeirri sögu en atburðarásin þessa daga í september og október var með þeim hætti að helst dettur manni í hug orðatiltækið, að ekki verði feigum forðað.larus3

Draumurinn um stórt bankakerfi

En hvað stuðlaði að því að við vorum í þessari stöðu, af hverju varð bankakerfið svona stórt? Rifja má upp að í skýrslu Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis kom fram að það hefði verið draumur þeirra hjá Kaupþingi að gera Ísland að fjármálamiðstöð og hefðu þeir þá meðal annars litið til reynslunnar frá Lúxemborg og Írlandi. Hefðu þeir spurt sig af hverju Íslendingar ættu ekki að gera hið sama. Um væri að ræða atvinnugrein sem þarfnaðist vel menntaðs starfsfólks, borgaði há laun, skapaði miklar skatttekjur og væri umhverfisvæn. Engum stjórnmálamanni sem þeir hittu hefði litist illa á hugmyndina, en á hinn bóginn hefði það verið svo, eins og Steinn Steinarr hefði orðað það, að „í draumi sérhvers manns er fall hans falið“ sagi Hreiðar.

En þó að draumurinn um stórt bankakerfi hafi ræst (sem var sannarlega draumur margra Íslendinga á meðan vel gekk) voru veikleikarnir margir. Í stuttu máli treystu íslensku bankarnir um of á fjármögnun á alþjóðlegum lánamörkuðum, eins og sumir stjórnendur hafa játað og Lárus gerir líka í bók sinni. Það var ekki hægt að byggja sjálfbært bankamódel á því að taka lán til skamms tíma og lána til langs tíma. Í grunngerðinni var hætta falin og þegar lánsfjármarkaðir tóku að þorna upp árið 2008 birtist hún af fullum þunga. Þetta vissu stjórnendur bankanna sjálfir og vildu því fá upplýsingar hver frá öðrum ef einhver lenti í erfiðleikum. Þeir vissu að vandi eins væri vandi allra. Um leið reyndu þeir að selja eignir og koma bönkunum úr krónuhagkerfinu en allt var það of seint gert.

Þegar á reyndi gat engin bjargað íslenska bankakerfinu, ekki seðlabanki landsins sem þó er lánveitandi til þrautavara og heldur ekki samstarf í hinum alþjóðlega fjármálaheimi því að endingu var hver að reyna að bjarga sjálfum sér. Gleymum ekki að hið alþjóðlega fjármálakerfi riðaði til falls eins og hefur komið skýrt fram í öðrum bókum og skýrslum um þessa tíma.

Lárus gengst við því að hafa kannski verið of bláeygður og opinskár í samskiptum sínum við Seðlabankann, hann hafi talið nauðsynlegt að draga ekkert undan en hlotið skammir fyrir hjá kollegum sínum sem treystu ekki Seðlabankanum. Er það réttmæt gagnrýni? Margir telja svo vera en enn og aftur spyrja menn sig hvort bönkunum hafi verið viðbjargandi eftir að fjármögnun Glitnis brást.

Lárus veltir mikið fyrir sér eigin hlutverki, hefði hann getað breytt einhverju sjálfur sem hefði kallað fram aðra og hagstæðari atburðarás. Hann svarar því svo sem ekki en í bókinni segir Lárus frá því þegar hann var beðinn að halda fyrirlestur fyrir MBA nemendur viðskiptadeildar Harvard-háskóla árið 2009. Hann fær spurningu um það hvað eigi forstjóri banka að gera ef svona hlutir endurtaka sig. Lárus svarar: „Segja upp störfum strax! Við þessar aðstæður ræður markaðurinn og Seðlabankinn miklu meira um örlög bankans en eitthvað sem forstjórinn gerir.“ (bls. 147)larus

Aftast í bókinni er viðauki þar sem farið er yfir helstu dómsmálin auk þess sem birt er tafla yfir „hrundómanna“. Það er forvitnilegt aflestrar en líklega á eftir að líða nokkur tími þar til fræðileg umræða um það sem gekk á í kringum bankahrunið kemst af stað. Þangað til er bók Lárusar mikilsvert innlegg, bæði vegna þess hve heiðarlegur hann er gagnvart lesendum sínum en ekki síður vegna þess samhengis sem hann setur bankarekstur og dómsmál í. Bókin er afskaplega lipur aflestrar og erfitt að leggja hana frá sér fyrr en að afloknum lestri. Hún er mikilvæg viðbót við uppgjörið við þessa tíma en það er langt í frá að öll sagan hafi verið sögð.

Uppgjör bankamanns
Höfundur: Lárus Welding
Útgefandi: Almenna bókafélagið
Útgáfuár: 2022
345 bls.