c

Pistlar:

29. desember 2022 kl. 13:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Alþingi og hungursneyðin í Úkraínu

Fyrir Alþingi liggur nú tillaga um að Alþingi álykti að lýsa yfir því að hungursneyðin í Úkraínu sem stóð yfir frá 1932 til 1933 hafi verið hópmorð en um er að ræða einn hræðilegasta atburð 20. aldarinnar. Þetta er svar við ákalli stjórnvalda í Úkraínu um að ríki heimsins lýsi því yfir að hungursneyðin í landinu (Holodomor) hafi verið hópmorð, (sem er notað í staðin fyrir þjóðarmorð einhverra hluta vegna). Fjölmörg ríki hafa nú þegar brugðist við ákallinu. Í þinginu virðist vera breið samstaða um málið en Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins er fyrsti flutningsmaður málsins. Þess má geta að sambærileg tillaga um hópmorð á Armenum hefur ekki náð fram að ganga og heldur ekki ályktun um að minnast fórnarlamba helfararinnar.holdomor

Árið 2013 skrifaði Ísland undir sameiginlega yfirlýsingu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að minnast þess að 80 ár væru liðin frá Holodomor. Yfirlýsingin var send aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Ísland tók undir sams konar yfirlýsingu árið 2008 ásamt 31 öðru ríki, meðal annars Norðurlöndunum, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Hópmorð var skilgreint sem sérstakur glæpur samkvæmt alþjóðalögum í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð frá 1949, en hann tók gildi árið 1951 og var fyrsti mannréttindasáttmálinn sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti. Ísland undirritaði hópmorðssáttmálann 14. maí 1949 og fullgilti hann 29. ágúst sama ár.

Uppgjör við „yndislega“ hungursneið

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hungursneyðin í Úkraínu var af völdum alræðisstjórnar Jósefs Stalíns og dró milljónir Úkraínumanna til dauða. Rússar hafa þó alla tíð neitað því að um hópmorð (e. genocide) hafi verið að ræða. Vegna stríðsins í Úkraínu kemur þetta mál aftur upp á yfirborðið en Úkraínumenn hafa minnt á það síðan þeir urðu sjálfstæðir.

En uppgjörið við Stalín, kommúnismann og hryðjuverk í hans nafni hefur verið erfið. Hér á Íslandi varð hungursneyðin tilefni mikillar umræðu á sínum tíma en af henni voru þó óljósar fréttir sem blandaðist inn í stéttapólitík þess tíma hér á landi.

Íslenskir stalínistar tóku til varnar þegar fréttir bárust af hungursneyðinni. Í október 1934 andmælti Halldór Kiljan Laxness skrifum Morgunblaðsins í tímaritinu Sovétvininum og hæddist jafnvel að henni: „Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilángt í „hungursneyðinni“ 1932. Það var yndisleg húngursneyð. Hvar sem maður kom, var alt í uppgángi.“

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur verið ötull við að minna á þessa sögu. „Þótt ótrúlegt megi virðast, eiga þeir Stalín, Laxness og Duranty enn sína liðsmenn. Í kennslubókinni Nýjum tímum eftir Gunnar Karlsson og Sigurð Ragnarsson, sem kom út árið 2006, var ekki minnst einu orði á hungursneyðina, heldur aðeins sagt, að Stalín hefði komið á samyrkju „í óþökk mikils hluta bænda“.“

Afleiðing samyrkjubúastefnu kommúnista

Fólk víðs vegar um Úkraínu varð fyrir miklum áhrifum af hungri og kúgun alræðisstjórnar Stalíns. Í greinargerðinni segir að hungursneyðin hafi verið bein afleiðing þvingaðrar stefnu Sovétríkjanna um samyrkjubúskap, auk þess sem svelti var kerfisbundið beitt sem refsingu, meðal annars ef bændur gátu ekki uppfyllt tilskilið afhendingarmagn. Svæðin sem urðu verst úti í þessum aðgerðum voru girt af til að koma í veg fyrir að hungraðir íbúar gætu flúið á milli svæða og til að koma í veg fyrir flutning matvæla til svæðanna. Talið er að allt að 33.000 manns hafi látist daglega meðan verst stóð árin 1932 og 1933 og gripu örvæntingarfullir Úkraínumenn til mannáts til að lifa af. Í Svartbók kommúnismans segir að hungursneyðinni miklu hafi sex milljónir manna soltið í hel á nokkrum mánuðum.

Markmið sovéskra stjórnvalda með sveltinu var enn fremur að bæla niður úkraínska þjóðarvitund. Úkraínumenn voru því vísvitandi sveltir í pólitískum tilgangi með ólísanlegum þjáningum. Hungursneyðin uppfyllir því skilyrði til að vera skilgreind sem hópmorð segir í greinargerðinni.holdo

Sósíalísku ríkin ekki með?

Með samþykkt þessarar tillögu til þingsályktunar myndu þingmenn bregðast við ákalli Úkraínu um að ríki heimsins lýsi því yfir að Holodomor hafi verið hópmorð, en fjölmörg ríki hafa brugðist við ákallinu. Þessi ríki eru nánar tiltekið Ástralía, Bandaríkin, Brasilía, Eistland, Ekvador, Georgía, Írland, Kanada, Kólumbía, Mexíkó, Moldóva, Lettland, Litháen, Paragvæ, Perú, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Tékkland, Ungverjaland, Vatíkanið og Þýskaland. Engin ríki sem kenna sig við sósíalisma vilja vera með. Með þessu færi Holodomor á lista yfir þá ómannúðlegu alþjóðaglæpi alræðiskerfa sem útrýmdu milljónum mannslífa á fyrri hluta 20. aldar.

Það er mat flutningsmanna að mikilvægt sé að senda skýr skilaboð um þessa hörmulegu atburði í mannkynssögunni og vekja á þeim athygli til að koma í veg fyrir að þeir endurtaki sig. Slík skilaboð um voðaverk fyrri tíma geta styrkt viðleitni alþjóðasamfélagsins til að tryggja framgang og vernd grundvallarmannréttinda og frelsis um allan heim.