Það ekki hægt að segja að heimurinn sé friðvænlegri nú um þessi áramót en hann hefur verið áður. Því miður, virk stórstyrjöld í Úkraínu nálægt hinni gömlu miðju Evrópu og þar falla hundruð hermanna daglega og margvíslegir glæpir framdir gagnvart almennum borgurum. Um heim allan eru átök sem eru mörgum gleymd en kosta miklar þjáningar og mörg mannslíf. Sýrland, Afganistan, Írak og Jemen eru í sárum og víða í Afríku eru skærur og erjur sem kosta mörg mannslíf og leiða hörmungar yfir íbúana. Það eru því miklar áskoranir að tryggja frið og varðveita hann um heim allan. Og hver á svo sem að gera það? „Ráði hnefarétturinn er voðinn vís, það sýnir sagan og samtíð sömuleiðis,“ sagði forseti Íslands í nýársávarpi sínu.
Þjóðir og þjóðarbrot
Eftir seinni heimstyrjöldina varð það niðurstaða að stofna alþjóðasamtök eins og Sameinuðu þjóðirnar og varnarbandalög eins og Nató. Bæði þessi samtök hafa leikið lykilhlutverki í heiminum síðan þó vissulega megi deila um árangur af starfi þeirra og mikil illvirki unnin að þeim ásjáandi. Líklega er þó með réttu hægt að segja að ástandið hefði orðið miklu verra ef þeirra hefði ekki notið við. Síðan SÞ voru settar á fót 1945 hefur löndum heimsins fjölgað mikið en nú eru 193 ríki með aðild að samtökunum. Á þriðja tug annar ríkja skilgreinir sig sem sjálfstæð ríki og fjöldi þjóða og þjóðarbrota freista þess að fá viðurkenningu og sjálfstæði. Hugsanlega eru Kúrdar fjölmennasta þjóðin sem ekki hefur fengið viðurkennda stöðu en búseta þeirra dreifist að mestu á þrjú lönd sem öll neita að viðurkenna sjálfstæði Kúrda. Stór fjölþjóðaríki innihalda gjarnan þjóðarbrot sem vilja aukin réttindi eða jafnvel kljúfa sig frá ríkinu. Oft hafa íbúar fjarlægra landa litlar hugmyndir um þetta fyrr en blóðug átök brjótast út. Því miður eru erfitt að aðstoða og styðja við þá sem eru kúgaðir og undirokaðir við slíkar aðstæður. Það þekkja Tíbetbúar og Úígúrar sem lifa innan kínverska stórríkisins.
Hér í síðasta pistli var vikið að skilgreiningu á hópmorði (sem virðist notað frekar en þjóðarmorð sem virðist þó nær því að ná utan um orðið „genocide“) með vísun í hungursneyðina í Úkraínu 1932 til 1933 en mörgum er þessi saga lítt kunn þrátt fyrir að talið sé að um sex milljónir manna hafi þá dáið. Hópmorð eða þjóðarmorð eru algengari en menn telja og þá eru ekki verið að ræða um útrýmingu sem á sér gjarnan stað þegar nýtt fólk kemur að landi þar sem frumbyggjar voru fyrir eins og gerðist Ameríku og Ástralíu á sínum tíma. Hugsanlega erum við að horfa upp á skýrt dæmi um hópmorð á Rohingjum í Mjanmar en herforingjastjórnin þar hefur kallað yfir þá ólýsanlegar þjáningar en talið er að ríflega 25 þúsund Rohingar hafi verið myrtir. Ástandið er ekki ólíkt því sem gerðist í Rúanda fyrir þremur áratugum, þá án þess að alþjóðasamfélagið gæti brugðist við í tíma þó friðargæslusveit SÞ væri sannarlega á svæðinu.
Vantar alheimslögsögu?
En þó að heiminn skorti alheimslögreglu eða vald sem getur gripið inní þá felst líka ákveðið vald í því að segja söguna og draga fram atburði og þá sem um véluðu og fylgismenn þeirra. Því erum við að ræða um hópmorð í Úkraínu, Armeníu, Rúanda og Bosníu. Það er mikilvægt að hið rétta komi fram, óháð hvaða vindar blása á alþjóðasviðinu. Að viðurkenna hópmorð í Úkraínu þarf því ekki að vera vafið inn í áróðurstjöld vegna stríðsins sem þar er núna. Það má vissulega deila um tímasetningar en er einhverstímann óviðeigandi að tala um hópmorð?
Á sínum tíma urðu gyðingar sjálfir að hefja rannsókn, handtökur og refsingar vegna útrýmingarbúðanna. Á því mátti hafa margvíslegar skoðanir en alþjóðasamfélagið bauð ekki upp á leiðir til að sækja réttlæti á þeim tíma. Alþjóðadómstóll SÞ var stofnaður skömmu eftir stofnun SÞ en hefur ekki lögsögu í slíkum málum. Alþjóðasakamáladómstólinn er varanlegt dómsvald, ólíkt til dæmis Alþjóðastríðsglæpadómstólnum sem fékkst við málefni fyrrum Júgóslavíu og Rúanda þar sem er takmörkuð lögsaga.
Stríðsglæpir í Úkraínu
Þó alþjóðalög og fjölmargar ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna skilgreini stríðsglæpi, hópmorð og brot gegn alþjóðalögum er erfitt að framfylgja því á vettvangi. Alþjóðasamfélagið þarf að finna úrræði og nú hefur Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna brugðið á það ráð að hefja þegar rannsóknir á því hvort nauðgunum hafi markvisst verið beitt sem stríðsvopni í Úkraínu. Um leið hefur UN Women í Úkraínu reynt að tryggir þolendum viðeigandi aðstoð og sér til þess að stofnanir, félagasamtök sem og úkraínsk stjórnvöld séu meðvituð um hvernig eigi að meðhöndla slík mál.
Það er bara eitt dæmi af mörgum sem sýnir hve mikilvægt er að tryggja mannréttindi þegar siðmenninginn virðist standa veikast. Það eru áskoranir framtíðarinnar nú þegar við erum að velta fyrir okkur hvort við eigum að gera upp bráðum aldargamla glæpi í Úkraínu.