c

Pistlar:

8. janúar 2023 kl. 13:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að skrifa sögu hrunsins - fyrri grein


Á þessu ári verða liðin 15 ár frá því að bankahrunið dundi yfir hér á Íslandi. Óhætt er að segja að fáir atburðir hafi haft jafn mikil áhrif á seinni tíma sögu landsins og enn erum við að fást við afleiðingar þess og meta það sem á gekk. Stjórnmálin voru og eru enn talsvert upptekin af því sem gerðist og þar er tekist á um ábyrgð, jafnt hugmyndafræðilega sem pólitíska. Í réttarsölum er, eins furðulegt og það er, enn verið að rétta í málum og ef heldur fram sem horfir þá munu líklega síðustu dómarnir vegna bankahrunsins falla einum og hálfum áratug frá hruninu. Má vera að það séu einu niðurstöðurnar sem við sjáum, allt annað eru sjónarmið og túlkanir.

Um bankahrunið hafa verið skrifaðar fjölmargar bækur sem taka bæði á aðdraganda, orsökum og afleiðingum þess. Sagnfræðin hefur að sjálfsögðu ekki sagt sitt síðasta orð um þetta en fræðimenn eiga enn erfitt að aðskilja sig frá þeim pólitíska og hugmyndafræðilega veruleika sem mótaði umræðuna um hrunið. Það er kannski ofmælt að segja að hrunið hafi leitt af sér sérstaka bókmenntagrein en augljóslega hefur það haft mikil áhrif á skrif um samfélagsmál. Það hefur til dæmis færst mikið líf í þjóðmálabækur og bækur eftir blaðamenn. Rannsóknarskýrsla Alþingis var 2.300 blaðsíður og hafði hún mikil áhrif þegar hún birtist. Augljóslega verða seinni tíma skrif talin í þúsundum blaðsíðna eins og sést ef við hlaupum aðeins yfir sviðið.brunb2

Fyrstu bækurnar

Haustið 2008 kom út bók Guðmundar Magnússonar, Nýja Ísland — Listin að tína sjálfum sér. Guðmundur hóf að skrifa bókina um vorið 2008 og beindi sjónum sínum að samfélagsbreytingum í aðdraganda hrunsins. Bókin hefur sjálfsagt farið í prentun áður en bankarnir hrundu endanlega og því er ekki fjallað um hrunið sjálft í bókinni þó að hún augljóslega verði að teljast innlegg í hrunbókmenntir sem slíkar. „Þar er lýst syndafalli íslensks viðskiptalífs sem hafi farið fram úr sjálfu sér í nýfengnu frelsi,“ skrifaði Sverrir Jakobsson, prófessor í sagnfræði og vinstri maður, í ritdómi um bók Guðmundar í tímaritið Sögu.

Fyrsta eiginlega bókin sem kom um bankahrunið var hins vegar nokkuð hraðsoðin blaðamannabók eftir Ólaf Arnarsson hagfræðing, Sofandi að feigðarósi. Hún kom út snemma árs 2009 en þar rakti höfundur í stuttu máli atburðarásina sem leiddi til bankahrunsins og fram til þess er bókin kom út. Ólafur kom fimm árum síðar út með bókina Skuggi sólkonungs, sem fjallaði aðallega um áhrif Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, og var heldur óvinsamleg Davíð.

Næsta „hrunbókin“ var Hrunið: Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar eftir Guðna Th. Jóhannesson, núverandi forseta Íslands. Segja má að Hrunið hafi verið fyrsta yfirlitið yfir aðdraganda íslenska bankahrunsins, allt frá því að óveðursský lánsfjárkreppu tóku að hrannast upp erlendis og þar til ríkisstjórnin fór frá völdum. Í bókinni var vitnað til áður óbirtra tölvupósta (meðal annars frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra), símtöl og minnisblöð sem Guðni fléttar saman í nokkuð nákvæma tímaröð. Bókin kom út á fyrri hluta árs 2009 og lýkur þegar vinstri stjórnin tók við 1. febrúar 2009.

Bókin Íslenska efnahagsundrið eftir Jón Fjölnir Thoroddsen kom líka út árið 2009 en þar reyndi höfundur að afmarka umfjöllunina við ábyrgð eigenda og stjórnenda bankanna og stærstu fyrirtækja og eignarhaldsfélaga landsins. Í lokaorðum bókarinnar segir hann að það sé ljóst að á Íslandi á liðnum árum hafi hagsmunir heildarinnar vikið fyrir hagsmunum fárra því sérhagsmunir útrásarvíkinganna hafi gengið þvert á hagsmuni þjóðarinnar og því fór sem fór. Bók Jóns Fjörnis byggir lítið á sjálfstæðri gagnavinnslu heldur unnin upp úr fjölmiðlaumfjöllun í bland við óstaðfestar sögusagnir sem hefjast margar á „sagt er“.hrunbæ1

Bækur Styrmis og Baugsbókmenntir

Framlag Styrmis heitins Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, er talsvert en hann lét af rit­stjóra­störf­um á fyrri hluta árs 2008 og sendi frá sér sex bækur eftir að hann hætti sem rit­stjóri, margar um hið pólitíska ástand fyrir og eftir hrun. Þar má nefna Umsátrið – Fall Íslands og end­ur­reisn (2009); Hrunadans og horfið fé (2010); Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn Átök og upp­gjör (2012) og Upp­reisn­ar­menn frjáls­hyggj­unn­ar – bylt­ing­in sem aldrei varð (2018). Það voru einkum fyrstu tvær bækurnar sem beindust að hruninu og bókin

Vert er að nefna bók Óla Björns Kárasonar, Síðasta vörnin, sem kom út 2011 en í henni má finna sterkt endurvarp frá Baugsmálinu sem hertók umræðuna í aðdraganda hrunsins. Óli Björn beinir sjónum sínum að dómstólunum sem hann telur bera mikla ábyrgð á þeim viðskiptaháttum sem tíðkuðust hér í aðdraganda bankahrunsins. Bók Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, Rosabaugur yfir Íslandi, kom út sama ár og var „saga“ Baugsmálsins eins og Björn sá það og fléttaðist aðdragandi hrunsins óhjákvæmilega inn í þá frásögn.

Andstaðan við Jón Ásgeir birtist líka með skýrum hætti í bókinni Ísland ehf. er eftir blaðamennina Þórð Snæ Júlíusson og Magnús Halldórsson kom út 2013, fimm árum eftir bankahrunið. Í bókinni var augunum beint að auðmönnum Íslands og áhrifum þeirra eftir hrun. Af líkum toga er bókin Kaupthinking eftir Þórð Snæ sem kom 10 árum eftir bankahrunið.hrunb3

Bók Inga Freys Vilhjálmssonar; Hamskiptin. Þegar allt varð falt á Íslandi, kom út 2014 og var tilraun til einhverskonar siðferðilegs uppgjörs við tímann fyrir hrun. Ingi Freyr starfaði á Fréttablaðinu en er núna á Stundinni en ritstjórnarstefna blaðsins gengur út á að Ísland hafi verið spillt fyrir hrun og sé það ennþá. Bók Inga Freys kemur út árið áður en Stundinni er hrint af stað og byggðist að hluta til á heimildavinnu hans sem starfsmaður DV, meðal annars undir ritstjórn Reynis Traustasonar.

Við höldum áfram að fjalla um bókaskrif um hrunið í næsta pistli.