c

Pistlar:

10. janúar 2023 kl. 20:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rússaáhrifin voru engin á Twitter

Tilraunir Rússa til þess að hafa áhrif á þjóðmálaumræðuna í Bandaríkjunum í gegnum samfélagsmiðilinn Twitter fyrir forsetakosningarnar árið 2016 náðu til örfárra notenda. Hafi einhverjir tekið áróðurinn til sín bendir flest til þess að þeir hafi verið fyrir flokksbundnir repúblikanar og því hefur áróðurinn engu breytt um kosningahegðun viðkomandi. Rússneskir samfélagsmiðlareikningar höfðu þannig engin mælanleg áhrif þegar kom að því að fá kjósendur til á að skipta um skoðun eða hafa yfir höfuð áhrif á hegðun kjósenda, samkvæmt rannsókn sem opinberuð var í gær, 9. janúar.twittertrö

Rannsóknin, sem New York University Center for Social Media and Politics stýrði, kannaði hve mikil áhrif fallsfréttir og upplýsingaóreiða, sem rekja mátti til rússneskra samfélagsreikninga, höfðu á vettvangi samfélagsmiðla fyrir forsetakosningarnar 2016. Sem kunnugt er hefur því ítrekað verið haldið fram að í umræddum kosningum hafi orðið þáttaskil í upplýsingaóreiðu og Rússar haft umtalsverð áhrif á forsetakosningarnar og þau áhrif hefðu á einhvern hátt nýst Donald Trump við að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna.

Samsæri upplýsta fólksins

Að hluta til má segja að þetta hafi orðið að viðteknum sannindum sem málsmetandi fólk í þjóðmálaumræðunni hefur endurvarpað stöðugt síðan kosningarnar áttu sér stað þrátt fyrir upplýsingar sem segðu annað. Jafnvel svo, að hægt er að tala um endurteknar samsæriskenningar hinna upplýstu vinstri stétta svo reynt sé að bregða spaugilegu ljósi á málið. Þetta hefur einnig birst í umræðunni hér heima á Íslandi og ekki er langt síðan greint var frá risastórum styrk sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hlaut eða að jafnvirði þriggja milljóna evra, úr Horizon Europe áætlun Evrópusambandsins fyrir rannsóknarverkefnið Reclaiming Liberal Democracy in Europe (RECLAIM). Styrkurinn er til þriggja ára og er markmið verkefnisins að rannsaka áhrif upplýsingaóreiðu á lýðræði í Evrópu með vísun í afskipti Rússa af Brexit-kosningunum í Bretlandi og forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016. Samkvæmt áðurnefndri rannsókn voru þau nánast engin á Twitter. Það kemur heim og saman við það sem hefur komið í ljós í fjölmiðlateymunum sem skoða nú Twitter-skjölin meðal annars undir stjórn blaðamannsins Matt Taibbi. Um þessar rannsóknir hefur verið fjallað alloft hér í pistlum.

Það skal þó haldið til haga að rannsóknin sem nú er fjallað um lýtur fyrst og fremst að Twitter og hefur til dæmis ekkert með ólöglegt atferli að gera á netinu, svo sem innbrot og hakkaða reikninga sem Rússar stóðu sannarlega fyrir. Ljóst er þó að það mat sem birtist á umsvifum Rússa og fjölmiðlar fjölluðu mikið um birtist dugði ekki til þess að hafa áhrif á kjósendur eins og upplýsist þegar núverandi rannsókn liggur fyrir. Það er fjarri eldri áherslum fjölmiðla sem töldu sig sjá talsverða notkun reikninga. Þegar upp er staðið virðist það ekki hafa skipt máli, áhrifin voru lítil sem engin. 

Er hægt að kaupa sér völd?

En bak við allt þetta er sú hugmynd að hægt sé að kaupa sér völd, stundum á það við en ekki alltaf. Þegar upp er staðið er talið að Rússar hafi hugsanlega varið í kringum 100 til 150 þúsund Bandaríkjadölum fyrir kosningarnar 2016 og það er erfitt að trúa því að það hafi áhrif þegar forseti Bandaríkjanna er valinn. Hafa má í huga að auðmaðurinn Michael Bloomberg, sem er einn af tuttugu ríkustu mönnum heims, náði ekki að komast í gegnum forkosningar demókrata fyrir forsetakosningarnar 2020 þó hann hafi eytt á milli 300 og 400 milljónum dala til þess. Þegar samhengið er skoðað sést að það getur verið erfitt að kaupa sér pólitískan stuðning þó menn hafi bæði auð og vilja til þess.

Fyrir tveimur árum lauk þriggja ára langri rannsókn Information Commissioner, breskrar eftirlitsstofnunar, á verkefnum hins mjög svo umdeilda fyrirtækis Cambridge Analytica sem talið var hafa haft áhrif á Brexist-kosningarnar og reyndar einnig kosningarnar í Bandaríkjunum. Rannsóknin sýndi engin eða hverfandi áhrif en samt virðast meginstraumsmiðlar halda áfram að útvarpa þessum samsæriskenningum.twitt

Allt of mikið gert úr Rússaáhrifunum

En víkjum aftur að áðurnefndri rannsókn New York University Center for Social Media and Politics sem stóð yfir í ár. „Mín persónulega tilfinning eftir þessa athugun er að allt of mikið hafi verið gert úr þessu,“ sagði Josh Tucker, einn höfunda skýrslunnar, en hann er einnig einn af stjórnendum New York háskólamiðstöðvarinnar, þegar hann var spurður um mikilvægi rússnesku tvítanna í samtali við greinandann Tim Starks sem skrifaði um málið í samstarfi við Washington Post.

„Nú erum við að skoða gögn og við getum séð að hvaða marki þetta beindist að litlum hluta íbúanna og hvernig sú staðreynd að fólk, sem skilaboðum var beint að, var hvort sem er líklegt til að kjósa Trump,“ sagði Tucker. „Gögnin sýna að við getum ekki fundið nein tengsl á milli þess að verða fyrir þessum tvítum og viðhorfsbreytingu hjá fólki.“ Tucker er einnig ritstjóri Apabúrsins (The Monkey Cage), bloggs sem er í samstarfi við The Post. Niðurstaðan núna sýnir að annað efni frá fréttamiðlum og bandarískum stjórnmálamönnum drekkti í raun áhrifum rússneskra tilrauna til að koma hlutdrægu efni til kjósendur fyrir forsetabaráttuna 2016.tvitt

Demókratar krefjast niðurstöðu

Þess má geta að Matt Taibbi birti 3. janúar síðastliðinn upplýsingar um innanhúsrannsókn sína á áhrifum Rússa. Þar kemur margt fróðlegt í ljós. Meðal annars hvað varð til þess að stjórnendur Twitter hleyptu stjórnendum FBI inn í hús sitt eins og fjallað var um hér fyrir stuttu. Margt er forvitnilegt við atburðarásina en í ágúst 2017, þegar stjórnendur Facebook ákváðu að loka 300 reikningum hjá sér, voru engar áhyggjur meðal stjórnenda Twitter. Stjórnendur félagsins voru sannfærðir um að þeir hefðu ekkert „Rússavandamál“. „Við sjáum ekkert samhengi eða tengs,“ sögðu þeir í innanhússkeytum sínum. Þeir töldu að ef eitthvað vandamál væri þá væri það hjá Facebook og létu upplýsingafulltrúa sína beina athyglinni þangað.

Í september 2017 sögðu stjórnendur Twitter þingnefnd að þeir hefðu lokað 22 reikningum með hugsanleg tengsl við Rússa og 179 öðrum til vonar og vara. Um leið sögðust þeir hafa skoðað vandlega 2.700 reikninga í leit að einhverju óeðlilegu. Þetta olli mikilli reiði hjá Mark Warner, öldungadeildarþingmanni demókrata og meðlimi í eftirlitsdeild þingsins. Hann hélt fréttamannafund þar sem hann gagnrýndi rannsókn Twitter harðlega og sagði hana algerlega ófullnægjandi. Stjórnendur Twitter voru tvístígandi en demókratar voru mjög afgerandi um að rannsóknin væri hvítþvottur og nú var Hillary Clinton komin í málið. Við fjöllum nánar um það í næsta pistli.