c

Pistlar:

13. janúar 2023 kl. 15:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að skrifa sögu hrunsins - þriðja grein

Í þessari þriðju og síðustu yfirlitsgrein um þá sem hafa skrifað sögu hrunsins beinum við sjónum okkar að skrifum skálda og einnig þeim bókum sem hafa komið út á ensku. Það voru miklar tilfinningar og gætti talsverðrar reiði í Hvítu bókinni eftir Einar Má Guðmundsson sem er safn greina eftir Einar sem birtust í Morgunblaðinu frá hausti 2008 og fram á vor 2009. Einar Már les yfir yfir stjórnmálamönnum og peningafólki í hita stemmningarinnar sem ríkti þá um veturinn. Góðærið var „fávitavæðing“ og fávitunum leyfðist að beita fólkið sem vann hefðbundin störf af heiðarleika og samviskusemi kerfisbundnum niðurlægingum skrifar Einar sem er oft ansi dramatískur: Fjármálafurstarnir frömdu „siðferðileg“ landráð sem hafa gert okkur (íslensku þjóðina) að „gíslum á lögreglustöð heimskapitalismans“! Líklega heldur yfirdrifið og Einar Már telur sig í aðstöðu til að lesa yfir hausamótunum á þeim sem hann er ósammála.

Í sama flokk má líklega setja bækurnar Takk útrásarvíkingar, eftir Láru Björg Björnsdóttur (2010) og bókina Of mörg orð: Þroskasaga tiltölulega ungrar konu í góðæri eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur (2014). Þá er ónefnd skáldsagan Bankster eftir Guðmundur Óskarsson sem kom út 2015. Aðalpersónur bókarinnar starfa í bankakerfinu fyrir hrun en bókin byggir á skáldaðri dagbók aðalpersónunnar um mánuðina eftir hrun.hrunb3

Bækur á ensku um bankahrunið

Allmargar bækur hafa komið út á ensku eftir íslenska höfunda um hrunið. Dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og núverandi seðlabankastjóri, skrifað fyrstu bókina sem gefin var út á ensku um hrunið en hún kom út um mitt ár 2009. Bók Ásgeirs, Why Iceland?: How One of the World's Smallest Countries Became the Meltdown's Biggest Casualty, var að dómi margra öðruvísi uppbyggð en fyrri bækur sem komið höfðu út um kreppuna og aðdraganda hennar. Ásgeir var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings meðan flestir þeir atburðir sem hann lýsir urðu, auk þess að vera lektor við Háskóla Íslands. Í bókinni rekur Ásgeir í stuttu máli Íslandssöguna frá kristnitöku árið 1000. „Fyrir Íslendinga er áhugaverðast að lesa um þróunina á 21. öldinni allt frá ræðu Sigurðar Einarssonar, þar sem hann setti Kaupþingi ótrúleg markmið, markmið sem enginn taldi raunhæf nema hann sjálfur, en þau náðust samt. Kannski hefur sagan leitt í ljós að hraður vöxtur bankans var óraunhæfur þó að markið næðist og vel það. Með metnaðarfullum markmiðum setti Kaupþing í gang samkeppni milli íslenskra banka, samkeppni sem á endanum leiddi til óskapa fyrir þjóðina,“ skrifar Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, í umsögn á heimasíðu sína. Þá hefur engin skortur verið á erlendum bókum um hrunið sem snerta Ísland þó þeirra sé ekki getið hér en þó fylgir hér mynd af nokkrum slíkum.stór

Einnig er vert að nefna bók Björgólfs Thors Björgólfssonar: Billions to Bust and Back: How I made, lost and rebuilt a fortune, and what I learned on the way sem kom út 2015. Þetta er í raun sjálfsævisaga okkar stærsta viðskiptamógúls og hvernig hann komst í gegnum hrunið eins og vikið var að hér. Þegar hún kom út sagði Egill Helgason sjónvarpsmaður að rétt væri að henda henni ólesinni! Slík ummæli lýsa reiði og tilfinningahita í ætt við skrif Einars Más. Bankahrunið kallar enn fram miklar tilfinningar hjá fólki. Áður var búið að geta þess að bók Ármanns Þorvaldssonar bankastjóra, Ævintýraeyjan - uppgangur og endalok fjármálaveldis, kom út á ensku undir heitinu Frozen Assets: How I Lived Iceland's Boom and Bust.

Fræðilegri er bók þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersir Sigurgeirssonar: The Icelandic Financial Crisis: A Study into the World’s Smallest Currency Area and its Recovery from Total Banking Collapse. Bókin segir sögu þeirra viðbragða og aðgerða sem gripið var til eftir hið fordæmalausa gjaldþrotbankanna haustið 2008 og lýsir þeim árangri sem náðist við endurreisnina. Athyglisverð bók sem skoraði viðtekna söguskoðun á hólm. Einnig er vert að nefna samantekt Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar,The 2008 Icelandic Bank Collapse: Foreign Factors frá 2018 sem varð að umræðuefni hér í pistli.bokadlarus

Þessar samantektir eru ólíkar fyrri bókum um hrunið sem flestar lýsa aðdraganda hrunsins og orsökum, til dæmis bók Guðrúnar Johnsen hagfræðings Bringing Down the Banking System: Lessons from Iceland en Guðrún vann með Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu sem skýrir heimildarvinnuna. Í bók sinni rekur hún niðurstöður nefndarinnar á því hvernig íslensku bankarnir stækkuðu. Bókin var gefin út árið 2014. Bók hagfræðinganna Roberts Z. Aliber og Gylfa Zoega, The 2008 Global Financial Crisis in Retrospect Causes of the Crisis and National Regulatory Responses kom út 2019.

Þá er vert að nefna bók Eiríks Bergmanns: Iceland and the International Financial Crisis:Boom, Bust and Recovery. Eiríkur rekur í bók sinni, sem gefi var út 2014, hinn einstaka vöxt, hrun og skjóta viðreisn íslensk efnahags. Í niðurstöðum sínum setur hann saman hvaða lærdóm hann telur að aðrar þjóðir geti dregið af atburðunum.steingr

Árið 2018 kom út áhugaverð bók Hilm­ars Þórs Hilm­ars­sonar, pró­fess­ors við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, en hann hafði ekki verið áberandi í þjóðmálaumræðunni fram að því. Bókin heitir: The Economic Cris­is and its Af­term­ath in the Nordic and Baltic Countries: Do as We Say and Not as We Do, og var gef­in út af Rout­led­ge forlaginu. Þar er meðal annars farið yfir það þegar Eystra­saltslönd­in tók­ust á við af­leiðing­ar alþjóðlegu fjár­málakrepp­unn­ar 2008. Bókin fjallar ekki um Ísland en atburði og þróun sem tengist okkur með skýrum hætti og var vikið að henni hér í pistli.

Aðrar bækur

Að lokum er vert að nefna bók Árna H. Kristjánssonar. Hugsjónir, fjármál og pólitík. Saga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sjötíu og sjö ár sem Sögufélagið gaf út 2013 og var ritdæmd af pistlaskrifara á sínum tíma. Þar er fall SPRON fyrirferðamikið og hvernig sjóðurinn dróst inn í fjármálahrunið sem markaði endalok hans. Einnig mætti nefna hér bók Þorkels Sigurlaugssonar, Ný framtíðarsýn, þar sem hann beinir sjónum sínum ekki síður fram á við en um öxl. Yfirlýst markmið Þorkels var að skrifa bók sem nýtist við endurreisn efnahagslífsins.hrunbb

Í nóvember 2008 kom út bók Óla Björns Kárasonar, blaðamanns og núverandi þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, Stoðir FL bresta. Þar segir hann sögu eins fyrirtækis sem reyndar varð eins konar flaggskip útrásarinnar. Á forsíðu bókarinnar segir: „Þeir virtust vera töframenn sem kunnu áður óþekkta galdra í alþjóðlegum viðskiptum. Galdurinn reyndist spilaborg.“ Bók Óla Björns Kárasonar, Síðasta vörnin, kom svo út 2011 eins og áður var vikið að. Einnig er ástæða til að nefna bókina Á Asnaeyrum: Fram að Hruni, eftir Marinó G. Njálsson sem kom út árið 2018, bæði á prenti og sem rafbók. 

Þetta er tæpast tæmandi upprifjun og sjálfsagt eiga fleiri bækur eftir að koma út um þá einstöku tíma í sögu íslensku þjóðarinnar sem áttu sér stað fyrir og eftir bankahrunið 2008. Vona að lesendur hafi haft gagn og gaman að þessari upprifjun á þeim sem skrifað hafa sögu hrunsins.