c

Pistlar:

24. janúar 2023 kl. 21:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vanhæfni og varnir í Evrópusambandinu

Hinn lífsglaði fyrrum forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, greindi frá því árið 2015 að rétt væri að stofna her innan sambandsins til að verja gildi og landamæri Evrópuríkja. Hann taldi að sameiginlegur her væri hagkvæmur fyrir ríki sambandsins og raunar nauðsynlegur og vísaði þá til spennu í samskiptum við Rússa. Meðal raka Junckers voru þau að ímynd Evrópu hefði beðið hnekki og sérstaklega utanríkismálastefnan. Hann taldi að nýr her myndi auðvelda ríkjunum að stilla saman strengi í stefnumálum utan Evrópu en tók fram að hann myndi ekki hafa nein áhrif á hlutverk Atlantshafsbandalagsins í varnarmálum.eu def

Bretar sem þá voru í sambandinu töldu tillöguna vanhugsaða en athygli vakti að hún hlaut nokkuð jákvæð viðbrögð í Þýskalandi. Ursula von der Leyen, þáverandi varnarmálaráðherra Þjóðverja og eftirmaður Junckers, taldi að Bandaríki Evrópu yrðu stofnuð og þar með sameiginlegur her. Hún tók fram að það yrði þó ekki í náinni framtíð.

Herútboð ESB í Fréttablaðinu

Síðan Úkraínustríði hófst hafa Evrópusambandssinnar hér á Íslandi reynt að tala upp sérstakan ESB her sem myndi sýna styrk innra samstarfs sambandsins. Það að tvær ESB þjóðir, Finnland og Svíþjóð, skyldu telja hagsmunum sínum best borgið með því að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu (Nató) sýndi þó betur en hátimbraðar yfirlýsingar þá trú sem ríkir gagnvart áformum um sameiginlegna her. Líklega eru einu aðilarnir sem hafa trú á því allir að skrifa í Fréttablaðið. Hefur kveðið svo rammt að því að það má líkja þessum skrifum Fréttablaðsins við herútboð, þó augljóslega enginn í Evrópu hafi verið að hlusta. 

Það hlýtur að hafa verið þessu sannfærða ESB fólki áfall að lesa fréttaskýringu Kristjáns H. Johannessen blaðamanns í Morgunblaðinu í dag. Fréttaskýringin afhjúpar getuleysi og vanhæfni þeirra sem stýra her- og varnarmálum í Evrópu eins og það birtist hjá stærsta og öflugasta ríkinu Þýskalandi. Þrátt fyrir allskonar tal og yfirlýsingar um að girða sig í brók hefur ekkert gerst í þessum málum og vangeta Þjóðverja í senn hneykslanleg og vandræðaleg eins og þýskir fjölmiðlar rekja þessa daganna. Þjóðverjar hafa sofið á verðinum gagnvert nýrri heimsskipan í Evrópu og þar er ábyrgð Angelu Merkel, fyrrum kanslara mikil.

Þýska ríkisstjórnin og ríflega 100 þingmenn flugu til Parísar um síðustu helgi og héldu þar fundi til að stilla saman strengi sterkustu ríkja sambandsins, hinna nýju öxulvelda Frakklands og Þýskalands. Sem fyrr eru þessi höfuðríki ESB að reyna að finna leiðir til að halda andlitinu og tala sig út úr vandanum þó flestir viti af honum.ei2

Stefnubreytingin sem ekki varð

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins er rifjað upp að Olaf Scholz Þýskalandskanslari tilkynnti í febrúar síðastliðnum stefnubreytingu í öryggis- og varnarmálum sem einnig var fjallað um hér á sínum tíma. Tryggja ætti þýska hernum (þ. Bundeswehr) örugga fjármögnun og nýjustu hertæki til frambúðar. Verja ætti meira en tveimur prósentum af þjóðarframleiðslu Þýskalands til hersins, upphæð sem fer yfir það mark sem Nató hefur lengi stefnt að fyrir aðildarríki sín.

En Kristján bendir á og vitnar í þýska fjölmiðla eins og Der Spiegel máli sínu til stuðnings að nú nærri ári síðar hefur lítið sem ekkert spurst til þessa átaks, nema skipt hefur verið um varnarmálaráðherra. Þau nýju hergögn sem herinn hefur fengið í hendur eru helst einkennisbúningar og bakpokar og voru pöntuð af fyrri stjórnvöldum og vopnageymslur
Þjóðverja eru tómar.

Þýski herinn í lamasessi

Kristján rekur að þýska þingið fær tvisvar á ári skýrslu frá Eberhard Zorn hershöfðingja hvar farið er yfir hernaðargetu hersins, nú seinast í desember. Skýrslan er afar umfangsmikil og tekur til skuldbindinga þýska hersins heima og heiman. Skortur er á vopnum og að þau séu í nothæfu ástandi. Tæknimál eru í ólestri. Flugherinn skortir vopn fyrir orrustuþotur sínar, loftvarnasveitir þurfa fleiri flugskeyti og sjóherinn glímir við mikinn skort á varahlutum. Meira að segja sjúkrasveitir hersins eru í vanda og skortir tilfinnanlega sjúkragögn.hlebarði

Þjóðverjar hafa nú samþykkt með semingi að leyft verði að afhenda Úkraínumönnum orrustuskriðdreka Þjóðverja, svokallaðan Leopard 2. Væntingar eru um að orrustuskriðdrekar geti snúið stöðunni á vígvellinum með vorinu. Kristján bendir á að í evrópskum vöruhúsum eru nú rúmlega tvö þúsund Leopard 2-skriðdrekar og af þeim eru rúmlega 300 í eigu Bundeswehr. Aðeins 130 þeirra eru starfhæfir.

Á meðan Þjóðverjar hafa gælt við sameiginlegan her innan ESB hafa þeir skorið eigin her niður og segir Kristján að þessi niðurskurður hafi verið blóðugur síðastliðin 30 ár. Frá árinu 1989 hefur hermönnum Þýskalands fækkað um 310 þúsund. Inni í þessari tölu eru ekki varaliðsmenn. Eins hefur tækjum fækkað mjög. Pólitísk óeining ríkir innan ríkisstjórnar Þýskalands um hvert skuli stefna í varnarmálum. Það eitt sýnir hvað við væri að eiga ef menn ætluðu að treysta á her undir merkjum og sameiginlegri forystu og ábyrgð ESB.