Tyrkir hafa verið meðlimir í Nató síðan árið 1952 og á tyrkneskum upplýsingasíðum segir að Nató hafi leikið lykilhlutverk í öryggisstefnu landsins sem sumum kann að þykja undarlegt þar sem Nató er jú kennt við Norður-Atlantshafið. Látum það liggja milli hluta en á tímum kalda stríðsins var Tyrkland mikilsverður bandamaður sem veitti Bandaríkjamönnum mikilvægar herstöðvar rétt við landamæri Sovétríkjanna og voru þær mikill þyrnir í augu kommúnista eins og glöggt kom fram í Kúbudeilunni. Nú eru Tyrkir búnir að taka sér tímabundið neitunarvald um inngöngu frænda okkar Svía í Nató.
Tyrkland hefur verið með formlega umsókn að Evrópusambandinu síðan 1999 eftir að hafa beðið lengi eftir að komast á það stig. Umsóknin er hins vegar botnfrosin og engin hreyfing í tyrknesku biðstofunni eins og hún er kölluð í fræðunum. Það var draumur Atatürk, fyrsta forseta Tyrklands, að Tyrkland yrði vestrænt ríki og hluti af Evrópu. Umsóknin strandar yfirleitt á því að tyrkneskt samfélag virðist ekki tilbúið að aðskilja ríki og trú frekar en annars staðar í hinum íslamska heimi. Allt þetta segir okkur að á meðan hugurinn stendur vestur slær hjartað til austurs. Tyrkland er hluti af tveimur heimsálfum sem hverfast um Bosporussund en ekki síður hina miklu borg Istanbúl sem hét einu sinni Konstantínópel og var höfuðborg austurrómverska ríkisins, eða Býsanska ríkisins. Til að skilja sögu þessa heimshluta er mikilvægt að skoða sögu Konstantínópels eða Miklagarðs eins og hún heitir í íslenskum miðaldabókmenntum.
Fall Konstantínópel
Fall Konstantínópel þann 29. maí 1453 markaði margvísleg þáttaskil í þróun heimsmála. Borgin féll fyrir herjum Mehmed annars, betur þekktur sem Mehmed hinn sigursæli og er hans helst minnst fyrir að hafa lagt borgina undir sig. Múrar Konstantínópel voru taldir óvinnandi og í það minnsta 15 tilraunir höfðu verið gerðar til að hertaka borgina þær aldir sem hún stóð. En fallbyssur Mehmed annars gerðu gæfumuninn enda nýir tímar að ganga í garð. Borgarvirki urðu nú sigranleg og í framhaldinu fór miðstjórnarvaldið að eflast um alla Evrópu. Kastalaherrar um hinar dreifðu sveitir gátu ekki lengur boðið konungum birginn bak við þykka borgarmúra og urðu að borga skatta og hlýða kalli konungs þegar hann þurfti á að halda.
Í sagnfræðinni skiptir máli hvernig hlutirnir eru orðaðir. Sumir segja að það sé ekki rétt að tala um fall Konstantínópel því yfirráð yfir henni skiptu jú aðeins um hendur og borgin var þarna áfram, reyndar undir nýju nafni en Mehmed annar skírði hana Istanbúl og gerði hana að höfuðborg veldis síns. En sigur Mehmed markaði mikil tímamót því hann táknaði endalok austurrómverska ríkisins og upphaf Ottómanaveldisins sem átti eftir að drottna yfir þessum heimshluta hátt í 600 ár og sjálfur stýrði Mehmed því og jók til ársins 1481 þegar hann lést.
Róm í endurnýjun lífdag
Konstantínópel var þegar þarna var komið sögu höfuðveldi kristninnar og við fall hennar færðist valdamiðja kristinnar aftur vestur og Róm tók við á nýjan leik. Í kjölfarið fluttu herskarar fræðimanna sig aftur vestur með nýja og gamla þekkingu í farteskinu og lögðu grunninn að ítölsku endurreisninni.
Á þeim tíma þegar Konstantínópel þarf að þola sína erfiðustu daga voru Feneyingar helsta veldi Ítalíu með sinn siglingaflota en þegar á reyndi treystu þeir sér ekki til að styðja við Konstantínópel þó þeir hefðu lofað því. Floti þeirra heyktist á að fara til liðs við borgarbúa á meðan á umsátri herja Mehmeds stóð heldur beið aðgerðarlaus úti á Miðjarðarhafinu. Hefði sagan orðið öðru vísi ef þeir hefðu siglt inn til Kosntantínópel? Vafalaust og rifja má upp að þegar kom fram á þessa öld fóru sagnfræðingar að skemmti sér við að setja saman svonefndar „Hvað ef?“ hugleiðingar (líklega ofrausn að tala um kenningar). Enskumælandi fræðimenn gengu lengst í þessum leik og á ensku er fræðimennska af þessu tagi ýmist kölluð einfaldlega „What if?“-sagnfræði eða „counterfactual history“, sem Jón Þ. Þór sagnfræðingur hefur kallað „staðleysusagnfræði“ en einnig kölluð „sagnfræði í viðtengingarhætti“. Okkar ágæti forseti hefur verið staðinn að því að daðra við svona sagnfræði.
Á Netflix efnisveitunni má finna áhugaverða leikna heimildarmynd um fall Konstantínópel, Rise of Empires: Ottoman. Þáttaröðin telst af kunnáttumönnum um þessa sögu vera nokkuð nákvæm og tilurð hennar sýnir endalausan áhuga áhorfenda á epískri kvikmyndagerð. Samkvæmt því sem þar kemur fram lét Memeth verða sitt fyrsta verk að ganga inn í Haiga Sofíu kirkjuna sem þá var stærsta bygging Evrópu og jafnvel heimsins alls enda kölluð Ægisif, en einnig Sófíukirkjan. Með nýjum herra fylgdi nýr siður. Íslam var nú orðin ráðandi hugmyndafræði í þessum heimshluta þó fall Konstantínópel bæri að á svipuðum tíma og þegar síðustu márarnir voru reknir frá Spáni. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar.
Breyttur menningaheimur
En fall Konstantínópel markaði ekki aðeins upphaf og endalok heimsvelda heldur breytti það menningaheiminum, austræn áhrif áttu greiðari leið inn í Evrópu og Balkanskaginn varð fyrir austrænum áhrifum sem móta mjög menningu hans enn þann dag í dag. Memeth þandi út ríki sitt og var það litlu minna en Rómaveldi og náði lengra austur. Ottómanaveldið gerði tilraunir til að ráðast inn í Evrópu og litlu mátti muna að Vín félli og herir Ottómana kæmust inn í Norður-Evrópu. En það varð ekki en nú sem fyrr skipta samskiptin við Tyrki miklu máli þó þeir geti illa gert upp við sig hvort þeir eru austan eða vestan megin í tilverunni.