Starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga fjölgaði um 11.400 á árunum 2015 til 2021. Það er rúmlega 20% fjölgun, en á sama tíma fjölgaði fólki á almennum vinnumarkaði um 4.200, eða um 3%. Þetta kemur fram í skýrslu Intellecon, sem unnin var fyrir Félag atvinnurekenda (FA) og var birt í síðustu viku. Skýrslan ber yfirskriftina: Er ekki bara best að vinna hjá ríkinu?
Það má vera að það sé djarft að segja „stjórnlaus fjölgun“ en öllum má vera ljóst að svona getur ekki haldið áfram. Opinberir starfsmenn vinna mikilvæg störf en það snýr öllum hagfræðilögmálum á haus að þeim fjölgi hraðar en öðrum starfsmönnum. Hið opinbera veitir þjónustu sem byggist á frumframleiðslugreinum (gjaldeyrisskapandi) en ekki öfugt. Hvað hið rétta hlutfall þarna á milli á að vera getur verið vandasamt að segja til um og hluti af því samtali sem þarf að eiga sér stað í samfélaginu á hverjum tíma. Það er auðvitað staðreynd að stöðugt er verið að samþykkja auknar skyldur sem kallar á fleiri starfsmenn. Þetta sést ágætlega hjá sveitarfélögunum sem eiga í stökustu vandræðum með veita lögbundna þjónustu. Því var rétt ábending sem kom fram hjá Héðni Unnsteinssyni stjórnsýslufræðingi í Silfrinu í dag að sveitarfélög og reyndar opinberi geirinn þarf að horfa allt öðrum og gagnrýnni augum á hlutverk sitt og hvaða uppbygging hentar best til að framfylgja þeim. Hér fylgir með mynd af óþekkta embættismanninum eftir Magnús Tómasson.
Bætir úr ónógri gagnavinnu
Það er þarft að taka þetta saman en svo vill til að Hagstofan gefur ekki út tölur um heildarfjölda opinberra starfsmanna, því þarf að reikna út áætlaðan fjölda þeirra eftir flokkun starfsmanna eftir helstu starfstéttum (ÍSAT2008). Skýrsluhöfundar kveinka sér undan hve erfitt er að nálgast ítarleg gögn um raunverulegan fjölda opinberra starfsmanna eftir starfstéttum og laun og launaþróun samanborið við almennan vinnumarkað. Sumir eru í hlutastörfum og margir vinna jafnvel að hluta til hjá hinu opinbera og að hluta til á almennum vinnumarkaði. Því má segja að mikilvægt sé að fylgja skýrslunni eftir með frekari rannsóknum á þessum þáttum.
Í skýrslunni er bent á að það er ekki með öllu einfalt að bera saman hlutfallslega stærð opinbers vinnumarkaðar milli landa. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) heldur gagnagrunn um hlutfallslega stærð þess er kallað er almennur opinber geiri (e. general government) og ber saman milli aðildarlanda sinna. Til starfsmanna hins almenna opinbera geira teljast ríkisstarfsmenn, starfsmenn sveitarstjórna sem og þeirra er starfa við almannatryggingakerfi hins opinbera.
Samkvæmt tölum OECD er stærð hins opinbera á vinnumarkaði einungis meiri í Noregi, Svíþjóð og Danmörku en hér á landi. Hlutfall þetta mældist rétt tæp 25% hér á landi árið 2019 en hæst í Noregi tæplega 31%. Það sem vekur sérstaka athygli er að í mörgum löndum OECD lækkaði þetta hlutfall milli áranna 2007 og 2019 en ekki hér á landi, þar sem það stóð í stað. Einungis í Eistlandi, Slóveníu, Spáni, Mexíkó og Lúxemborg hækkaði hlutfallið milli þessara ára.
Konur miklum meirihluta
Þá kemur einnig fram að mun hærra hlutfall kvenna en karla á vinnumarkaði vinna hjá hinu opinbera. Þannig eru 73% af starfsmönnum sveitarfélaganna konur en 66% ríkisstarfsmanna. Á árunum 2008-2021 fjölgaði vinnandi konum í starfi hjá hinu opinbera hlutfallslega úr 43% í 47%. Því má ætla að tæplega helmingur kvenna á vinnumarkaði vinni hjá hinu opinbera.
Önnur meginniðurstaða skýrslunnar er að laun hjá hinu opinbera eru orðin samkeppnisfær við almenna markaðinn. Greidd laun í opinberri stjórnsýslu eru almennt hærri en í flestum öðrum starfsgreinum. „Að þessu gefnu má ætla að eftirsóknarverðara sé en áður að vinna hjá hinu opinbera,“ segir í kynningu FA á skýrslunni.
Margt annað kemur fram í skýrslunni. Til að mynda hefur starfsfólki af erlendum uppruna fjölgað mjög á vinnumarkaði en aðeins 16% erlendra starfsmanna störfuðu hjá hinu opinbera árið 2021. Einnig eru vísbendingar um að vinnustundum hjá vinnandi fólki hafi fækkað verulega. Sú þróun hófst áður en samið var um styttingu vinnuviku í kjarasamningum, segir í niðurstöðum skýrslunnar.
Samantekt eins og skýrsla SA getur verið mikilsvert upphaf að umræðu um hvert skuli stefna með samfélagið og á hvaða hluti skuli horfa þegar meta á árangur þess. Vonandi að það gefist frekari tækifæri hér til að ræða efni hennar og niðurstöður.