c

Pistlar:

14. febrúar 2023 kl. 18:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Innflytjendamál í ógöngum

Óhætt er að segja að öllu ægi saman í umræðu um stefnumótun útlendingamála. Skiptir litlu hvort það eru málefni sem tengjast hælisleitendum, flóttafólki, fólki í atvinnuleit eða bara fólki sem vill flytja sig milli landa. Við vitum að það er fengur í miklu af því fólki sem hingað kemur til lengri eða skemmdi dvalar en um leið dylst engum að kostnaður vegna hælisleitenda og flóttamanna getur farið upp úr öllu valdi þó það sé viðkvæmt að tala um hann. Við höfum séð í nágrannalöndum okkar að útlendingamál eru að verða stöðugt fyrirferðameiri og eru víða farin að skapa óróleika í samfélögum þar sem breyting á þjóðfélagsgerðinni hefur orðið hröð samfara vandamálum við aðlögun innflytjenda. Mörg skýr tilvik um þetta hafa verið rakin í pistlum hér.hælis

Nýlega varð löng og tímafrek umræða í sölum Alþingis þar sem einn stjórnarandstöðuflokkur, Píratar, hertók umræðuna. Engin getur haldið því fram að sú umræða hafi verið gagnleg eða upplýsandi og er til dæmis fróðlegt að sjá að starfsmenn Alþingis hafa ekki enn treyst sér til að skrifa upp þessa umræðu og hún því ekki aðgengileg í skrifuðum texta þegar þessi pistill er skrifaður. Það blasir við af ummælum Pírata að þeir meta meira hagsmuni fólks í fjarlægum löndum en það að aðstoða landsmenn við að koma upp skynsamlegri útlendingastefnu sem getur tryggt einhverskonar sátt um málaflokkinn. Því miður eru þeir að endurtaka mistök erlendra stjórnmálamanna, mistök sem sumir hafa gengist við og breytt um stefnu í kjölfarið eins og á við um danska jafnaðarmenn. Þá sýndu úrslit síðustu þingkosninga í Svíþjóð að þar telur almenningur að innflytjendamál þurfi nýja nálgun. Á meðan virðast Píratar hafa það að stefnu að skipta sem hraðast um þjóð í landinu.

Velferðakerfi fyrir heimsbyggðina

Þannig hafa margar þjóðir horfst í augu við mistökin. Danir segja núna að það gangi ekki að einstaklingur vakni upp í Afganistan að morgni og sé orðin þátttakandi í danska velferðarkerfinu að kvöldi. Beint aðgengi að velferðarkerfum Norðurlanda getur ekki orðið alþjóðlegur réttur sem allir geta nýtt sér eins og sumir virðast tala. Ef útlendingamál eru hluti velferðarkerfisins þá verður að kostnaðarraða inn í þann málaflokk eins og í önnur velferðarmál, svo sem umönnun aldraðra, barna, sjúklinga, fatlaðra eða annarra sem þurfa á því velferðarkerfi að halda sem við höfum byggt upp hörðum höndum. Það er barnaskapur að tala öðru vísi. Fjölmiðlar gera því miður lítið af því að tala við það fólk sem stendur nú upp fyrir haus við að reyna að taka við þeim fimm hundruð flóttamönnum sem hingað streyma í hverjum mánuði og reyna að finna þeim húsnæði, tryggja þeim framfærslu, heilbrigðisþjónustu og börnum aðgengi að skóla. Kostnaður við þetta er gríðarlegur og önnur velferðarmál sitja á hakanum á meðan.hæli

Ekki lausn á vinnumarkaði

Stundum er rætt um að þeir hælisleitendur sem hingað koma séu einhverskonar lausn á vandamálum vinnumarkaðarins. Það er ekkert sem segir að svo sé, því miður er menntun þessa fólks miðuð við aðrar aðstæður en hér ríkja og það því dæmt til að vera þiggjendur á velferðakerfi okkar. Það getur verið mjög flókið að aðlagast íslensku samfélagi og eftir því sem hóparnir verða stærri því flóknara verður fyrir velferðakerfið að tryggja að svo sé. Á sínum tíma tóku Íslendingar á móti ríflega 30 manna hópi frá Víetnam sem flúði yfirtöku sósíalista á landinu eftir blóðuga borgarastyrjöld. Þetta var duglegt fólk sem helti sér út í vinnu. Rúmlega fjögurra áratuga saga sýnir að atvinnuþátttaka er mikil, fólkinu þykir vænt um Ísland, niðjar þess eiga íslensku að móðurmáli og hafa, eins og aðrir landsmenn, margvísleg hugðarefni og hæfileika. Þessu ber að fagna en 30 manna hópur er augljóslega meðfærilegri en sá 5.000 manna hópur sem nú kemur árlega.

Misnotkun á kerfinu

Það er langt síðan DanirSvíar og Norðmenn gerðu sér grein fyrir að umtalsverð misnotkun var í hælisleitendakerfinu. Þar hefur verið reynt að bregðast við því enda ljóst að slíkt ógnar þeirri sátt og stöðugleika sem þarf að vera um kerfið. Nú höfum við fengið staðfestingu á að það er verið að misnota íslenska innflytjendakerfið og á heldur ósvífin hátt. En undarlegra er að sjá þingmenn Pírata einn af öðrum afneita augljósum sannindum og jafnvel afvegaleiða og villa um eins og sást í máli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur alþingsmanns í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Ef það fólk sem er hér fyrir er að misnota kerfið verður að vísa því úr landi. Augljóslega er það ekki með neinn trúnað við það samfélag sem hefur tekið við því. Það er kjarni þess að ná sátt um innflytjendastefnu að þeir sem eru fyrir og þeir sem koma eigi sér sameiginlega framtíð. Það ættu flestir að gera sér ljóst.