c

Pistlar:

16. febrúar 2023 kl. 20:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Spjallað við Þorvald

Eitt sinn þegar ég var blaðamaður á vikublaðinu Pressunni stakk Gunnar Smári Egilsson ritstjóri upp á því að ég tæki viðtal við Þorvald Gylfason, þá prófessor við Háskóla Íslands. Ég hafði samband við Þorvald sem var ekki áhugasamur og taldi rétt að ég læsi nokkrar bækur áður en viðtalið gæti farið fram. Ég man ekki lengur hvaða bækur hann nefndi en ég efast ekki um að ég hefði haft gott af því að lesa þær.

Þorvaldur hefur í seinni tíð verið út á akri stjórnmálanna, sat í stjórnlagaráði og stofnaði flokk sem bauð fram til Alþingis án þess að hafa erindi sem erfiði. Samhliða hefur hann skrifað mikið um stjórnmálaleg málefni og lýkur flestum sínum greinum á því að fullyrða að nýja stjórnarskráin hefði nú lagað þennan vanda eða komið í veg fyrir þetta ástand. Ég hef oft undrast það sem hann hefur sagt en ekki átt þess kost að eiga orðastað við hann. Þorvaldur birtist enda aldrei í fjölmiðlum öðru vísi en að hann eigi sviðið, semsagt í drottningarviðtölum eins og það er orðað.Þorvaldur

London, París, Washington, Róm og víðar

Í kjölfar greinar Þorvalds í Heimildinni fékk ég loksins tækifæri til að eiga orðastað við Þorvald á Facebook-vegg sameiginlegs vinar. Ég leyfi mér hér að rekja samtalið hér því mér þótti það forvitnilegt.

Sigurður Már Jónsson: „Átta mig ekki á útfærslunni samkvæmt greininni, yrðu fyrirtækin þá bara tekin af eigendum bótalaust og ríkisvaldið tæki yfir rekstur þeirra?“

Þorvaldur Gylfason: „Útfærslan kemur síðar, hún verður ekkert mál, til eru margar uppskriftir, aðalatriðið núna er að bretta upp ermarnar og hefjast handa. Þeir sem vilja óbreytt ástand vilja tala um aukaatriðin, möskvastærð o.s.frv.“

Sigurður Már Jónsson: „Ég skal viðurkenna að ég er frekar hægfara þegar kemur að því að bylta og breyta en mér finnst sanngjarnt að þeir sem tala eins og hér hefur birst útskýri í stórum dráttum hvernig útfærslan verður, umfram það sem birtist í þessum orðum: „Stjórn þessara flokka hefði greiðan aðgang að erlendri sérþekkingu á hvernig vænlegast er að standa að þjóðnýtingu stóru útgerðanna...“ Því leyfi ég mér að spyrja hvar er þessi erlenda sérþekking á þjóðnýtingu útgerðarfyrirtækja og hvernig á þetta að ganga fyrir sig? Mér finnst það nú bara málefnaleg umræða.“

Þorvaldur Gylfason: „London, París, Washington, Róm og víðar.“

Sigurður Már Jónsson: „Er það svo? Eru þessi lönd mikið í þjóðnýtingu sjávarútvegs?“

Þorvaldur Gylfason: „Málið snýst ekki um sjávarútveg heldur um að koma þjóðareign og rentunni af henni í réttar hendur.“

Sigurður Már Jónsson: „Samt skrifar þú „þjóðnýtingu stóru útgerðanna“. Er hægt að skilja það öðru vísi en að rekstur þeirra verði tekin yfir?“

Þar með lauk þátttöku Þorvalds í samtalinu. Af því að fleiri komu að umræðunni þá benti ég á þetta í lokin: „Mér finnst að það megi hafa í huga að á meðal OECD-ríkjanna er það aðeins á Íslandi sem sjávarútvegur skilar meira til hins opinbera en hann fær greitt úr opinberum sjóðum. Í hinum 28 OECD-ríkjunum hefur hlutfall af heildarútgjöldum þeirra sem rennur til sjávarútvegsins aukist úr 5,6% á árunum 2012 til 2014 í 6,8% á árunum 2016 til 2018. Í öllum helstu samkeppnislöndum Íslands eru til staðar ríkisstyrkir til sjávarútvegs en á móti er íslenski sjávarútvegurinn sá eini sem greiðir sérstök gjöld umfram venjulega skattlagningu. Hugsanlega geta menn fundið út annað módel sem hentar okkur en ég sé það ekki innan seilingar í ríkjum OECD.“þorv2

Síðar þennan sama dag var Þorvaldur mættur í viðtal við Rauða borðið, einmitt hjá mínum gamla ritstjóra Gunnari Smára, sem einnig spurði Þorvald um útfærslu og fékk sömu svör, hún mun bara gerast af sjálfu sér. Nú má velta fyrir sér hvort svona upphlaup með mikilvæga atvinnugrein teljist fræðilegt á einhvern hátt. Ljóst er þó að Þorvaldur ætlar ekki að eiga málefnalegt samtal, hann hugsar eins og sannur byltingamaður, útfærslan er aukaatriði, mestu skiptir að bylta því sem fyrir er.

En á þessu eru fleiri hliðar því sjávarútvegurinn, auðlindastýring og uppbygging fyrirtækjareksturs í kringum hann hefur mótast á löngu tímabili. Það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur haft mest fylgi meðal hagfræðinga undanfarna áratugi er kerfi framseljanlegra kvótahlutdeilda eins og dr. Lúðvík Elíasson hagfræðingur hefur bent á. Sú leið býr til eignarrétt þar sem kvótahlutdeild er heimild til ráðstöfunar á tiltekinni prósentu af heildaraflaheimild tímabilsins í tiltekinni tegund. Handhafi hverrar kvótahlutdeildar hefur ráðstöfunarrétt yfir henni. Hann hefur heimild til að veiða sem kvótahlutdeildinni nemur eða hann getur selt hana eða leigt. Framsalið er lykilforsenda sem tryggir að veiðarnar verða hagkvæmar.

Fræðimenn sem vert er að líta til

Það er tilefni til að rifja upp þann hóp sem oft er vitnað til hér í pistlum og fjallar oftast af mikilli þekkingu um sjávarútveg okkar Íslendinga og er augljóslega ekki að taka undir hugmyndir Þorvalds Gylfasonar. Þar má nefna: Dr. Þráinn Eggertsson, dr. Rögnvald Hannesson, dr. Birgir Þór Runólfsson, dr. Ágúst Einarsson, dr. Ástu Dís Óladóttur, dr. Daða Má Kristófersson, dr. Arnar Bjarnason, dr. Ragnar Árnason og dr. Þór Sigfússon.

Og við getum haldið áfram að tína til nöfn og skulu hér nokkur nefnd: Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson (sem mikið hefur fjallað um heimspeki að baki eignarrétti), dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Svanur Guðmundsson sjávarútvegsfræðingur, Hreiðar Valtýsson aðstoðarprófessor, Hörður Sævaldsson lektor (sérsvið hans er stjórnkerfi fiskveiða og markaðir sjávarafurða), dr. Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur, (sem mikið hefur fjallað um eignarhald), dr. Svein Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, (sem stýrði stórri úttekt um sjávarútveginn fyrir stjórnarráðið fyrir tveimur árum), Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Axell Hall, dr. Tryggvi Þór Herbertsson, dr. Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóra hjá Matís, dr. Gunnar Haraldsson hagfræðingur og áðurnefndan dr. Lúðvík Elíasson. Allt eru þetta virtir fræðimenn og margir sérfræðingar um sjávarútveg eða fræði honum tengd. Nú er spurningin hvort Þorvaldur Gylfason, sem einnig státar af doktorsprófi í hagfræði, hafi lesið verk þessara fræðimanna?

(Það má kannski nefna í framhjáhlaupi að ég ákvað að fletta upp á heimasíðu Fjölmiðlanefndar þeim fjölmiðlum sem hér koma við sögu, Heimildinni, Samstöðinni og Alþýðufélaginu án þess að sjá að neinn þeirra sé skráður þar eins og lög kveða á um og þó safna þeir allir styrktarfé hjá lesendum.)