c

Pistlar:

31. mars 2023 kl. 17:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fiskeldi og verðmætasköpun - saga Arnarlax

Undanfarið hefur verið furðu neikvæð umræða um til þess að gera nýja atvinnugrein hér á Íslandi. Þó er engum blöðum um það að fletta að fiskeldi í sjó og á landi getur orðið gríðarlega mikilvæg útflutningsgrein. Samkvæmt Hagstofunni voru Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða árið 2022 48,8 milljarðar króna en var rúmlega 36 milljarðar króna árið 2021. Áfram er gert ráð fyrir hraðri verðmætaaukningu. Nýlega hafa gríðarlegar fjárfestingar í landeldi verið kynntar.arnarl

Það getur verið að hnökrar komi upp í upphafi þar sem lagasetning og regluverk þarf að fylgja eftir uppbyggingu sem fjármögnuð er af einkaaðilum. Augljóslega eru erlendar fjárfestingar verulegar en íslenskir fjárfestar eru einnig stórtækir í fiskeldi, sérstaklega landeldinu. Áhugaverðir tímar eru framundan og verulegar áskoranir. Það er engin ástæða til að víkja sér undan því, bæði sameiginlegir sjóðir og einstaklingar munu hagnast ef vel tekst til.

Mikilvægi fyrirtækja

Í Morgunblaðinu í vikunni var sjónum beint að skattspori vegna starfsemi fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax á síðasta ári sem er leið til að beina sjónum að mikilvægi fyrirtækjareksturs. Umrætt skattspor var nærri 1,5 milljarðar króna, ef við greidda og innheimta skatta er bætt tekjuskatti vegna ársins sem greiddur var í byrjun þessa árs. Arnarlax er ekki gamalt fyrirtæki en það er staðsett á Bíldudal. Þetta er í fyrsta skipti sem fyrirtækið greiðir tekjuskatt enda verið í uppbyggingu og ekki farið að skila raunverulegum hagnaði fyrr en nú segir í frétt blaðsins.

Samkvæmt fréttinni fékk Arnarlax endurskoðunarfyrirtækið PwC til að taka saman upplýsingar um samfélagspor Arnarlax árið 2022, eins og gert hefur verið síðustu ár. Samfélagsspor sýnir með einföldum hætti framlag fyrirtækisins til samfélagsins, meðal annars í formi skatta og opinberra gjalda, nokkuð sem eðlilegt er að taka tillit til þegar verið er að meta framlag fyrirtækja.

Öll gjöld að aukast

Það er forvitnilegt að skoða slíka samantekt um skattaspor fyrirtækisins. Þar sést að öll gjöld hafa vaxið mjög síðustu fjögur ár og mörg þeirra margfaldast. Í ár bætist við 149 milljóna króna tekjuskattur vegna hagnaðar á árinu 2022. Hann er greiddur í byrjun árs 2023. „Þetta eru vissulega allt lögbundnir skattar og gjöld sem fyrirtækjum ber að greiða og innheimta. ... Hér sést svart á hvítu hvað við greiðum og að skattarnir hafa aukist úr hálfum milljarði í 1,5 milljarða á fjórum árum,“ segir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax við Morgunblaðið.arnarl2

Verðmætasköpun

Blaðið hefur einnig eftir Kjartani að sjálfum finnst honum áhugavert að hugsa um hvernig „samfélagssporið“ verði eftir tíu ár, ef þróunin heldur svona áfram, sérstaklega í ljósi þess að
starfsemin er rekin í 1.000 manna samfélagi, þegar litið er til nærsamfélagsins en eins og áður segir er starfsemin á Bíldudal en atvinnuástandið á Vestfjörðum hefur gerbreyst með tilkomu fiskeldis. Þannig var meðalfjöldi starfsmanna 177 á árinu 2022 og í árslok voru 199 starfsmenn hjá félaginu. „Starfsemi okkar skapar veruleg verðmæti sem skipta máli fyrir samfélagið. Allt tal um að það skili engu og fáir séu starfandi eru staðlausir stafir,“ segir Kjartan en fiskeldisfyrirtækin munu hafa einstök áhrif á atvinnulíf úti á landi og breyta byggðaþróun varanlega.

Auðlindagjald svipað

Hvernig skattsporið er reiknað vekur athygli. Staðgreiðsla starfsmanna og mótframlag fyrirtækisins í lífeyrissjóði starfsmanna eru stærstu einstöku liðirnir í skattasporinu. Spurður að því hvernig það verði, að loknum aðlögunartíma, miðað við nýjar tillögur um auðlindagjald á laxeldi í Noregi, segir Kjartan að kerfin séu ekki alveg sambærileg en um áformin í Noregi hefur verið fjallað hér áður í pistli. Kjartan segir að gjaldið verði að öllum líkindum svipað í þessum tveimur löndum þegar upp verður staðið. Að auki eru hér gjöld í umhverfissjóð sjókvíaeldis, aflagjöld og ýmis gjöld sem tengjast framleiðslunni beint og hafa farið vaxandi.

Fiskeldi hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum. Alls var 51.350 þúsund tonnum af fiski slátrað úr eldi á árinu 2022. Langmest var slátrað af laxi, rétt tæplega 45 þúsund tonnum. Nokkur stígandi var í bleikjueldi á síðasta áratug, fram til ársins 2019, en síðan hefur dregið aðeins úr. Engum blöðum er um það að fletta að spennandi tímar eru framundan í fiskeldi.