c

Pistlar:

10. maí 2023 kl. 20:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjálfbærni í heimi sóðanna

Á göngutúrum í nágreni mínu hér Vogahverfinu í Reykjavík rekst maður ansi oft á sóðaskap sem óneitanlega spillir hverfi sem mér þykir orðið ansi vænt um enda hefur það margt upp á að bjóða. Verst sýnist mér vera ástandið í kringum skólanna, þar hleðst upp rusl og annar ófögnuður sem særir augað og spillir umhverfinu. Stundum lætur maður sig hafa það að tína eitthvað af upp, sérstaklega ef um glerbrot er að ræða. Nú gæti verið freistandi að tuða aðeins yfir æsku landsins sem liggur undir grun um að ganga svona um en ég leyfi mér að ætla að það sé svona við aðra skóla líka. Sérstaklega tekst mér að pirra sjálfan mig þegar ég hugsa til þess að sjálfsagt séu blessuð börnin inni í skólastofum að læra um sjálfbærni um leið og verið er að hræða úr þeim líftóruna og ala með þeim loftslagskvíða. Jú, vissulega er mikilvægt að huga að umhverfi sínu og nú þegar jarðarbúar telja átta milljarða er álag á umhverfi og lífríki víða mikið. En það myndi sjálfsagt ekkert spilla að temja börnunum snyrtimennsku og fara öðru hvoru út til að hreinsa til í kringum sig. Við Íslendingar eigum nefnilega mikið óleyst við fegrun og hreinsun umhverfis okkar sem er auðvitað mikilvægt og brýnt umhverfismál.rusl

Sorp og umhverfisvandi Afríku

Ef við hverfum úr Vogunum til Afríku þá er aðeins einn tíunda þess sorps sem fellur til í álfunni meðhöndlaður, annar úrgangur er annað hvort urðaður, honum hent í ár, vötn og sjó eða brenndur í opnum eldi. Talið er að á aðra milljón íbúa Afríku deyi árlega af völdum loftmengunar sem má rekja til meðhöndlunar sorps. Meira að segja þau Afríkuríki sem eru við Miðjarðarhafið setja stóran hluta af sorpi sínu í landfyllingar við sjó, sum þeirra eru sjálf að reyna að laða til sín ferðamenn. Í stórborgum Afríku ríkir ringulreið og sorp og frárennslismál undantekningalaust í ólestri með tilheyrandi mengun og heilsuspillandi umhverfi.

Hröð stækkun borga Afríku eykur vandan. Fjölmennasta borg Afríku er Lagos í Nígeríu en þar eru nú taldir búa um 16 milljónir manna. Árið 1950 voru íbúar Lagos 325.218 talsins. Fjölgunin í Lagos er ör og skapar gríðarleg vandamál en á síðasta ári nam hún um 558.273 íbúum, sem samsvarar 3,63% árlegri breytingu samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Það mun verða öllum áfall að koma til Lagos sem augljóslega ræður ekkert við stækkunina eða áhrif hennar á umhverfið. Talið er að um 23 þúsund börn hafi látist þar á síðasta ári vegna mengunar. Fátæktarhverfin eru víðáttumikil og stór hluti íbúa býr í strandhúsum sem byggð eru á staurum út í sjó þar sem öllu er hent í sjóinn, bæði rusli og úrgangi. Slysahætta er mikil og líkin fljóta um. Ekki þarf að hafa mörg orð um áhrif þess á heilsufar og umhverfið.lagos

Meðhöndlun Afríku á úrgangi í dag hefur ekkert með fortíðarvanda nýlendustefnunnar að gera eða sök iðnveldanna. Sorpmál Afríkuríkja eru algerlega á ábyrgð núverandi stjórnvalda og íbúa landanna. Það er hins vegar alþjóðasamfélagsins að sýna gott fordæmi og stuðning.

Misskilin góðmennska?

Neyslu nútímamannsins fylgir óhjákvæmilega sorp og mengun. Á Vesturlöndum er eðlilega verið að gera stöðugt strangari kröfur á því sviði og kostnaður heimilisins af þessum málaflokki eykst og mun líklega halda áfram að aukast. Í nafni að mörgu leyti misskilinnar góðmennsku afsetja Vesturlandabúar vörur sínar til Afríku og annarra þróunarlanda. Það steypir undan iðnaði heimamanna og annarri starfsemi og eykur stundum á mengun þar. Alþjóðabankinn áætlar að um 100 milljarðar tonna af hráefni séu notuð í heiminum árlega og gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu sorps samfara fjölgun fólks.

Hægt er að setja sér allskonar markmið um sjálfbærni í þessum heimi sóðanna en stundum er hægt að setja skiljanleg og þörf markmið í stað þess að fara upp í 30 þúsund feta hæð eins og forsætisráðherra kynnti að loknum sjálfbærniferðalagi sínu um landið. Eða eins og hinn þekkti sálfræðingur dr. Jordan Peterson hefur bent á, þá er oft gott að byrja á því að taka til í herbergi sínu.