Allt helst það í hendur, atvinna, menning og mannlíf. Til að ná að byggja upp og varðveita samfélag þá þarf að huga að öllum þessum stoðum. Sem betur fer er það svo, að víða um land eru byggðir, sem einu sinni bjuggu við hnignun, að eflast á ný. Hugsanlega er hnignun ekki rétta orðið, samdráttur og stöðnun hófst oft í kjölfar þess að forsendur fyrir atvinnu breyttust og ný tækifæri létu á sér standa. Þróunin var oft með líkum hætti, unga fólkið sem fór að mennta sig kom ekki til baka og þeir sem misstu atvinnuna urðu að flytja. Fólki fækkaði smám saman og um leið tækifærunum því menn eru jú alltaf að þjónusta hvorn annan.
Sem gefur að skilja er landsbyggðin viðkvæmust, þar eru byggðalögin smá, samgöngur erfiðar og atvinnulíf einhæft. Það þarf því ekki mikið að gerast til að þróunin snúist á verri veg. En á móti má segja að stundum þurfi ekki mikið að gerast til að rofni til og bjartsýni og framfaraandi taki við.
Bjartsýni og uppgangur
Fyrir nákvæmlega 10 árum skrifaði ég pistil um Patreksfjörð sem þá var að byrja að sýna merki umsnúnings og atvinnulíf að glæðast, að mestu vegna fjölgunar ferðamanna og áhuga á fiskeldi. Þetta má sem betur fer sjá allstaðar um Vestfirði.
Um Hvítasunnuhelgina dvaldi ég þar og nú er hægt að segja að bjartsýni og uppgangur einkenni staðinn. Ný hús eru í smíðum og verið að huga að þeim gömlu. Út um allt eru vinnupallar og margar framkvæmdir ansi metnaðarfullar. Patreksfjörður á sér merka sögu og þar má finna mikið safn gamalla húsa sem eru nú mörg að ganga í endurnýjun lífdaga og verða á ný staðarprýði. Um leið og sagan vaknar til lífs hefur staðurinn meira að bjóða fyrir aðkomumenn þó að það sé ávallt áskorun að halda úti þjónustu á ekki fjölmennari stöðum.
Það er merkilegt að sjá breytingarnar eiga sér stað og hvað þær geta haft mikil áhrif. Íbúum er nú tekið að fjölga á ný og það á reyndar einnig við um Tálknafjörð og þó sérstaklega Bíldudal en þar er mikið atvinnuævintýri að eiga sér stað í kringum kalkþörungaverksmiðjuna og sérstaklega fiskeldið. Þar vantar sárlega íbúðahús og fyrirtæki og sveitarfélagið reyna að bæta þar úr.
Vegagerð fyrir nútímasamfélag
Innviðir hafa verið styrktir á öllum þessum stöðum en sem fyrr eru það samgöngurnar sem skipta mestu. Að aka Hjallaháls og Ódrjúgsháls er vandasamt að sumri til, hvað þá að vetri en nú keyra tugir flutningabíla þar um á hverjum sólarhringi með fisk suður eftir. Enn dagur í töf rýrir verðmæti afurða verulega. Oft hefur litlu mátt muna að alvarleg slys ættu sér stað.
Nú er loksins hafin vegagerð um Teigsskóg og þegar öllum þeim framkvæmdum lýkur styttist leiðin vestur um tugi kílómetra. Þverun Þorskafjarðar ein og sér mun stytta leið milli byggðarlaga um 9 km og þegar öllum framkvæmdum verður lokið hefur leiðin milli Reykjavíkur og Ísafjarðar verið stytt um 50 km og eru þá Dýrafjarðargöng meðtalin. Leið um Teigsskóg ein og sér felur í sér 22 kílómetra styttingu fyrir íbúa Vesturbyggðar. Ríflega 30 km af gömlum malarvegum verða aflagðir og seinfærir fjallvegir aflagðir eins og áður segir. Nýir vegir munu skipta sköpum fyrir áframhaldandi þróun byggðar á Vestfjörðum. Þolinmæði íbúa er mikil en áratugir eru síðan byrjað var að ræða þessar sjálfsögðu vegabætur.
Allt mun þetta styðja við og efla atvinnu, menningu og mannlíf en því til viðbótar er náttúra Vestfjarða einstök.