c

Pistlar:

12. júní 2023 kl. 20:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Svíþjóð: 30 þúsund tengdir glæpagengjum

Undanfarið hefur óvenju slæm hrina ofbeldis og glæpa riðið yfir Svíþjóð og nú virðist ástandið vera hvað verst í Stokkhólmi. Á síðustu tólf dögum hafa níu manns verið skotnir í borginni. Þá var fimmtán ára drengur stunginn til bana á fimmtudaginn. Á laugardaginn átti sér síðan stað skotárásin í hverfinu Farsta í Stokkhólmi. Fimmtán ára drengur lést í henni og þrír aðrir særðust. Hinir særðu eru fimmtán ára drengur, sextíu og fimm ára kona og fjörutíu og fimm ára karlmaður, sem er alvarlega særður en hann er erlendur ríkisborgari. Lögregla hefur handtekið tvo menn sem grunaðir eru um árásina, en árásarmennirnir eru sagðir hafa hleypt af meira en tuttugu skotum.skotinn

Það er furðulegt til þess að hugsa að lögreglan rannsakar málið á þeim forsendum að drengirnir tveir hafi verið skotmörkin. Hin tvö eru saklausir vegfarendur. Ofbeldisverk meðal og gagnvart barnungu fólki virðast vera að aukast. Frá því um jól hafa sjötíu og sjö ofbeldisverk, sem talið er að séu tengd glæpagengjum, verið framin í Stokkhólmi einum. Lögreglan hefur lengi verið vanmáttug gagnvart þessari þróun og ekki er nema rúmt ár síðan hún missti tök á ástandinu í nokkrum borgum í Svíþjóð eins og fjallað var um hér í pistli.

Á síðustu árum hefur orðið gífurleg fjölgun á glæpum í Svíþjóð og skipulögðum glæpagengjum vex um leið fiskur um hrygg. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins greindi Ulf Kristersson forsætisráðherra frá því á facebooksíðu sinni í gær að ríkisstjórn hans myndi grípa til aðgerða til að sporna við þessari þróun. „Staðan er gríðarlega alvarleg,“ skrifaði Kristersson á Facebook. Sagði hann að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu væru um þrjátíu þúsund manns annaðhvort meðlimir í eða með tengsl við glæpagengi. Þá bættast þrír við á hverjum degi. Þetta samsvarar því að um 300 Íslendingar væru tengdir glæpagengjum. Þegar Íslendingar búsettir í Svíþjóð eru spurðir um þetta dæsa þeir og segja þetta því miður daglegt brauð. Nú sé enginn óhultur sagði íslensk kona búsett í Malmö við pistlaskrifara. Myndin er frá stað þar sem tvær sænskar konur voru skotnar í Malmö í fyrra.skotáras

Barnungir glæpamenn

Í nýlegu viðtali sænska ríkissjónvarpsins við Christoffer Bohman, yfirmann rannsóknardeildar lögreglunnar í Sörmland, kom fram að lögreglan hefði borið kennsl á um 1.200 glæpamenn í gengjum í Svíþjóð, sem eru yngri en 18 ára og 170 börn yngri en 15 ára. Bohman sagði að raunveruleg tala getur verið miklu hærri. Lögreglan segist vera að endurbæta vinnu sína gegn glæpahópunum svo draga megi úr upptöku nýliða í hópanna. Hafa verður í huga að ef unglingur undir 18 ára aldur verður einhverjum að bana þá er refsingin aðeins tvö ár á unglingaheimili. Þetta vita glæpagengin og nýta sér til að láta þá yngri sjá um glæpaverkin, oft sem vígsluaðgerðir. Tölfræðin varðandi glæpaklíkurnar og unga karlmenn er óhugnaleg.

Djúpstæður vandi fjölmenningarsamfélagsins

Staðan núna er mörgum vonbrigði þar sem ný ríkisstjórn undir forystu Ulf Kristersson, formanns Hægriflokksins, tók við völdum í Svíþjóð í október síðastliðnum og batt þar með enda á valdatíð vinstri blokkarinnar undir forystu Jafnaðarmanna. Vinstri blokkin hélt ekki velli í kosningum, aðallega vegna stórsigurs Svíþjóðardemókratanna sem fengu ríflega fimmta hvert atkvæði og eru nú næst stærsti flokkur Svíþjóðar. Ný ríkisstjórn í Sví­þjóð samanstendur af Hægriflokkum, Kristilegum demókrötum og Frjálslynda flokknum og er varin vantrausti af Svíþjóðardemókrötum sem enn verða að þola útilokun frá sænskum valdastólum en hafa talsverð áhrif á löggjöf. Nýja stjórnin hefur nauman meirihluta. Mörgum finnst djúpt á raunhæfar lausnir í útlendingamálum og ríkisstjórnin hefur verið að hrapa í vinsældum og Jafnaðarmenn mælast nú með 38% fylgi. Sem má túlka sem vonbrigði við aðgerðum nýrrar ríkisstjórnar sem hefur þó ráðist í gerð nýrrar útlendingalöggjafar og ýtt á eftir breytingum á Evrópuþinginu.

Vandinn virðist hins vegar vera djúpstæður. Þar verður að horfa til mikils atvinnuleysis útlendinga og ungs fólks. Einnig skiptir miklu varðandi vöxt gengjanna að börn innflytjenda komast ekki í menntaskóla og detta úr námi sem hefur síðan mikil áhrif á glæpaklíkurnar sem laða til sín þetta unga fólk. Þá er erfitt að breyta því að innfæddir Svíar og innflytjendur lifa að stórum hluta í aðskildum heimum og meðal ungra innflytjenda ríkir mikið vonleysi og vantrú á framtíðinni. Rétt eins og er með innflytjendur og afkomenda þeirra í Frakklandi þá finnst ungu fólki nýja samfélagið hafa brugðist sér.Tunna blá linjen

Lögum breytt og lögreglan í vanda

Áhorfendur Ríkissjónvarpsins geta fengið nasasjón af starfi lögreglumanna í Svíþjóð í gegnum aðra þáttaröðina af Tunna blå linjen (Bláa línan) sem sýnir hve hættulegt starf lögreglunnar í Malmö er. Sjónvarpsþættirnir hafa hlotið mikið lof en þeir taka meðal annars fyrir þá kjarnabreytingu sem er að verða á hinu frjálslynda sænska samfélagi, bæði þegar kemur að hugsun og hegðun. Um leið eru teknar fyrir hvers konar grundvallarbreytinga eru að verða vegna þeirra menningarlegu áskoruna sem fylgja innflytjendastefnu Svía og vandkvæði við að aðlaga hana samfélaginu og áhrif alls þess á stoðir sænsks þjóðfélags. Þættirnir eru taldir sýna veruleikann í Svíþjóð með skýrum hætti og varpa ljósi á hvaða áskoranir samfélagið stendur frammi fyrir.

Eins og áður segir hefur lögum verið breytt og sumar breytingarnar virðast lýsa ógöngum löggjafans. Í því fellst meðal annars að fleiri verði fangelsaðir, sumir án tímatakmarka á meðan rannsókn stendur yfir. Þá verður heimilt að bannað þeim sem brjóta af sér að búa í sínum gömlu hverfum eða sveitarfélögum. Þá er ætlunin að beita oftar brottrekstri vegna alvarlegra glæpa og að viðkomandi fái ekki að koma til baka til Svíþjóðar. Einnig er ætlunin að leyfa félagsþjónustunni að grípa fyrr inn í líf barna sem alast upp í kringum glæpi. Þá verður lögð áhersla á að fleiri læri sænsku, ljúki skólagöngu og öðlist betri tengsl við samfélagið.