c

Pistlar:

15. júní 2023 kl. 20:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rasismi og skotárásir í Malmö

Svíar vilja gjarnan setjast niður, ræða vandamálin og leysa þau með samtali. Handboltaunnendur fylgdust oft með leikhléum sænska landsliðsins meðan það drottnaði yfir öðrum liðum þar sem þjálfarinn var bara einn af mörgum sem tjáði sig, virtist hafa tillögurétt en ekki endilega ráða leik liðsins. Hin dæmigerði Svenson er með öðrum orðum lausnamiðaður, allinn upp í jafnaðarmannaþjóðfélagi þar sem allir leggja sitt til og eiga sína rödd. Hin nýja Svíþjóð fjölmenningarinnar á erfitt með að finna þessa samtalsrödd.polis1

Við fengum ágæta sýn á þetta í nýlegum þætti af sænsku sjónvarpsþáttaröðinni Tunna blå linjen (Bláa línan) en hún fjallar um líf lögreglumanna í Malmö og hefur verið vikið að þáttunum áður hér í pistlum. Ásakanir um kynþáttahyggju, rasisma, eru hluti af veruleika nútímans og það endurspeglast mjög vel í þáttunum. Eitt atriði fjallaði um það þegar upp höfðu komið atvik sem á samfélagsmiðlum höfðu verið túlkuð sem merki um rasisma innan lögreglunnar. Myndskeiðum af atvikum var dreift og nöfn einstakra lögreglumanna birt, jafnvel með hótunum. Ljóshærða lögreglukonan frá Smálöndunum var allt í einu dæmigerður rasisti. Sest var niður til að ræða málið og umræðustjórinn hafði fengið fulltrúa minnihlutahópa (afkomenda innflytjenda) til að taka þátt í umræðunni. Stór hluti lögreglumanna var einnig með slíkan bakgrunn og eftir skamma stund varð umræðustjórinn að stöðva umræðuna og þakka gestum fyrir komuna. Eftir það gátu lögreglumennirnir rætt málin sem endaði með sársaukafullum kýtingum sem snérust um ólíkan bakgrunn þeirra og hvað fólk sem ekki er hvítt má þola í Svíþjóð fjölmenningarinnar. Eftirtektarvert atriði, en það sýndi að úr því að meira að segja lögreglan getur ekki rætt þessi mál hvernig á samfélaginu í heild að takast það? Eftir stendur áhorfandinn með þá tilfinningu að sænskt þjóðfélag sé margklofið og fast í viðjum umræðu um rasisma, einfaldlega vegna þess að sameiginlegur bakgrunnur er enginn.polis2

Skálmöld í Malmö

Í Morgunblaði dagsins fáum við einnig sýn á ástandið í Svíþjóð en þar er rætt við Daða Þór Vil­hjálms­son, yf­ir­lækn­ir á Há­skóla­sjúkra­hús­inu í Mal­mö. Daði er sér­fræðing­ur í mjög sér­hæfðum krabba­meinsaðgerðum sem sjúkra­húsið í Mal­mö sinn­ir sem er eitt af stærstu sjúkra­hús­um Svíþjóðar til að sinna slík­um aðgerðum. Daði þarf hins vegar að takast á við afleiðingar þeirrar skálmaldar sem ríkir í Svíþjóð sem blaðamaður Morgunblaðsins segir alþekkta. Þar sé fólk skotið til bana tug­um sam­an ár hvert í vær­ing­um inn­flytj­enda og fíkni­efna­sala. Daði er spurður hvort þetta hafi ekki áhrif.

„Já, hér hef­ur sum árin verið styrj­öld milli gengja og við fáum reglu­lega skotáverka og stungu­áverka,“ svar­ar Daði, „ég sá ný­lega graf þar sem farið var yfir skotáverka í Evr­ópu og á tíma­bili var Mal­mö þar með lang­flesta slíka áverka miðað við höfðatölu og ég hef fram­kvæmt haug af aðgerðum vegna skot- og stungu­árása. Þegar maður er á vökt­um sinn­ir maður öllu, þá fær maður all­an prófíl­inn,“ seg­ir yf­ir­lækn­ir­inn og bætir við: „Já, við ger­um það og lög­um þau líf­færi sem hafa skaðast. Við erum með mjög öfl­uga bráðamót­töku þar sem all­ir þekkja sín hlut­verk og við för­um jafnt í brjóst- og kviðar­hol á fólki þótt hjarta- og lungna­sk­urðdeild­in sé í Lundi. Á tíma­bili var það orðið þannig að við vor­um orðin svo von skotárás­um á brjóst­kassa að þegar ein­hver var skot­inn í smá­bæj­um nærri Lundi komu sjúkra­bíl­arn­ir oft­ast til okk­ar frek­ar en að fara með þá á sjúkra­húsið í Lundi. Þetta hef­ur nú breyst núna reynd­ar, núna sinn­ir Lund­ur þessu al­veg eins og við, en við í Mal­mö erum með mjög stórt upp­töku­svæði,“ svar­ar lækn­ir­inn.skotinn

Refsikerfi glæpamanna

Sem nærri má geta eru skotáverkar alvarlegir en árásir virðast síður en svo tilviljanakenndar, reyndar hluti af sjálfstæðu refsikerfi eins og læknirinn lýsir. „Jú, þetta eru al­var­leg­ir áverk­ar og ég hef séð mikla þróun í þeim síðan ég kom hingað. Oft er verið að vara fólk við og þá er fólk skotið í út­limi. Þá gát­um við í skurðdeild­inni bara labbað út vegna þess að þá tóku bæklun­ar­sk­urðlækn­arn­ir við,“ svar­ar þessi sjóaði lækn­ir í Svíþjóð en nefn­ir um leið annað atriði, ískyggi­legt.

„Eft­ir því sem við verðum flinkari aðlag­ast þeir sem eru að skjóta fólk. Þeir eru farn­ir að skjóta meira á svæði sem við eig­um erfiðara með að hjálpa fólki með auk þess sem við sjá­um meira af niður­lægj­andi skotárás­um, það er verið að skjóta fólk í endaþarm­inn eða á svæði þar sem vitað er að fólk fái stómí­ur [utanáliggj­andi hægðalos­un], það er verið að lim­lesta fólk, því er leyft að lifa af en á að minn­ast þess hvers vegna það var skotið, þetta er þekkt til dæm­is í Suður-Afr­íku líka,“ seg­ir Daði.

Frétt­ir af ástand­inu í Mal­mö hafa varla farið fram hjá þeim sem al­mennt fylgj­ast með frétt­um og blaðamaður Morgunblaðsins spyr Daða hvort al­menn­ir borg­ar­ar þurfi þar að ótt­ast um ör­yggi sitt á göt­um úti?

„Ef þú hefðir spurt mig þess­ar­ar spurn­ing­ar fyr­ir nokkr­um árum hefði ég sagt nei, al­menn­ir borg­ar­ar þurfa ekki að hafa áhyggj­ur annað en að það er þung­bært að lesa þetta í fjöl­miðlum enda­laust og heyra þetta úti á götu auk þess hvað þetta kost­ar heil­brigðis­kerfið,“ svar­ar Daði en kveður öld­ina aðra nú og bætir við.

Tek­inn af lífi

„Síðustu ár hef­ur orðið mik­il breyt­ing. Nú eru skot­b­ar­dag­ar að degi til og jafn­vel í versl­un­ar­miðstöðvum eins og ný­legt dæmi sýn­ir þar sem einn var bara tek­inn af lífi fyr­ir fram­an fjölda fólks í Emporia-versl­un­ar­miðstöðinni, þar á meðal eig­in­konu mína sem var þarna að versla. Við höf­um fengið til okk­ar fólk sem hef­ur verið skotið bara fyr­ir slysni og annað sem hef­ur líka vakið at­hygli mína núna síðasta árið er að við erum að fá inn til okk­ar ætt­ingja fólks, sak­lausa ætt­ingja ein­hvers glæpa­manns í ein­hverri klíku þar sem hin klík­an er að hefna sín með því að myrða eða lim­lesta fjöl­skyld­una, það er orðið mun meira áber­andi í dag,“ seg­ir Daði Þór Vilhjálmsson yf­ir­lækn­ir í viðtalinu við Morgunblaðið.

Eftir síðustu hrinu skotárása sendi forsætisráðherra Svíþjóðar: „Mér skilst að margir hafi nú áhyggjur. Sjálfra sín vegna og vegna barna sinna – en líka fyrir Svíþjóð. Skilaboð mín eru að ef þetta getur orðið svona slæmt þá getur þetta batnað. Ef við breytum rétt og gefumst ekki upp,“ skrifaði Ulf Kristersson forsætisráðherra. Eru þessi ummæli til marks um að ráðamenn hafi gefist upp á ástandinu?