Svíar vilja gjarnan setjast niður, ræða vandamálin og leysa þau með samtali. Handboltaunnendur fylgdust oft með leikhléum sænska landsliðsins meðan það drottnaði yfir öðrum liðum þar sem þjálfarinn var bara einn af mörgum sem tjáði sig, virtist hafa tillögurétt en ekki endilega ráða leik liðsins. Hin dæmigerði Svenson er með öðrum orðum lausnamiðaður, allinn upp í jafnaðarmannaþjóðfélagi þar sem allir leggja sitt til og eiga sína rödd. Hin nýja Svíþjóð fjölmenningarinnar á erfitt með að finna þessa samtalsrödd.
Við fengum ágæta sýn á þetta í nýlegum þætti af sænsku sjónvarpsþáttaröðinni Tunna blå linjen (Bláa línan) en hún fjallar um líf lögreglumanna í Malmö og hefur verið vikið að þáttunum áður hér í pistlum. Ásakanir um kynþáttahyggju, rasisma, eru hluti af veruleika nútímans og það endurspeglast mjög vel í þáttunum. Eitt atriði fjallaði um það þegar upp höfðu komið atvik sem á samfélagsmiðlum höfðu verið túlkuð sem merki um rasisma innan lögreglunnar. Myndskeiðum af atvikum var dreift og nöfn einstakra lögreglumanna birt, jafnvel með hótunum. Ljóshærða lögreglukonan frá Smálöndunum var allt í einu dæmigerður rasisti. Sest var niður til að ræða málið og umræðustjórinn hafði fengið fulltrúa minnihlutahópa (afkomenda innflytjenda) til að taka þátt í umræðunni. Stór hluti lögreglumanna var einnig með slíkan bakgrunn og eftir skamma stund varð umræðustjórinn að stöðva umræðuna og þakka gestum fyrir komuna. Eftir það gátu lögreglumennirnir rætt málin sem endaði með sársaukafullum kýtingum sem snérust um ólíkan bakgrunn þeirra og hvað fólk sem ekki er hvítt má þola í Svíþjóð fjölmenningarinnar. Eftirtektarvert atriði, en það sýndi að úr því að meira að segja lögreglan getur ekki rætt þessi mál hvernig á samfélaginu í heild að takast það? Eftir stendur áhorfandinn með þá tilfinningu að sænskt þjóðfélag sé margklofið og fast í viðjum umræðu um rasisma, einfaldlega vegna þess að sameiginlegur bakgrunnur er enginn.
Skálmöld í Malmö
Í Morgunblaði dagsins fáum við einnig sýn á ástandið í Svíþjóð en þar er rætt við Daða Þór Vilhjálmsson, yfirlæknir á Háskólasjúkrahúsinu í Malmö. Daði er sérfræðingur í mjög sérhæfðum krabbameinsaðgerðum sem sjúkrahúsið í Malmö sinnir sem er eitt af stærstu sjúkrahúsum Svíþjóðar til að sinna slíkum aðgerðum. Daði þarf hins vegar að takast á við afleiðingar þeirrar skálmaldar sem ríkir í Svíþjóð sem blaðamaður Morgunblaðsins segir alþekkta. Þar sé fólk skotið til bana tugum saman ár hvert í væringum innflytjenda og fíkniefnasala. Daði er spurður hvort þetta hafi ekki áhrif.
„Já, hér hefur sum árin verið styrjöld milli gengja og við fáum reglulega skotáverka og stunguáverka,“ svarar Daði, „ég sá nýlega graf þar sem farið var yfir skotáverka í Evrópu og á tímabili var Malmö þar með langflesta slíka áverka miðað við höfðatölu og ég hef framkvæmt haug af aðgerðum vegna skot- og stunguárása. Þegar maður er á vöktum sinnir maður öllu, þá fær maður allan prófílinn,“ segir yfirlæknirinn og bætir við: „Já, við gerum það og lögum þau líffæri sem hafa skaðast. Við erum með mjög öfluga bráðamóttöku þar sem allir þekkja sín hlutverk og við förum jafnt í brjóst- og kviðarhol á fólki þótt hjarta- og lungnaskurðdeildin sé í Lundi. Á tímabili var það orðið þannig að við vorum orðin svo von skotárásum á brjóstkassa að þegar einhver var skotinn í smábæjum nærri Lundi komu sjúkrabílarnir oftast til okkar frekar en að fara með þá á sjúkrahúsið í Lundi. Þetta hefur nú breyst núna reyndar, núna sinnir Lundur þessu alveg eins og við, en við í Malmö erum með mjög stórt upptökusvæði,“ svarar læknirinn.
Refsikerfi glæpamanna
Sem nærri má geta eru skotáverkar alvarlegir en árásir virðast síður en svo tilviljanakenndar, reyndar hluti af sjálfstæðu refsikerfi eins og læknirinn lýsir. „Jú, þetta eru alvarlegir áverkar og ég hef séð mikla þróun í þeim síðan ég kom hingað. Oft er verið að vara fólk við og þá er fólk skotið í útlimi. Þá gátum við í skurðdeildinni bara labbað út vegna þess að þá tóku bæklunarskurðlæknarnir við,“ svarar þessi sjóaði læknir í Svíþjóð en nefnir um leið annað atriði, ískyggilegt.
„Eftir því sem við verðum flinkari aðlagast þeir sem eru að skjóta fólk. Þeir eru farnir að skjóta meira á svæði sem við eigum erfiðara með að hjálpa fólki með auk þess sem við sjáum meira af niðurlægjandi skotárásum, það er verið að skjóta fólk í endaþarminn eða á svæði þar sem vitað er að fólk fái stómíur [utanáliggjandi hægðalosun], það er verið að limlesta fólk, því er leyft að lifa af en á að minnast þess hvers vegna það var skotið, þetta er þekkt til dæmis í Suður-Afríku líka,“ segir Daði.
Fréttir af ástandinu í Malmö hafa varla farið fram hjá þeim sem almennt fylgjast með fréttum og blaðamaður Morgunblaðsins spyr Daða hvort almennir borgarar þurfi þar að óttast um öryggi sitt á götum úti?
„Ef þú hefðir spurt mig þessarar spurningar fyrir nokkrum árum hefði ég sagt nei, almennir borgarar þurfa ekki að hafa áhyggjur annað en að það er þungbært að lesa þetta í fjölmiðlum endalaust og heyra þetta úti á götu auk þess hvað þetta kostar heilbrigðiskerfið,“ svarar Daði en kveður öldina aðra nú og bætir við.
Tekinn af lífi
„Síðustu ár hefur orðið mikil breyting. Nú eru skotbardagar að degi til og jafnvel í verslunarmiðstöðvum eins og nýlegt dæmi sýnir þar sem einn var bara tekinn af lífi fyrir framan fjölda fólks í Emporia-verslunarmiðstöðinni, þar á meðal eiginkonu mína sem var þarna að versla. Við höfum fengið til okkar fólk sem hefur verið skotið bara fyrir slysni og annað sem hefur líka vakið athygli mína núna síðasta árið er að við erum að fá inn til okkar ættingja fólks, saklausa ættingja einhvers glæpamanns í einhverri klíku þar sem hin klíkan er að hefna sín með því að myrða eða limlesta fjölskylduna, það er orðið mun meira áberandi í dag,“ segir Daði Þór Vilhjálmsson yfirlæknir í viðtalinu við Morgunblaðið.
Eftir síðustu hrinu skotárása sendi forsætisráðherra Svíþjóðar: „Mér skilst að margir hafi nú áhyggjur. Sjálfra sín vegna og vegna barna sinna – en líka fyrir Svíþjóð. Skilaboð mín eru að ef þetta getur orðið svona slæmt þá getur þetta batnað. Ef við breytum rétt og gefumst ekki upp,“ skrifaði Ulf Kristersson forsætisráðherra. Eru þessi ummæli til marks um að ráðamenn hafi gefist upp á ástandinu?