Þegar Íslendingur þarf að nýta heilbrigðis- eða sjúkraþjónustu erlendis verður hann að undirrita pappíra, með vísun í að greitt sé fyrir þjónustuna af þeim aðila sem ber ábyrgð á sjúkra- eða heilsutryggingu viðkomandi, áður en þjónustan er veitt. Pappírsvinnan þarf að vera í lagi, því að þannig vinna velferðar- og tryggingakerfi vestrænan samfélaga. En nú höfum við boðið flóttamönnum og hælisleitendum aðild að þessu velferðarkerfi án undangengins réttindaávinnings. Það hlýtur að kalla á umræðu, þótt hún geti verið óþægileg einhverjum, um þann kostnað sem af því hlýst.
Það er ef umhugsunarvert hvernig á að skilgreina málefni hælisleitenda eða flóttamanna. Neyðin er viðvarandi og ástandið hefur áhrif til langframa. Hælisleitendurnir geta jafnvel, breytt þjóðfélagsgerðum þar sem þeir setjast að til lengri eða skemmri tíma eins og alloft hefur verið fjallað um hér í pistlum. Fátt leggur meira álag á nágrannalönd okkar og flóttamenn. Þessi málaflokkur getur haft í för með sér verulegar breytingar á hinu pólitíska landslagi. Það er furðulegt ef Íslendingar halda að þeir séu ónæmir fyrir þessum möguleika og að reynsla nágranalandanna skipti engu, sérstaklega þegar tölurnar eru skoðaðar. Það er svo að lengi vel voru umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi vel innan við 100 á ári, en þeim snar fjölgaði 2016 og voru um 900 á ári fram til 2022 þegar sem sprenging varð og fjöldinn varð 4.571. Í ár er búist við að þeir verði enn fleiri eða á bilinu sex til sjö þúsund.
Ófremdarástand í Reykjanesbæ
Sumstaðar er ófremdarástand eins og flestir í Reykjanesbæ viðurkenna. Þar eru að minnsta kosti 1.100 hælisleitendur og fólk sem er í samræmdri móttöku flóttafólks. Margrét Sanders, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, skrifar í Morgunblaðið í dag að margir vilji meina að þeir séu umtalsvert fleiri. Hún telur að skráningu á fjölda sé mjög ábótavant og erfitt er að fá nákvæmar tölur hjá hinu opinbera. Margrét bendir einnig á að til samanburðar á þessum fjölda í Reykjanesbæ þá ætti Reykjavík að taka á móti 7.000 flóttamönnum miðað við íbúafjölda, Kópavogur 2.000, Hafnarfjörður 1.500 og Garðabær 950. Margrét segir að á sama tíma og félagsmálaráðuneytið virðist hafa skilning á því að fækka þurfi flóttafólki í Reykjanesbæ hefur Vinnumálastofnun gengið mjög hart fram til að fá leiguhúsnæði í Reykjanesbæ. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, hefur einnig bent á að Vinnumálastofnun hafi tekið heilu hótelin á leigu í Hafnarfirði, án þess að upplýsa stjórnendur bæjarfélagsins, fyllt þau að hælisleitendum og sagt sveitarfélaginu að fólkið sé nú á þess ábyrgð.
Falinn kostnaður
Augljóslega er mikilvægt að skoða hvað þessi málaflokkur kostar samfélagið, án þess er ekki hægt að móta stefnu og viðbrögð. Undanfarið hafa sveitastjórnarmenn orðið æ skýrari þegar kemur að því að orða vandann sem þessu fylgir, enda nærri þeim sem standa í framlínunni, svo sem kennurum og starfsfólki félagsmálaþjónustu. Stefnuleysi ríkisstjórnar og Alþingis lendir á þeim, enda sveitarfélaganna að veita mest alla þjónustuna við flóttamennina. Hver og einn einstaklingur, alveg sama í hvaða úrræði hann lendir, kallar á fjárútlát sem annað hvort ríkissjóður eða sveitasjóður greiðir. Greiðslur ríkissjóðs til sveitarfélaganna dekka engan veginn raunkostnað eins og kom skýrt fram í máli Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra í Hafnarfirði, í Kastljósi á mánudaginn. Þar vakti athygli hve afdráttarlaus hún og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, voru um þann vanda sem myndast hefur. Móttaka þúsunda flóttamanna á ári leggur mikið álag á velferðar,- mennta,- og heilbrigðiskerfið. Kostnaðurinn við það birtist ekki í opinberum tölum eins og þeim sem Ríkisútvarpið birti og sjást hér.
Þessar tölur Ríkisútvarpsins er fráleitt tæmandi og nær að líta til þess sem bent var á í leiðara Morgunblaðsins í gær. „Það er óþolandi að á annað þúsund manns bíði eftir svari um hæli á Íslandi, sem leiðir af sér kostnað sem slagar hátt í milljarð króna á mánuði. Er það þó aðeins hluti útgjalda vegna hælisleitenda; heildartalan liggur ekki fyrir, en giskað er á 25-30 milljarða króna á ári. Það eru engir smápeningar – öll aðföng Landspítalans á ári kosta um 20 milljarða.“
Augljóslega eru margar stofnanir eins og Útlendingaeftirlitið og Vinnumálastofnun á fullu við að sinna málaflokknum og stöðugt bætist í. Heilbrigðiskerfið er þanið og álag er á löggæsluna sem þarf stöðugt að framfylgja stjórnvaldsúrræðum. Það er auðvitað nöturlegt að þurfa að senda lögregluþjóna með fólki úr landi og kostar hver ferð drjúgan skildinginn. Neyðarbrauð er að reyna að greiða fólki sjálft fyrir að fara. Reynslan sýnir að það er engin trygging fyrir því að viðkomandi komi ekki aftur, hvort sem þeir fara sjálfviljugir eða ekki. Þá er einnig engin yfirsýn í kerfinu hvar þeim sem hefur verið synjað um landvistarleyfi halda sig. Þannig eru dæmi um að einstaklingar hafi árum saman verið ólöglega í landinu. Dæmi er um að slíkir einstaklingar hafi fundist fyrir tilviljanir í hefðbundnu umferðareftirliti.
Málið komið á dagskrá
En af hverju hefur þetta mál ekki komist á dagskrá fyrr, við höfum reynslu nágranalandanna og margir hafa bent á þróunina undanfarin ár? Það var merkilegt að hlusta á yfirlýsingu Bjarnar Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins við ráðherraskiptin á kvenréttindadaginn. Hann sagði Alþingi hafa brugðist í því að afgreiða mál sem Jón Gunnarsson fráfarandi dómsmálaráðherra og aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu hafi lagt fyrir Alþingi. Þess þess vegna hafi stjórnvöld misst tökin á málaflokknum þannig að kostnaðurinn við hann sé algerlega farinn úr böndum sem sé óásættanlegt. Um leið sagði Bjarni það jafnframt óásættanlegt að á annað þúsund manns biðu eftir svari um hæli á Íslandi og að það feli í sér kostnað upp á um einn milljarð króna í hverjum mánuði. Bjarni bætti um betur og sagði með öllu óásættanlegt að kostnaður við að svara fólki sé kominn yfir tíu milljarða króna á ári.
Það var eftirtektarvert að hlusta á fjármálaráðherra lýsa því yfir að það væri eitthvað að í íslenska stjórnkerfinu og að Guðrún Hafsteinsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, fái nú stuðning til að breyta því. Af orðum hans að dæma virðist Sjálfstæðisflokkurinn vilja taka á þessum málaflokki en ljóst er að mikil óeining er innan ríkisstjórnarinnar hvert stefnir. En á meðan formaður sjálfstæðisflokksins kvartar og kveinar yfir stöðunni hefur ráðherra sjávaútvegsmála lagt niður hvalveiðar við Ísland. Þar standa hendur fram úr ermum, en það er önnur saga.