c

Pistlar:

14. júlí 2023 kl. 16:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hin mörgu andlit Kerecis sölunnar

Sala á fyrirtækinu Kerecis hefur skiljanlega vakið mikla athygli enda vöxtur og viðgangur félagsins allt að því ævintýralegur. Salan er af þeirri stærðargráðu að hún hefur talsverð áhrif á íslenskt efnahags- og viðskiptalíf, til skemmri og lengri tíma. Margir hafa tjáð sig um söluna sem vonlegt er því hún er á margan hátt einstök og flytur um leið með sér margar sögur.

Í fyrsta lagi segir hún okkur að umhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki er gott á Íslandi og síður en svo lakara en annars staðar þó það hefi verið málflutningur ESB-sinna um skeið. Íslenskt hagkerfi og viðskiptaumhverfi er vel til þess fallið að stuðla að nýsköpun.kere1

Í öðru lagi segir hún okkur að það séu mörg og áhugaverð tækifæri úti á landsbyggðinni, tækifæri sem hið miðstýrða fjárfestingarafl höfuðborgarsvæðisins sér ekki alltaf.

Í þriðja lagi minnir hún okkur á þann gríðarlega kraft og þekkingu sem finna má í íslenskum sjávarútvegi. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki studdu við Kerecis af miklum krafti og uppskera nú mörg þeirra ríkulega. Það var ekki sjálfgefið að vestfirsk sjávarútvegsfyrirtæki tækju fyrirtækinu opnum örmum á sínum tíma og létu því í té hráefni og þjónustu og tækju bara hlutafé fyrir.

Í fjórða lagi minnir hún á að það er farsælt fyrir okkur Íslendinga að horfa til grunnatvinnugreinar okkar, sjávarútvegsins, hann getur látið í té þekkingu, fjármagn og hráefni. Þetta vita mörg þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki sem sækja stuðning þangað. Við þekkjum okkar tæknifyrirtæki svo sem Marel, Skagan, 3X Stál, Völku og einnig Hampiðjuna sem átti glæsilega skráningu í Kauphöllina fyrir skömmu og er nú metin á 85 milljarða króna.

Í fimmta lagi getum við haldið áfram að hafa væntingar til þess að sjávarútvegurinn styðji við og efli fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Við sjáum einstakar fjárfestingar í landeldi framundan sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hyggjast standa að. Þau fjárfestingaáform eru vel á pari við stærstu stóriðjuverkefni okkar og munu breyta atvinnulífi víða um land.kere2

Í sjötta lagi þá sýnir sala Kerecis okkur að innan lífeyriskerfisins ríkir oft skammsýni og um leið er fráleitt að stjórnendur þar séu með samfélagslega mótandi hugmyndafræði sem tengist ekkert kröfunni um að þeir ávaxti lífeyri landsmanna á sem farsælastan hátt. Launagreiðslur til stjórnenda lífeyrissjóða eru háar og við hljótum að gera kröfu að þessir sömu stjórnendur greini og skilji vel þau tækifæri sem skapast í íslensku efnahagslífi. Þar virðist misbrestur og má minna á að lífeyrissjóðirnir studdu ekki sem skyldi við Össur og Marel eftir bankahrunið og að endingu tóku danskir fjárfestar Össur yfir.

Í áttunda lagi má hafa væntingar til þess að ýmis nýsköpunarfyrirtæki með tengsl við sjávarútveg sýni góðan árangur á næstu árum. Þar má nefna jafn ólík verkefni og Rafnar bátanna sem eru einstök smíði og fyrirtækið Sæbýli sem er vonandi að ná tökum á óvenjulegri starfsemi sinni. Og er þá fátt eitt talið.