Íslensk stjórnvöld hafa í nokkurn tíma vandræðast með það hvernig eigi að fagna fullveldi landsins á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Hátíðarhöldin 17. júní hér í höfuðborginni eru ekki nema svipur hjá sjón frá því sem þau voru fyrir nokkrum áratugum og nú eyða opinberir skipuleggjendur öllu púðrinu í hátíðir eins og gleðigöngu og menningarnótt. Slíkar hátíðir eru góðra gjalda verðar en er það ekki svo að þjóð, sem einu sinni skilgreindi sig út frá sjálfstæði sínu og fullveldi, leitar nú annað þegar kemur að afmörkun eigin sjálfsmyndar. Það má vera að þessi vandræðagangur sé fyrst og fremst hjá stjórnmálamönnum og þeim sem stýra og skipuleggja opinbera viðburði.
Það er nefnilega svo að 17. júní er enn hátíðardagur í augum margra en á tímabili virtist ákveðinn hópur telja að dagurinn snérist helst um mótmæli og háreysti með tilheyrandi óvild og frammíköllum. Fyrir vikið varð stöðugt flóknara vegna öryggissjónarmiða að halda hátíðina á Austurvelli þar sem íslensk stjórnvöld bera meðal annars ábyrgð á erlendum gestum við athöfnina. Á einhverjum tíma vildu embættismenn hreinlega loka Austurvelli á meðan forsætisráðherra flutti ræðu sína en sá sem sat í Stjórnarráðinu á þeim tíma kom í veg fyrir það. Þegar formaður VG varð forsætisráðherra hættu þessi mótmæli og ekki að undra enda fólk úr hennar flokki haft sig talsvert í frammi við mótmælin þegar þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson héldu hátíðarræður sínar á Austurvelli. Katrín Jakobsdóttir hefur notið griða af hálfu mótmælenda. Það er gott en áðurnefndir forverar hennar hefðu líka átt það skilið.
Pistlaskrifari fór gjarnan á Austurvöll og sá fólk sem nú er innan girðingar mótmæla fyrir utan girðinguna á þeim tíma. Skilningur á því að dagurinn hefði hátíðleika og tilfinningalega merkingu fyrir samborgara sína var ekki að finna hjá þessu ágæta fólki en hafa má í huga að margir höfðu fyrir því að klæða sig upp í þjóðbúning á þessum degi og mæta á Austurvöll. Þeim fækkar væntanlega stöðugt þó enginn hafi í sjálfu sér gert úttekt á því.
Skilja nýbúar betur 17. júní en heimafæddir?
Það vakti reyndar athygli að margir nýbúar mættu á þjóðhátíðardaginn, veifuðu íslenska fánanum og virtust þannig taka þátt í hátíðarhöldunum, oft af meiri innileika og sannfæringu en margir þeir sem hér eru fæddir. Fólk sem ekki hefur notið þess að alast upp í lýðræðislegu þjóðfélagi þar sem mannréttindi eru virt skilur vel mikilvægi þess að halda þjóðhátíðardaginn hátíðlegan. Það veit að sjálfstæði og fullveldi eru ekki sjálfsagðir hlutir. Oft birtist meiri væntumþykja til Íslands og íslensks samfélags frá þessum nýbúum en ýmsum þeim sem telja Ísland sem sitt föðurland. Það er reyndar umhugsunarverður siður að þeir sem fá íslenskan ríkisborgararétt hylli íslenska fánann eða sverji Íslandi hollustu sína eins og tíðkast í sumum löndum. Ekki af því að það þurfi endilega að efast um hana heldur væri það táknrænn og falleg athöfn.
Það voru ekki eingöngu þjóðhollir Íslendingar sem fögnuðu þjóðhátíðardeginum. Á Íslandsstræti í miðborg Vilníus, höfuðborgar Litháens, var í ár blásið til hátíðar og það í tólfta sinn á þessum degi. Það er gert af þakklæti til Íslands fyrir að hafa fyrst þjóða viðurkennt sjálfstæði Litháens 11. febrúar 1991. Þá losnuðu Litháar undan oki og valdi Sovétríkjanna sem virtu ekki sjálfsákvörðunarrétt þeirra þjóða sem þeir höfðu innlimað. Litháar vita hve mikilvægur dagur eins og 17. júní er og veifuðu íslenska þjóðfánanum af meiri einurð en margur Píratinn.
Landlaust fólk og þjóðhátíðardagurinn
Í Morgunblaðinu í dag birtist áhugaverð frásögn tveggja ungra vísindamanna sem hér hafa sest að. Hinn þrítugi Poorya Foroutan Pajoohian hefur búið hér síðan í janúar árið 2021 ásamt eiginkonu sinni Parinaz Mahdavi en bæði eru þau í doktorsnámi. Þau eru Kúrdar sem er eins og kunnugt er þjóð án ríkis. Landsvæði sem gjarnan er kallað Kúrdistan er í fjórum ríkjum í Mið-Austurlöndum. Í Íran, Írak, Sýrlandi og í Tyrklandi. Poorya og Parinaz koma frá Austur-Kúrdistan eða íranska Kúrdistan. Kúrdar eru í kringum 40 milljónir og sumir vilja stofna sjálfstætt ríki en aðrir vilja sjálfstjórnir í héruðum þar sem Kúrdar búa. Poorya lýsir viðhorfum sínum á áhugaverðan hátt.
„Þetta er því nokkuð flókið og til eru mismundandi útgáfur af tungumálinu eftir því hvar Kúrdar búa. Í Íran eru flestir Kúrdar í vesturhluta Íran. [...] Við lítum á okkur sem Kúrda þótt það standi Írak í vegabréfinu. Við þurfum endalaust að útskýra hvaðan við erum. Ég myndi ekki flokka mig sem mikinn þjóðernissinna miðað við marga aðra en auðvitað þykir manni vænt um uppruna sinn. Þótt þú elskir þína þjóð, og uppruna, þá er ekki þar með sagt að þú hatir aðra. Við erum ekki sjálfstætt ríki. Þeir sem láta sig dreyma um að Kúrdistan verði sjálfstætt ríki gera það ekki af óvild við aðra. Þegar þjóðir eru í sjálfstæðisbaráttu er það yfirleitt af ættjarðarást en ekki af óvild við aðrar þjóðir,“ útskýrir Poorya í viðtalinu og bætir við að 17. júní hafi kallað fram nokkra geðshræringu hjá þeim hjónum.
„Þegar Íslendingar fagna þjóðhátíðardeginum þá sér maður brosandi fólk með þjóðfána á mannfögnuðum. Þessi sjón kallar fram tilfinningar hjá okkur einfaldlega vegna þess að við höfum aldrei upplifað að geta fagnað þjóðhátíðardegi Kúrda,“ segir þessi þrítugi Kúrdi sem þekkir ekki eigið þjóðríki nema sem hugmynd.