Er þjóðfélag, sem skilur að það séu til sameiginleg menningarleg og söguleg verðmæti, betur í stakk búið til að leysa úr áföllum eða erfiðleikum sem að steðja? Er ekki eðlilegt að ætla að svo sé og geti þá um leið tekist á við nýjar áskoranir eða áföll? Hugsanlega getum við fært þessa skilgreiningu yfir á einstakling, þó það geti stundum verið erfitt að segja til um hvað sameinar og hvað sundrar. Í okkar nærsögu er stöðugt rifjað upp að allir íbúar Vestmannaeyja fluttu burt í gosinu 1973 en sjö af hverjum tíu fluttu til baka. Gosið og erfiðleikar því samfara eru nú vitnisburður um sameiginlega sögu (og áföll) Eyjamanna, rétt eins og Tyrkjaránið 1627 en hér fylgir seinnitíma myndskreyting af því. Að sumu leyti halda Eyjamenn við minningum sínum og sögum í gegnum söngva og sögur sem þeir varðveita og rifja gjarnan upp, svo sem á Þjóðhátíð. Á sama tíma vefst fyrir höfuðborgarbúum að halda upp á þjóðhátíðardaginn.
Við Íslendingar eru þeirrar gæfu njótandi að hafa náttúrulega landamæri og enga herská nágranna. Það á ekki við um þjóðir Mið- og Austur-Evrópu þar sem heilu landshlutarnir færast á milli þjóðríkja eftir því sem vindarnir blása á vígvellinum. Þar hafa þjóðir átt í stöðugri baráttu við að varðveita tungumál sitt, siði og minninguna sem felst í sameiginlegum sagnabrunni. „Besta leiðin til að útrýma þjóðum er að svipta þær minninu. Eyðileggja bækur þeirra, menningu, sögu. Síðan gleymir þjóðin smátt og smátt hver hún var [...] tungumálið verður fljótlega að viðundri sem hverfur fyrr eða síðar,“ skrifaði tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera heitinn. En getur þjóð sjálf svipt sig minningunni? Getur það gerst ef breyting á samsetningu þjóðarinnar er of ör?
Öfgaviðbrögð í Frakklandi
Við sjáum af fréttum að ástand í fjölmenningarlandi eins og Frakklandi er viðkvæmt. Óhæfuverk eins og dráp lögregluþjóns á ungum ökumanni hrinti af stað ofbeldisbylgju og áttu stjórnvöld erfitt með að hafa stjórn á stærstu borgum landsins. Þá varð forsetinn að fljúga heim frá Úkraínu til fást við uppreisnarástandið heima fyrir. Enginn ver drápið en viðbrögðin voru yfirgengileg. Þau kostuðu lögregluþjón lífið og margir lögregluþjónar, óbreyttir borgarar og mótmælendur hafa slasast fyrir utan gríðarlegs eignartjóns. Öfgafull viðbrögð af þessu tagi virðast sýna sundraða þjóð eins og oft hefur verið fjallað um í pistlum hér. Meira að segja hin menntaða elíta Frakklands er farin að ræða ástandið opinskátt og spyr; hvert var planið?
Fyrr í mánuðinum birtist löng grein eftir Pierre Brochand, fyrrverandi forstjóra DGSE, í franska stórblaðinu Le Figaro. Ef einhver er hluti af elítunni í Frakklandi er það Pierre Brochand. Hann á að baki langan og farsælan feril í frönsku utanríkisþjónustunni, verið sendiherra og ráðherra og stýrði frönsku leyniþjónustunni (French Directorate-General for External Security (DGSE)) um árabil.
Í greininni hefur hann eitt og annað að segja um óeirðirnar. Hann bendir á að franskt þjóðfélag er komið í þessa stöðu vegna hugmyndafræði, sem hefur ekki bara réttlætt heldur lofsungið stórfellda fólksflutninga í hálfa öld. Nú sé svo komið að innflytjendamálin ógni borgaralegu samfélagi. Stefnan byggist á óskhyggju sem felst í því að allt og allir hafi sama gildi. Að það sé hægt að skipta einum einstaklingi út fyrir annan án afleiðingar. Þess veikburða óskhyggjustefna geti ekki gengið nema samhliða henni fari ritskoðun og þöggun. „Við búum í opnu samfélagi sem er svo brothætt að það þrífst einungis í skjóli vægðarlausrar hugmyndafræðilegrar einingar.“
Pierre Brochand telur því að það þurfi að innræta frönsku þjóðinni sektarkennd og ótta við rasistastimpilinn. „Sjálfsmyndarkreppa frönsku þjóðarinnar á sér fornar rætur. Hún er afleiðing hugmynda sem eru bæði altækar og einstaklingsmiðaðar, um að mennirnir séu „alls staðar eins“ og að gildi þjóðlegra menningarþátta sé ekkert. [...] „Þannig verða til aðstæður þar sem hið póst-pólitíska ríki er varanlega á barmi upplausnar, allsherjarstríð allra gegn öllum er yfirvofandi, slíkt ríki þolir enga gagnrýni.“
Þá gagnrýnir Pierre Brochand yfirvöld fyrir að láta óttann við að missa stjórnina stýra aðgerðum sínum. Fyrir vikið sé eina ráðið að innræta landsmönnum sektarkennd og ala á ótta.
„Þessar neikvæðu tilfinningar sameinast í rasistastimplinum, viðvarandi ásökunum á hendur frönsku þjóðinni, sem á að hafa borið ábyrgð á flestu því sem miður fer í heiminum, stríði, nýlendukúgun, loftslagsvá, manntjóni í Miðjarðarhafi“ ... „þannig er okkur haldið í gíslingu eins orðs, rasisma, í afskræmdri merkingu sem er nú notuð um alla sem leyfa sér að spyrja hvort þessi hugmyndafræði leiði okkur hugsanlega beint ofan í gröfina. Við verðum að viðurkenna að þessi kúgun hefur virkað snurðulaust hingað til.“
Það var athyglisvert að hlusta á viðtal við Torfi H. Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands, í síðustu viku á Rás 1 en þar ræddi hann einmitt nýlegar óeirðir. Skýringar sem þessar virðast hafa farið algerlega fram hjá honum og mestu púðri varið í að ræða uppgang Le Pen fjölskylduna og Þjóðfylkinguna. Torfi er hinn viðurkenndi túlkandi franskra þjóðfélagsstrauma hjá Ríkisútvarpinu. Spyrill Torfa spurði hann ekki þá augljósu spurningu, af hverju urðu óeirðirnar þegar ungur múslimskur maður var skotinn af lögregluþjóni en ekki þegar ungur múslimi nauðgaði og myrti 12 ára gamla stúlku, en sá atburður vakti heimsathygli í október síðastliðnum. Nú eða þá af hverju sauð ekki uppúr eftir fjöldamorðin á Bastilludaginn árið 2015, þegar nærri 90 manns létu lífið og yfir 400 særðust.
Úkraínsk þjóðarvitund á uppleið
Á sama tíma og franskt þjóðfélag stefnir í upplausn vegna innflutnings á fólki sem ekki samlagast og telur hið nýja heimaland hafa svikið sig víkur öðru við í Úkraínu. Þar virðist þjóðin vera að sameinast í kjölfar innrásar. Það er auðvitað þekkt í sögunni að einstök þjóðfélög þjappa sér saman þegar utanaðkomandi ógn steðjar að. Það virðist hafa gerst í Úkraínu í framhaldi af innrás Rússa. Fyrir var Úkraína sundruð og nágrannar þeirra í austri og vestri litu ekki á þá sem eina þjóð. Eftir innrásina hefur rússneska verið gerð útlæg og landsmenn keppast nú við að hylla fána landsins og stuðningur við aðgerðir stjórnvalda virðist einróma. Með innrás sinni virðist Pútín hafa tekist að sameina sundraða þjóð á móti sér og þannig bola þaðan út rússneskum menningaráhrifum.
Auðvitað eru þessar þjóðir nátengdar. Það er merkilegt til þess að hugsa að rithöfundurinn Nikolaj Gogol skuli vera Úkraínumaður en hann skapaði eigi að síður rússnesku skáldsöguna sem mótar að mörgu leyti rússneska þjóðarsál. Það sýnir kannski betur en margt annað hve örlög þessar tveggja þjóða eru samofin þó þær berjist nú. Gogol hóf ritferil sinn árið 1831 með því að gefa út sögur sem voru samdar á rússnesku en gerast í átthögum hans í Úkraínu. Þær bera sterkan svip bæði af úkraínskri þjóðtrú og lífi landeigenda í Úkraínu sem var frjósamasti hluti rússneska keisaradæmisins. Árni Bergmann rússneskufræðingur segir að þá hafi skáld á rússneska tungu hafið sannkallaða gullöld rómantísks kveðskapar sem er enn þungamiðjan í rússneskri þjóðarvitund.
Á íslenskum krossgötum
Í íslenska umræðuleikhúsinu gerist hlutir sem eru í bland fyrirsjáanlegir en þó óvæntir. Fyrir stuttu var Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri, til viðtals í hlaðvarpi Skoðanabræðra í umsjón Bergþórs og Snorra Mássona. Heiðar kaus að ræða stöðu íslensks samfélags út frá þeim breytingum sem nú eiga sér stað, meðal annars vegna hraðs innflutnings fólks. Taldi hann lækkandi fæðingartíðni á Íslandi, í bland við mikinn innflutning erlends vinnuafls, kalla á aðvörunarorð. Hafði hann áhyggjur af óafturkræfum áhrifum. Ekki óeðlileg ummæli í ljósi þess að við Íslendingar virðumst heldur stefnulausir í þessum málaflokki og reynsla annarra þjóða, þeirra á meðal nágrannaþjóða, segja okkur að þetta stefnuleysi munn kalla yfir okkur vanda síðar meir.
En íslensk umræða lifir á mótrökum kappræðunnar frekar en rökræðu. Þess vegna veitti Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, andsvar við skoðunum Heiðars og sagðist ekki taka undir áhyggjur um slæm áhrif mikillar fjölgunar innflytjenda á íslenska menningu og tungu. Þvert á móti telur prófessorinn áhyggjur fjárfestisins byggða á útlendingaandúð og þá umræðan farin að minna á það sem Pierre Brochand talar um.
Hvert er planið?
Heiðar hafði rætt getuleysi sitjandi ríkisstjórnar við að taka á mikilvægum pólitískum málum. Taldi hann lækkandi fæðingartíðni á Íslandi, í bland við mikinn innflutning erlends vinnuafls, vera á meðal slíkra mála. Varaði hann við óafturkræfum áhrifum á okkar samfélag og bætti við: „Það þarf að skoða þetta núna vegna þess að íslensk menning og íslensk tunga er ástæða þess að ég er hérna. Það er það sem bindur mig við mína fjölskyldu og mína heimahaga og annað þvíumlíkt.“
Meira þurfti ekki til að hin öfgasósíalíska umræða færi af stað enda Heiðar efnamaður og á sem slíkur takmarkaðan rétt til að tjá sig að mati vinstri manna! Áðurnefndur Eiríkur, sem er mjög pólitískur, fór hörðum orðum um viðtalið og sagði það dapurlegt þegar alið sé á útlendingaandúð undir formerkjum umhyggju fyrir íslenskunni og íslenskri menningu.
Í Facebook-hópnum málspjallinu gagnrýnir Eiríkur viðtalið og vitnar meðal annars í eftirfarandi orð Heiðars: „Þannig að ef við ætlum að leyfa þessari fólksfjölgun að eiga sér stað á þessum forsendum, að íslenska og íslensk menning sé ekki samnefnari heldur bara að þetta sé einhvern veginn alls konar, þá er útséð með íslenska þjóð. Ég er ekki að tala um Ísland fyrir Íslendinga, en bara þennan menningarheim sem við höfum búið í hérna í 1200 ár.“
Eiríkur taldi að íslenski menningarheimurinn sannarlega ekki verið sá sami í þessi 1200 ár og sagði. „Hann hefur tekið stórkostlegum breytingum, fyrst og fremst vegna erlendra áhrifa – kristninnar um árið 1000, siðaskiptanna á 16. öld, danskrar stjórnar, bandarískrar hersetu, sjónvarps, nets o.s.frv.,“ skrifar Eiríkur og tekur fram að það sama eigi við um íslenskuna.
„[H]ún hefur líka orðið fyrir erlendum áhrifum á öllum tímum og ekki síst á 21. öldinni. En það er ekki bara, og ekki aðallega, vegna innflytjenda. Það er einnig og ekki síður vegna margvíslegra tækni- og samfélagsbreytinga síðustu árin. Hitt er vissulega rétt að miklir fólksflutningar til Íslands, sem og gífurleg fjölgun ferðafólks, gætu að óbreyttu sett stöðu íslenskunnar sem aðalsamskiptamáls í landinu í uppnám á næstu árum og þau mál er mikilvægt að ræða.“
Hugsanlega er styttra á milli skoðana þeirra Heiðars og Eiríks þó greining sögunnar geti verið ólík á sumum sviðum. Eiríkur virðist treysta á að þetta blessist og fylgir þar flokkspólitískum línum Vinstri grænna en Heiðar spyr eins og margir í Frakklandi; hvert er planið?