Líklega er umræða um orkumál á Vestfjörðum lítið sýnishorn af umræðunni á landsvísu um þörfina fyrir að halda áfram að sækja orku í náttúru landsins. Það vantar orku á Vestfjörðum, þar finnast ágætir virkjanakostir en það fæst ekki leyfi til að virkja. Á meðan verða Vestfirðingar að treysta á varaafl frá dísilrafstöðvum. Flóknara er það ekki en þó má skapa deilur um orsök og afleiðingu þessa ástands.
Í dag tekur Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, að sér smá kennslu um stöðu orkumála á Vestfjörðum í Morgunblaðinu. Tilefnið er að Landvernd sendi Orkubúi Vestfjarða formlega beiðni 21. júlí sl. um að bregðast við meintum rangfærslum í grein umhverfis-, orku og loftslagsráðherra í grein sem birtist í Morgunblaðinu 7. júlí. Í stuttu máli snýst deilan um hver er seljandi þess rafmagns sem rafmagnsbílar eru hlaðnir með á Vestfjörðum og hver er ástæða þess að notuð er dísilolía við framleiðslu þess. Ráðherra gagnrýndi að fólk þyrfti að hlaða rafmagnsbíla með rafmagni frá dísilrafstöðvum en Landvernd taldi að ráðherra gæfi ranga mynd af málinu, rafmagnið á bílanna kæmi ekki frá dísilrafstöðum. Eftir að hafa lesið svar Elíasar má spyrja sig hvort það skipti máli. Fyrir utan að það er ekki rétt.
Elías segir óvenjulegt að Orkubúið fái slíka beiðni. Orkubúinu sé hins vegar málið skylt og því sjálfsagt að leysa úr smávægilegum misskilningi, sem snýst reyndar ekki um hversu mikið varaafl var framleitt með dísilolíu né um það hversu stórt kolefnisspor þeirrar framleiðslu var, heldur um það hver á varaaflsstöðina sem um ræðir. Elías upplýsir því að umrætt varaafl er í eigu Orkubús Vestfjarða! „Gagnvart kolefnissporinu og verndun loftslags er eignarhaldið á varaaflsstöðinni aukaatriði, en varmaorkuna sem um ræðir þarf að framleiða með dísilolíu vegna skorts á raforku. Það er óumdeilt,“ skrifar Elías.
Tvöföld fjárfesting til að mæta aflskorti
Elías bendir á að orkunotkun á Vestfjörðum byggist að hálfu á orku sem flutt er á Vestfirði eftir eftir Vesturlínu og er hæsti afltoppur í kerfinu um 46 MW. Ef línan verður straumlaus verður að bregðast við með því að gangsetja varaaflsstöðvar til að sinna þörfum svæðisins fyrir orku. Annars vegar er um að ræða dísilrafstöðvar í eigu Orkubúsins og Landsnets, samtals rúmlega 28 MW, en hins vegar er um að ræða dísilolíukatla í eigu Orkubúsins sem notaðir eru sem varaafl fyrir rafkynta katla fjarvarmaveitna, en þeir eru samtals um 20 MW í 6 veitum. „Samtals er því til reiðu 50 MW dísilknúið varaafl á Vestfjörðum sem nægir til að mæta að fullu straumleysi eða aflskorti í raforkukerfinu – fjárfestingin er því tvöföld. Reikninginn greiða neytendur með hærri gjaldskrá,“ skrifar Elías en sem gefur að skilja kallar það á miklar fjárfestingar að tryggja varaafl frá díselrafstöðvum.
Elías bendir á að á árinu 2022 notaði Orkubúið 2,1 milljón lítra af olíu til framleiðslu á varmaorku í samanburði við 200 þúsund lítra árið á undan. Olíunotkunin var vegna skerðingar á afhendingu raforku frá Landsvirkjun fyrir rafkyntar hitaveitur Orkubúsins, en Landsvirkjun hefur sem seljandi heimild til skerðingar. Varaaflið sem brenndi olíunni er hins vegar í eigu Orkubúsins en ekki í eigu Landsnets. Elías segir óskynsamlegt að byggja upp varaaflið fyrir rafkyntu veiturnar með dísilknúnum rafstöðvum, því það mundi þýða mikla fjárfestingu í dísilvélum og þrefalt meiri olíunotkun við straumleysi þar sem olía nýtist næstum þrefalt betur til að búa til varmaorku en til að búa til rafmagn vegna minni nýtni dísilvéla. „Sú staða gæti þó komið upp ef ákveðið yrði að leggja af rafkyntar hitaveitur og skipta yfir í beina rafhitun. Þá þyrfti að auka dísilknúið varaafl um allt að 16 MW, sem væri fráleit niðurstaða þegar hægt er að byggja upp forgangsorku í vatnsaflsvirkjunum á svæðinu sem tryggja meira afhendingaröryggi en dísilknúið varaafl,“ skrifar Elías.
Dísilknúnir rafbílar
Elías rekur það að í grein sinni gerir ráðherra grein fyrir því að vel geti komið upp sú staða að rafbílar sem fara um Vestfirði séu knúnir með raforku sem framleidd er með dísilolíu í varaaflsstöðvum. Því miður er slík staða oft að koma upp, bæði vegna ófyrirséðra atburða af völdum veðurs og vegna fyrirbyggjandi viðhalds í raforkukerfinu.
Líklega er fáum það ljóst að um verulega varaaflsframleiðslu er að ræða vegna fyrirbyggjandi viðhalds í raforkukerfinu, en í fyrrasumar þurfti að keyra dísilknúið varaafl bæði í varaaflsstöð Landsnets og varaaflsstöðvum Orkubúsins fyrir rafkyntu hitaveiturnar í 20 daga á meðan unnið var að fyrirbyggjandi viðhaldi á flutningslínum Landsnets.
Elías upplýsir að rafbílar á Vestfjörðum voru þá að taka rafmagn sem framleitt var með dísilolíu. Landsnet hefur nú þegar upplýst Orkubúið um áætlað fyrirbyggjandi viðhald á flutningslínum á næstu vikum, sem hafa mun þau áhrif að keyra þarf olíuknúið varaafl með tilheyrandi kostnaði. „Koma mætti í veg fyrir þá notkun dísilolíu að fullu með því að byggja upp raforkuframleiðslu innan Vestfjarða,“ skrifar Elías.
Má draga úr dísilorku um 90%?
En auðvitað hafa Vestfirðingar reynt að virkja til að bæta stöðu sína. Hvalárvirkjun upp á 45 til 55 MW hefði verið mikilsverð búbót en virðist stopp. Hvalárvirkjun var í orkunýtingarflokk 2. áfanga Rammaáætlunar og hefði að öllu jöfnu átt að komast í gegn.
Elías upplýsir að Orkubú Vestfjarða vinnur nú að rannsóknum vegna 9,9 MW Kvíslatunguvirkjunar í Steingrímsfirði og 20 til 30 MW Vatnsdalsvirkjunar inn af Vatnsfirði. Með tilkomu þeirra virkjana mætti draga úr framleiðslu raforku með dísilolíu á Vestfjörðum um 90%. Auk þess vinnur Orkubúið að jarðhitaleit bæði á Ísafirði og á Patreksfirði. Nýting jarðhita gæti minnkað þörfina á raforku til kyndingar.
„Virkjanaáformin munu að sjálfsögðu þurfa að hljóta lögbundna skipulagsmeðferð og fara m.a. í umhverfismat. Orkubúið telur þó að hægt sé að tryggja lámarksáhrif á umhverfið í báðum þessum virkjanakostum,“ skrifar Elías.
Stefna stjórnvalda og loftslagsmarkmið
Elías klikkir út með því að minna á að ástandið á Vestfjörðum kemur ekki beinlínis heim og saman við loftslagsmarkmið stjórnvalda. „Aukning forgangsafls með virkjunum á Vestfjörðum fellur vel að stefnu stjórnvalda um kolefnishlutleysi og skuldbindingar í loftslagsmálum, um leið og sjálfbærni í orkuöflun á Vestfjörðum eykst. Þeir virkjunarkostir sem hér eru nefndir hafa báðir uppistöðulón með mikla miðlunargetu og nægilegt afl til að jafngilda hringtengingu (N-1) á raforkukerfinu. Ef verkefnin yrðu að veruleika mætti draga úr kolefnisspori vegna varaaflsframleiðslu með dísilolíu um 90% um leið og mætt yrði aukinni þörf fyrir raforku á Vestfjörðum vegna orkuskipta og aukinnar atvinnustarfsemi, sem væri stórt skref í þágu loftslags- og landverndar,“ skrifar Elías.
Grein hans skilur eftir spurningar hjá umhverfisverndarsinnum hvort þeir séu yfir höfuð færir um að forgangsráða í umhverfis- og orkumálum.