Allajafnan þykir engum skemmtilegt að ræða um sorp sem er einhverskonar aukaafurð okkar daglega lífs og sem einhverskonar vitnisburður um athafnasemi mannsins. Um leið er það áminning um að nútímamaðurinn er ekki lengur safnari eða hirðingi sem getur gengið frá svefnstað sínum og náttúran vinnur á því sem skilið er eftir á nokkrum dögum. Í dag skilar meðalmaðurinn frá sér miklu magni sorps og svo virðist sem það verði stöðugt flóknara að meðhöndla það og farga því. Tölur sem pistlaskrifari sá frá árinu 2019 sögðu að þá var talið að það féllu til um 1,3 milljarðar tonna af sorpi í heiminum á hverju ári og yfir helmingur af því sorpi fari í urðun eða landfyllingar. Miðað við erlenda staðla er líklegt að hér á landi falli til um 410 tonn af sorpi á dag, eða um 1,17 kg á mann að meðaltali.
Við erum minnt rækilega á þetta í Reykjavík nútímans þegar allt í einu varð stopp á sorphirðu af grenndarstöðvum og rusl tók að safnast upp við þær. Skýringar borgaryfirvalda voru ekki traustvekjandi og það þurfti talsvarða hæfileika í stofnannamáli til að skilja af hverju þetta ástand varð en einhvernvegin tókst að búa svo um hnútanna að sorp tók að hlaðast upp eins skemmtilegt og það er. Um leið er í gangi mikið verkefni við að skipta út sorptunnum til að auka á flokkun heimilissorps. Jú, við borgarbúar sættum okkur við margt í von um að bæta umgengni og reynum flest gera það sem skynsamlegt má heita með það sem frá heimilunum fellur. Það er heldur óþægilegur fylgikvilli þegar lífrænt heimilissorp er orðið að uppeldisstöðvum fyrir maðkaflugur. Það er eitthvað sem enginn getur sætt sig við.
Það fylgir því talsverður kostnaður að taka við sorpi og farga því eða koma því í einhverskonar hringrásarmeðhöndlun. Við skattgreiðendur sættum okkur fyrir vikið við allskonar aukagjöld og hærri skatta. Við höfum þó hvað eftir annað séð ákveðið stefnuleysi og fyrirhyggjuleysi sem kostar auka útgjöld og virðast stundum hreinlega vinna gegn hugmyndinni um að meðhöndla úrgang á skynsaman og umhverfisvænan hátt. Undanfarin ár hafa með reglulegu millibili birst fréttir sem sýna þennan vandræðagang og þann tvískinnung sem ríkir í greininni.
Tunnan valt og úr henni allt
Tunnuskipti áttu að hefjast við heimili borgarbúa nú í vor 2023. Í nýju flokkunarkerfi því samfara verður fjórum úrgangsflokkum safnað við öll heimili á höfuðborgarsvæðinu:
Matarleifar
Pappír og pappi
Plastumbúðir
Blandaður úrgangur
Þegar ég horfi á þessa flokkun þá er staðan á mínu heimili sú að allur pappír og allt plast hefur samviskusamlega verið flutt í grenndargáma síðustu ár. Plastið er þvegið og úr þessu eru stuttir (ca. 10 mín.) göngutúrar til að koma því í gám. Einnig er farið með gler þangað sem tekið er við því og flöskur sendar í endurvinnslu. Ég hef sætt mig við þetta fyrirkomulag sumar sem vetur en það fellur svo sem ekkert sérstaklega mikið rusl til hér. Við erum aðeins tvö í heimili og því er ruslatunnan vara nema hálf þegar hún er tæmd.
Þar fyrir utan eru farnar reglulegar ferðir í endurvinnslustöð Sorpu á Sævarhöfða. Þar er mikill atgangur um helgar og því reynir maður að fara aðra daga. Yfir sumarið fellur til heilmikill garðaúrgangur þó að hér á Langholtsveginum sé ekki stunduð mikil garðyrkja og talsverður hluti garðsins fái að vera villtur. En grasið er slegið, barist við illgresi og greinar klipptar. Líklega þarf að fara með 5 til 8 poka af garðaúrgangi á mánuði í Sorpu. Ég velti auðvitað fyrir mér hvernig þeir sem ástunda bíllausan lífsstíl fara að því en ég fer með úrganginn í bíl. Hvernig fer til dæmis Gísli Marteinn með úrgang í Sorpu? Á hjóli eða með strætó? Myndi drepa fjölmiðla að fá útskýringu á því!
En þetta fyrirkomulag byggist á því að borgin þjónusti heimilið og fyrirtæki sem hún virðist ekki gera núna. Fólk er alveg til í að sætta sig við hóflegan kostnað ef þessi mál eru í lagi. En þau eru það ekki hjá Reykjavíkurborg og sem fyrr virðist stjórnun þeirra sem bera mestu ábyrgðina vera ábótavant svo ekki sé meira sagt.