c

Pistlar:

29. júlí 2023 kl. 17:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að horfast í augu við eigið rusl

„Ruslið hefur alltaf fylgt manninum. Það sem við notum endar einhvers staðar, við vitum það, og við vitum líka að allt sem við gerum hefur áhrif. Samt sem áður er mýtan um að ruslið hverfi um leið og það er komið í ruslatunnuna ansi lífseig.“ Þetta sagði Rakel Jónsdóttir þjóðfræðingur í samtali við Morgunblaðið í vikunni. Þó að ég hafi haft á orði í síðasta pistli um sorpmál að það væri ekki skemmtilegt umræðuefni langar mig að halda áfram að ræða það, meðal annars vegna ýmislegs sem Rakel hafði orð á. Það er reyndar svo að sorp er menningartengt fyrirbæri og fátt gefur betri mynd af lífi fyrr á öldum en einmitt sorphaugar enda forleifafræðingar oftast einka sælir þegar þeir finna slíkt og grafa sig til fróðleiks á slíkum stöðum. Við höfum enda mörg og mismunandi orð yfir það sem við köllum sorp, rusl, úrgang, afganga eða bara drasl.sorpalfs

Eins manns rusl - annars manns góss

En viðhorf breytast og sumir halda því fram að eins manns rusl sé annars manns góss! Enda benda niðurstöður Rakelar til þess að fólk sé farið að líta á rusl í auknum mæli sem möguleg verðmæti, en það helst í hendur við aukna áherslu á endurnýtingu.

Rannsóknir Rakelar felast í að skoða rusl og allt sem því tilheyrir, viðhorf okkar til þess og þær tilfinningar sem það vekur. Rakel segir aukna umræðu um rusl og áhrif þess á okkur hafa kveikt áhuga sinn á viðfangsefninu. „Fólk neyðist í rauninni til að horfast meira í augu við ruslið sitt núna heldur en oft áður, vegna þess að það er stöðugt að flokka og endurvinna og slíkt. Þá vakna ýmsar spurningar, eins og til dæmis hvenær hlutur er álitinn óæskilegur og verður að rusli.“ Því spyr Rakel hvort rusl sé ekki bara hlutur á röngum stað? Skemmtilegt viðhorf og skýrir hugsanlega aukinn áhuga fólks á endurnýtanlegum hlutum.

Rakel segir að auk þess sé ruslið áminning um óæskileg umhverfisáhrif og yfirvofandi loftslagsvá. Það geti því vakið kvíða. „Upplýsingarnar sem maður fær um umhverfismál eru oft
yfirþyrmandi. Fólki fallast hendur og það upplifir vanmátt. Að horfast í augu við ruslið krefst aukinnar meðvitundar um þessi áhrif.“sorp22

Loftslagskvíði, mannfjöldi og rusl

Þetta er rétt hjá Rakel, verst er þegar fólk upplifir vanmátt og kvíða en hér hefur svokallaður loftslagskvíði verið til umræðu en hann byggist á því að fólk missi trúna á að mannkynið geti leyst þau vandamál sem fylgja framþróun mannsins. Þar skiptir mannfjöldaþróunin mestu en jarðarbúar eru nú ríflega 8 milljarðar og þó að spár um hámarksfjölda hafi verið að lækka hratt er gert ráð fyrir að mannfjöldi geti farið yfir 10 milljarða fyrir lok aldarinnar. Það leggur aukið álag vistkerfið og skapar auðvitað stöðugt meira sorp.

Þó að margt horfi til betri mála á Vesturlöndum er ástandið mjög slæmt víða og náttúru og umhverfi spillt með því að láta endalaust magn sorps fara út í haf og vötn auk þess sem það fýkur um holt og hæðir. Við Íslendingar teljum okkur lifa í sæmilega þróuðu landi en meira að segja hér eigum við í vandræðum með að horfast í augu við eigið rusl.