c

Pistlar:

3. ágúst 2023 kl. 13:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Innri öryggisbrestur Norðurlandanna

Norðurlöndin eru undantekningalaust á lista yfir friðsömustu, hagsælustu og eftirsóknarverðustu lönd heims. Þau þróuðust í þessa veru einkum vegna öflugrar samfélagsfestu sem sótti styrk sinn í einsleit samfélög þar sem ekki var tekist á um nein grunngildi. Þau eru traust réttarríki þar sem mikil virðing er borin fyrir mannréttindum ásamt einstaklingsfrelsi og kapítalísku hagkerfi. Þetta skóp grunn að einstökum velferðarkerfum sem eru öfunduð um allan heim. Þessi velferðarkerfi eru öflug en fjármögnun þeirra kallar á samstöðu um mikla skattheimtu og um leið að þau séu réttlát og ekki misnotuð. Réttindaávinningur borgaranna var lengst af bundinn við heimamenn en hefur smám saman verið víkkaður út sem skapar óánægju eins og bent hefur verið á áður hér í pistlum.ulf1 

Nú er hins vegar svo komið að öll Norðurlöndin utan Ísland eru að stórefla innri varnir vegna þess að einhverskonar rof hefur orðið á samfélagssáttmálanum. Það birtist skýrast í Svíþjóð þar sem stjórnmálaforysta landsins skelfur núna vegna hótanna íslamista. Tilefnið er að tjáningarfrelsi Svíþjóðar bannar ekki niðurlægingu trúartákna. Það hafa kristnir menn orðið að sætta sig við en öðruvísi háttar til þegar Kóraninn, trúarrit Múhameðstrúarmanna, á í hlut. Öryggishagsmunir sænska ríkisins og almennings í Svíþjóð hafa ekki verið tvísýnni frá seinni heimsstyrjöld, skrifaði forsætisráðherra landsins, Ulf Kristersson, á Facebook-síðu sína um helgina. Svíþjóð var „löglegt skotmark“ fyrir hryðjuverkamenn áður en Kóraninn brann. Nú eru þeir „forgangsskotmark“, sagði Ulf þegar hann ávarpaði þjóðina á blaðamannafundi í vikunni en sá fundur verður að teljast einstakur. 

Menningarstríð og Múhameðsteikningarnar

Tjáningarfrelsi er talið einn af hornsteinum almennra mannréttinda og trúfélög sem og aðrir hafa orðið að sætta sig við það. Nú þykir sjálfasagt engum fréttnæmt ef Biblían er brennd. Í alllangan tíma hafa kristnir menn sætt sig við að völd þeirra eru ekki veraldleg og aðskilnaður ríkis og kirkju hluti þess samfélagssáttmála sem ríkir á Norðurlöndunum. Á þetta hefur reynt margoft. Nú má hins vegar segja að það sem hófst sem menningarstríð á Norðurlöndunum, með Múhameðsteikningunum sem birtust Jótlandspóstinum (Jyllandsposten) árið 2005, sé orðið öllu alvarlegra og öryggi borgara ógnað. Á sínum tíma fordæmdu margir Jótlandspóstinn fyrir að birta teikningarnar og skipti engu að nær allar teikningarnar voru heldur sakleysislegar, íslam var sýnd virðing og í sumum myndunum beindist gysið að Dönum. En myndirnar höfðu afleiðingar og teiknari þeirra varð að sæta öryggisgæslu til æviloka og oftar en einu sinni var reynt að ráða hann af dögum. Það sýnir hættuna sem undanlátsemin við morðóða öfgamenn býður heim. „Sá sem vill amast við þessum teikningum amast við nákvæmlega því sem allir helstu baráttumenn málfrelsis á Vesturlöndum hafa leitast við að verja í aldanna rás: Rétti einstaklingsins til að hugsa frjálslega og tjá hugsanir sínar óþvingað og óttalaust,“ skrifaði dr. Róbert H. Haraldsson heimspekingur sem mikið hefur skrifað um tjáningarfrelsi enda í Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands um árabil.hamas 

Kóranabrennur og alvöru stríð

En nú er ríkisstjórnum Svíþjóðar og Danmerkur vandi á höndum eftir Kóranabrennur í löndunum vegna þess að íslam er veraldlegt vald í þeim löndum sem íslam ríkir í. Þetta hefur skapað diplómatíska krísu sem ekki sér fyrir endann á. Málið mun án efa hafa talsverðar efnahagslegar afleiðingar rétt eins og Múhameðsteikningarnar á sínum tíma. Utanríkisráðherrar þeirra 57 aðildarríkja sem mynda Samtök um íslamska samvinnu (e. Organisation of Islamic Cooperation (OIC)) funduðu á mánudaginn til að ræða meðal annars Kóranabrennur í Svíþjóð og Danmörku. Eftir fundinn gáfu samtökin frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á aðildarríki að íhuga viðeigandi aðgerðir gegn þeim löndum þar sem Kóraninn er brenndur og tiltóku sérstaklega þessi tvö lönd.  

Í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu, Hollandi og fleiri löndum hefur múslimum, fylgjendum íslam, fjölgað mjög. Þar er líklega óhugsandi að einhver storki örlögunum með því að gera það sem nú á sér stað í Danmörku og Svíþjóð. Það verður að telja lofsvert að stjórnvöld á Norðurlöndum hlaupi ekki til og þrengi tjáningarfrelsið og gefa þannig eftir fyrir ofbeldisfullum öflum en spyrja má hve lengi þau geta staðið gegn þessum öflum þar sem múslimum í löndunum fjölgar mjög. Það skal þó tekið fram að pistlaskrifara hugnast ekki bókabrennur sem slíkar. 

Aukið landamæraeftirlit

Til að vernda þegna sína hafa stjórnvöld í Svíþjóð ákveðið að auka landamæraeftirlit verulega. Vandi Svía er að þeir sitja uppi með trúardeilur annars heims en í Svíþjóð eru nú þegar um 810.000 múslimir eða ríflega 8% þjóðarinnar. Flestir þeirrar eru komnir í leit að því sem Svíþjóð hefur upp á að bjóða, frið og velsæld. Það breytir því ekki að ákveðið hlutfall innflytjenda sækist eftir samskiptum við öfgaöfl í nafni íslams í heimalöndum sínum og eru tilbúnir að ganga langt, jafnvel fremja hryðjuverk.sweden-muslim-350-8379259

Í Svíþjóð eru um það bil tvö þúsund manns með múslímskan bakgrunn á lista yfir mögulega hryðjuverkamenn. Í Noregi er ekki vitað hve margir slíkir eru enda hefur PST, norska öryggislögreglan ekki viljað upplýsa það. Norska lögreglan hefur náð að koma í veg fyrir umtalsverðan fjölda hryðjuverkaárása, þökk sé samstarfi við erlend ríki sem var upplýst í vikunni. Nýr veruleiki innri ógnar blasir við Norðurlöndunum nú þegar þau hafa öll sameinast undir verndarvæng Nató til að berjast við ytri ógn.