c

Pistlar:

16. ágúst 2023 kl. 15:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Umhverfismálin stýra fjárflæðinu

Hagstofan greindi frá því fyrir stuttu að umhverfisskattar hefðu numið 55.244 milljónum króna árið 2021 en það jafngildir tæplega 5% allra skatttekna í landinu. Þetta er í fyrsta sinn sem Hagstofan birtir gögn um umhverfisskatta á Íslandi. Þegar hlutfall heimila af heildarumhverfisskattbyrði er skoðað sést að á Íslandi borguðu heimilin 59% allra umhverfisskatta árið 2020 sem er með því hæsta sem gerist í Evrópu. Umhverfissköttum er skipt í fjóra flokka; orkuskatta, flutningsskatta, mengunarskatta og auðlindaskatta.skattumh

Við sjáum mörg dæmi þess að umhverfismál stýra nú fjárflæði í hagkerfinu í auknum mæli, bæði í gegnum skatta og ívilnanir en ekki síður fjárfestingar sem leiða af þessu. Við höfum þannig mörg nýleg dæmi í fréttum um slíkt en þar hefur tilkynning um kaup Íslands á 3,4 milljónum kolefniseininga frá Slóvakíu vakið mesta athygli. Kaupin eru til að Ísland standi við skuldbindingar sínar á 2. tímabili Kýótó-bókunarinnar. Kaupverð er um 350 milljónir króna sem ráðuneytið segir vel innan heimilda á fjárlögum ársins, en gert var ráð fyrir 800 milljónum í verkefnið. Við erum þar með dottin inn í viðskiptakerfi sem er lítt skiljanlegt flestu venjulegu fólki.

Óljósar skilgreiningar

Áðurnefnt dæmi vigtar ekki stórt en ekki verður með öllu séð hvernig umhverfisskattar eru skilgreindir og afmarkaðir, hvað þá hvernig gert er ráð fyrir að þeir vigti og virki í framtíðinni. Við sjáum til dæmis af stefnumótum í kringum rafmagnsbíla og bifreiðagjöld að þar er ákvörðun nánast tekin frá ári til árs. „Umhverfisskattar og umhverfisgjöld hafa ekki verið skilgreind með afmörkuðum hætti í íslenskum rétti eða stjórnsýsluframkvæmd. Skilgreining Efnahags- og framfarastofnunar (OECD) á umhverfissköttum er sú að skattstofn umhverfisskatta sé efnisleg eining sem hefur sannreynd neikvæð áhrif á umhverfið,“ segir í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá samflokksmanni sínum Óla Birni Kárasyni um umhverfisskatta, umhverfisgjöld og skattalegar ívilnanir fyrir þremur árum.

Þess má geta að þegar umhverfisskattar voru fyrst lögfestir árið 2009 sagði Tryggvi Þór Her­berts­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks, sagði að frum­varp þar um væri úlf­ur í sauðagæru. Þarna væri verið að leggja á ein­falda neyslu­skatta en ekki skatta á auðlind­ir. Helgi Hjörv­ar, þingmaður Sam­fylk­ing­ar, sagði við sama tilefni að þetta væri mikið fram­fara­mál. Með því fengi rík­is­sjóður arð af auðlind­um. Álagn­ing­in létti þörf fyr­ir hækk­un tekju­skatts á al­menn­ing. Af þeim orðum sést að vinstri stjórnin leit þá á umhverfisskatta sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð.umhskattar

Umtalsverðar ívilnanir

Samhliða auknum umhverfissköttum hafa ívilnanir verið auknar verulega og því má ætla að tilflutningur fjár milli skattgreiðenda sé mun meiri en áðurnefnt 5% framlag til umhverfisskatta. Vel má sjá fyrir sér að þessar tilfærslur aukist verulega á komandi misserum miðað við markmið stjórnvald um kolefnishlutlaust Ísland.

Niðurfelling virðisaukaskatts af rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum upp að ákveðnu hámarki hefur verið í gildi frá 2012. Þá hafa metan- og metanólbifreiðar notið niðurfellingar vörugjalds upp að ákveðnu hámarki og lækkunar bifreiðagjalds, metanbifreiðar frá 2011 og metanólbifreiðar frá 2016. Markmið ívilnana er að styrkja samkeppnishæfni umræddra ökutækja gagnvart hinum hefðbundnu bensín- og dísilknúnu ökutækjum og flýta þannig fyrir orkuskiptum í vegasamgöngum. Segja má að það hafi tekist enda sala rafmagns- og tvinnbíla orðin ráðandi hér á bílamarkaði en þeir greiða engin veggjöld af rafmagnsnotkuninni. Efasemdaraddir hafa verið um þetta fyrirkomulag. 

Frekari skattaívilnanir tóku svo gildi á árinu 2020. Þar má helst nefna: Niðurfelling virðisaukaskatts upp að ákveðnu hámarki fyrir vistvæn bifhjól, reiðhjól, rafmagnsreiðhjól og hlaupahjól; 100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna kaupa á efni og vinnu við uppsetningu á hleðslustöðvum í eða við íbúðarhúsnæði; útleiga á vistvænum bifreiðum verður undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu; virðisaukaskattur vegna kaupa á vistvænum hópbifreiðum í almenningsakstri verður felldur niður og atvinnurekstraraðilum verður heimilað að fyrna vistvæn ökutæki að fullu á kaupári.

Umhverfissjóðir í vexti

Óhætt er að segja að umhverfissjóðir hverskonar verði stærri og stærri hluti endurútdeilingarkerfis hins opinbera. Þá þannig að skattpeningum er endurúthlutað til verkefna á sviði umhverfismála. Í Morgunblaðinu í vikunni var greint frá því að svissneska fyrirtækið Climeworks hefði verið í nánu samstarfi við Carbfix hér á landi en Climeworks tekur þátt í stóru verkefni í Bandaríkjunum á komandi misserum. Stjórnvöld í Bandaríkjunum tilkynntu á föstudaginn að þau hygðust fjárfesta allt að 1,2 milljarða bandaríkjadala í verkefni í suðurhluta Bandaríkjanna með sömu tæknilausn og var fyrst tekin í gagnið á Íslandi við Hellisheiðarvirkjun haustið 2021, þar sem Climeworks og Carbfix settu á laggirnar Orcu-lofthreinsistöðina.

Allt eru þetta tilraunaverkefni sem þykja augljóslega áhugaverð og njóta þess í styrkjaumhverfinu. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hve raunhæf þau eru í rekstri án opinberra styrkja og ívilnana.