c

Pistlar:

22. ágúst 2023 kl. 11:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hví yfirgefa gyðingar Frakkland?

Á næsta ári hýsir París ólympíuleikanna og mikið í húfi fyrir Frakka að sýna land og borg eins og það best gerist. Undanfarin ár hafa hins vegar verið róstusöm í frönsku þjóðlífi og skelfileg ofbeldisverk framin, meðal annars í París. Allt hefur þetta haft áhrif á franskt samfélag eins og birtist í kosningum þar sem útlendingamál og afstaða til einstakra þjóðarbrota skiptir miklu. Mikil fjölgun múslima í landinu hefur haft áhrif, sérstaklega vegna þess að margir þeirra eru óánægðir með stöðu sína, telja að samfélagið ekki gefa þeim þau tækifæri sem þeir væntu. Er nú svo komið að í mörgum hverfum í borgum landsins er óánægt ungt fólk af annarri og jafnvel þriðju kynslóð innflytjenda sem finnst það eiga litla samleið með frönsku samfélagi. Norski blaðamaðurinn Hege Storhaug fullyrðir að nokkuð sé síðan múslímskt hlutfall íbúa miðjarðarhafsborgarinnar Marseille hafi farið yfir 50% þó yfirvöld haldi fram lægri tölum. Samkvæmt tölum frá frönsku hagstofunni Insee voru múslímar 10% af íbúum Frakka á árunum 2019 - 2020. Alls lýstu 29% íbúanna, á aldrinum 18 til 59 ára, sig kaþólska, 10% múslima, 10% önnur trúarbrögð og 51% höfðu enga trú, samkvæmt skoðun Insee. Um 20% múslima fara reglulega í moskur sýndi könnun hagstofunnar.arab

Þriðja stærsta samfélag gyðinga

Í Frakklandi er þriðja stærsta samfélag gyðinga í heiminum, næst á eftir Ísrael og Bandaríkjunum. Það getur verið matsatriði hvernig þessi hópur er afmarkaður en talið er að um 550 þúsund gyðingar séu í Frakklandi, þá fólk sem á foreldra sem eru gyðingar. Í gegnum tíðin hefur samfélag gyðinga mátt þola ýmislegt en í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar, nánartiltekið árið 1791 fengu þeir borgaraleg réttindi á við aðra en svokallað Dreyfusmál í lok 19. aldar afhjúpaði mikla gyðingaandúð. Þrír franski forsetar hafa verið af gyðingaættum og fram að ofsóknum nasista áttu gyðingar þokkalega vist í Frakklandi en í helförinni tíndu 75 þúsund franskir gyðingar lífinu.

Nú virðast gyðingar sæta ofsóknum á ný í Frakklandi og og má rekja upphafið til annarrar uppreisnarinnar (Intifada) í Palestínu um árið 2000. Ljóst er að ástandið þar hefur meiri og meiri áhrif í Vestur-Evrópu eftir því sem múslimum fjölgar. Þessi andstaða er undir merkjum baráttu gegn síonisma og hefur notið velvilja margra vinstrimanna eins og þekkt var innan breska Verkamannaflokksins og leiddi að lokum til tímabundinnar brottvikningar Jeremy Corbyn, fyrrverandi leiðtoga flokksins.

Í Frakklandi keyrði um þverbak árið 2014 en þá um sumarið urðu mótmæli stuðningsmanna Palestínumanna hávær og birtust meðal annars í árásum á gyðingasamfélagið í Frakklandi. Ýmsir úr hópi mótmælenda kölluðu „dauða til handa gyðingum“ og brutu rúður og brenndu fyrirtæki gyðinga. Einnig var gerð tilraun til að brenna heilan söfnuði inni í samkunduhúsi (synagogue) gyðinga. Það og önnur ofbeldisverk leiddu til þess að 8.000 gyðingar fluttust til Ísrael árið 2015 og fjallaði tímaritið National Geographic ítarlega um þetta á árslok 2019. Talið er að um 55 þúsund gyðingar hafi yfirgefið Frakkland síðasta áratug eða svo og rætt um „brottförina“ (exodus).arab3

Nánast allir gyðingar kynnast ofsóknum

Áttatíu og níu prósent nemenda af gyðingaættum í Frakklandi segjast hafa orðið fyrir gyðingahatri, samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í mars 2019. Árið 2017 voru gyðingar skotmark næstum 40 prósenta ofbeldisatvika sem talin voru eiga rætur sínar til kynþáttar eða trúarbragða, þrátt fyrir að vera innan við 1 prósent frönsku þjóðarinnar. Árið 2018 jókst skráð gyðingahatur um næstum 75 prósent og gyðingar eru taldir þolendur kynþáttahaturs í helmingi skráðra tilfella þrátt fyrir að vera aðeins 1% landsmanna eins og áður sagði.

Innanríkisráðherra Frakklands hefur varað við því að andúð gegn gyðingum „dreifist eins og eitur“. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, lýsti því yfir að gyðingahatur hefði ekki verið meira síðan í seinni heimsstyrjöldina og talaði gegn aðskilnaðarstefnu íslamista. Eftir fjölda árása viðurkenndi Edouard Philippe forsætisráðherra að gyðingahatur eigi „djúpar rætur í frönsku samfélagi“. Fyrir síðustu forsetakosningar reyndi Macron að stöðva trúaróeirðir sem ekki eingöngu beindust að gyðingum.

Núverandi bylgja innflytjenda frá Frakklandi til Ísrael hófst fyrir alvöru eftir fjöldamorðin í Toulouse árið 2012, þar sem íslamskur öfgamaður og franskur ríkisborgari hóf skothríð á dagskóla gyðinga og drap ungan rabbína sem reyndi að verja þriggja og sex ára syni sína og skaut síðan til dauða dreng og 8 ára stúlku. Þremur árum síðar myrti byssumaður, sem hafði heitið ISIS hollustu, fjóra viðskiptavini í kosher matvörubúð í París. Daganna á eftir hringdu þúsundir gyðinga í Gyðingastofnunina í París til að grennslast um flutning til Ísraels en þarlend stjórnvöld aðstoða gyðinga sem vilja flytja „heim.“ Í greininni í National Geographic kemur reyndar fram að aðlögun að ísraelsku samfélagi reynist mörgum erfið en þrátt fyrir það kjósa margir gyðingar hvaðanæva úr heiminum að flytja þangað. Tveggja ára gömul könnun sýnir að um 23% gyðinga í Vestur-Evrópu íhuga að flytja til Ísrael.arab2

Enginn gyðingur eftir?

Lætur nærri að á hverju ári síðasta áratuginn hafi orðið banvænar árásir á gyðinga, allt frá barsmíðum og frelsissviptingu gagnvart hinni 65 ára gömlu Söru Halimi árið 2017 til hræðilegs dráps á Mireille Knoll eftirlifanda helfararinnar árið 2018. Smærri tilvik hafa líka mikil áhrif, svo sem afhelgun kirkjugarða og skemmdir á minnisvörðum gyðinga, eða hreinlega árásir á þá sem klæðast eins og gyðingar. Frá 2003 til 2019 voru 12 einstaklingar drepnir í Frakklandi fyrir það eitt að vera gyðingar, allir af róttækum íslamistum. Frönsk yfirvöld hafa haft talsverðan viðbúnað og reynt að bjóða gyðingum upp á vernd. Gyðingum finnst hins vegar lítið gert til að andæfa gyðingahatri.

Hve langt er þar til enginn gyðingur er eftir í Frakklandi, spyr Gavin Mortimer pistlahöfundur hjá The Spectator en hann er búsettur í Frakklandi og mjög gagnrýnin á ástandið. Hann telur frönsk stjórn neita að horfast af einurð í augu við ástandið.