c

Pistlar:

23. ágúst 2023 kl. 19:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslandsbanki og hvalreki seljandans

Stærð og umfang ríkisvaldsins er líklega helsta ágreiningsefni flestra þróaðra samfélaga. Hvert sem svarið er þá er augljóst að ríkið hefur gríðarleg áhrif á líf borgara þess. Ríkið getur verið í margvíslegum hlutverkum og eitt þeirra er að kaupa og selja eignir. Kaupendur eru þá oftar en ekki borgara samfélagsins en varla hægt að segja að viðskiptin séu á jafningjagrundvelli enda hefur ríkisvaldið örlög fjárfesta í hendi sér og þar að auki tungur tvær og talar sitt með hvorri.islandsbanki

Lítum á dæmi um framferði ríkisins. Ekki er langt síðan ríkisvaldið ákvað að selja hluta af bréfum sínum í Íslandsbanka, samfara skráningu fyrirtækisins í kauphöll. Stofnað var til viðskiptanna með nokkuð opnum hætti og kaupendur borguðu samviskusamlega og fengu fyrir vikið skráð bréf í Kauphöll Íslands. Ekki verða lesendur þreyttir með upptalningu á atburðarásinni í kringum áframhaldandi sölu bréfa í bankanum en niðurstaðan af því var sú að fólkið, sem keypt hafði bréfin í bankanum af íslenska ríkinu, varð að þola að eftirlitsstofnanir á vegum ríkisins sektuðu bankann um háar upphæðir og rýrðu þannig eign þeirra sem keypt höfðu bréfin. Tilefni sektarinnar virtist þar að auki að hluta til eiga upptök sín hjá ríkinu, svo öfugsnúið sem það er.

Hvalrekaskatt á fjárfestingahræið

En sumir vilja að ríkisvaldið haldi áfram að hrella þá sem glöptust til að eiga þessi viðskipti við það um hlutabréf í Íslandsbanka því nú er rætt um að leggja sérstakan hvalrekaskatt á banka í landinu. Slík áform munu án efa hafa verulega neikvæð áhrif á gengi bréfa Íslandsbanka og þannig áfram stuðla að eignarýrnun þeirra sem keyptu af ríkinu. Vilji er til að stuðla að auknum sparnaði landsmanna og margir hafa áhuga á að reyna slíkt. Hlutabréf eru ein leið til að koma sér upp örlitlum sparnaði og getur þá viðkomandi ráðið einhverju um hvernig honum er háttað. Þó að íslenskir bankar búi þegar við mikla skatta- og reglugerðaráþján þá gat verið freistandi fyrir marga smá fjárfesta að kaupa af ríkinu þegar það seldi bréf sín í Íslandsbanka. En þeir sáu varla fyrir hugmyndir um sérstakan „hvalrekaskatt“ sem koma nú frá fulltrúum seljandans. Það verður að teljast óvenju bíræfið, jafnvel af hálfu ríkisvaldsins sem kallar ekki allt ömmu sína í þessum efnum.

Eins og áður sagði eru margir í þeirri aðstöðu að vilja koma sér upp sparnaði í gegnum hlutabréf. Það er reyndar ekkert sérlega hagstætt hér á landi enda viðskiptakostnaður vegna hlutabréfaviðskipta óheyrilega hár hér á landi og svo er allur arður skattlagður um 22%. Þá má ekki gleyma að há verðbólga og háir stýrivextir gera lítið til að auka verðmæti hlutabréfa. Því er óhætt að segja að venjulegt fólk, sem vill koma sér upp sparnaði með þessari leið, ætti að hugsa sig tvisvar um. Sérstaklega ef ríkið er seljandinn.islab

Engin grundvöllur fyrir hvalrekaskatti

Í dag fjallar Hjörtur H. Jónsson, forstöðumaður hjá ALM verðbréfum hf., um ranghugmyndir margra þegar kemur að meintum miklum hagnað íslensku bankanna og réttmæti þess að leggja á þá hvalrekaskatt í ViðskiptaMogga dagsins. Hjörtur bendir á að talsmenn hvalrekaskatts hafa einblínt á upphæð hagnaðarins í krónum, sem vissulega er há tala, og gjarnan sett hana í samhengi við háa vexti, án þess að ræða kosti og galla skattheimtunnar að neinu marki. Hafa verður í huga að í bönkunum er bundið mikið eigið fé og að arðsemi þess er síst of há, eða á milli 10 og 15 prósent. „Hún hefur nú lækkað á milli ára hjá öllum stóru bönkunum enda ráða bankarnir ekki vaxtastigi heldur einungis vaxtamuninum sem þeir krefjast. Það er því enginn grundvöllur fyrir hvalrekaskatti á íslenska banka enda hefur enginn hvalreki átt sér stað,“ segir Hjörtur.

Við þetta má bæta að hvalreki gat verið búbót í eina tíða en honum fylgdi mikil vinna við að skera og vinna hvalshræið. Þetta var því fráleitt auðfengið fé þó hann gæti reynst ágætt búsílag ef vel var að málum staðið. Í dag er mikil ami af hvalreka enda fylgir honum mikil ýldulykt og óþægindi fyrir landeigendur.