c

Pistlar:

30. ágúst 2023 kl. 21:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skýrsla Svandísar og hvað nú?

Þá er hún komin, risastóra skýrslan um sjávarútveginn og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti hana með pompi og prakt í gær. Við eigum enn eftir að melta þær 464 blaðsíður sem þar voru opinberaðar en niðurstöður hinna ólíku starfshópa liggja nú fyrir í heldur óljósum tillögum sem hið pólitíska vald getur líklega mótað að vild enda var það alltaf ætlun matvælaráðherra eins og fjallað var um hér þegar fjallað var um „risastórusjávarútvegsnefndina“. Atburðarásin hefur orðið eins og spáð var þar. Lítum á hvernig niðurstaðan er kynnt núna:

„Auðlindin okkar er heiti á opnu og gagnsæju verkefni sem matvælaráðherra setti af stað í maí 2022 með þátttöku fjölmargra sérfræðinga. Markmið matvælaráðherra með verkefninu er hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Auðlindin okkar byggir á hinum þremur stoðum sjálfbærrar þróunar; umhverfi, efnahag og samfélagi. Kjarni sjálfbærrar þróunar lýtur að því jafnvægi sem þarf að ríkja á milli þeirra ólíku og jafnvel andstæðu krafta sem liggja að baki nýtingu og ráðstöfun á takmörkuðum náttúruauðlindum og gæðum samfélagsins í umhverfislegu, efnahagslegu og samfélagslegu tilliti.“ Allt er þetta svo almennt að það jaðrar við merkingaleysi.svand

Fræðilegt fóður í lagasetningu

En hvað gerist næst og hvernig lýsum við þessu ferli? Er samráði og samtali lokið og hefst núna hin pólitíska stefnumótun en ráðherra lýsir því þannig að lagasetningin sé komin í samráðsgáttina. Telur matvælaráðherra sig hafa nóg fræðilegt fóður í höndunum til að breyta umhverfi sjávarútvegsins til að friða kjósendur sína? Vandinn er að hluti kjósenda VG eru þokkalega praktískt þenkjandi þannig að þeir vilja umfram allt hafa sjávarútveg þannig að hann skili verðmætum störfum úti á landi. Það er sá hluti sem VG slæst við Framsóknarflokkinn um. Höfuðeinkenni kerfisins núna er að okkur Íslendingum hefur tekist að búa til arðbæran fyrirtækjarekstur í kringum sjávarútveg, að sumu leyti einir þjóða. Því fylgir að þeir sem eiga fyrirtækin efnast. Fyrir VG á leið í vinstri stjórn gætu þetta virkað sem óásættanlegar þverstæður í hinu pólitíska landslagi. Fyrir VG í núverandi ríkisstjórn virðist ómögulegt að gera það sem hugur ráðherra stendur til núna.

Vinstri dyrnar opnar

Fræðimenn eru almennt ekki trúaðir á hækkun veiðigjalda en pólitískt gæti það orðið mikilvægur þáttur ef VG verður í aðstöðu til að semja til vinstri að tveimur árum liðnum með þátttöku flokka eins og Samfylkingunni og Viðreisn en sá síðarnefndi stærir sig gjarnan af því að hafa þroskaða lausn á sjávarútvegnum þó hann styðjist við mjög pópúlíska orðræðu. Á meðan Katrín Jakobsdóttir reynir að leiða þessa ríkisstjórn „stöðugleika“ er hlutverk Svandísar að halda vinstri dyrunum opnum. Ferlið sem hún er nú að kynna er eitt stærsta leikrit samráðs og umræðu sem sett hefur verið á svið eins og skýrslan stóra afhjúpar betur en annað. Stjórnsýslan í kringum hvalveiðarnar sýnir hins vegar skýrt hvað Svandís er tilbúin til að gera til að halda vinstri dyrunum opnum.

Veiðigjöld hækkuð

„Boðar hærri veiðigjöld og uppboð heimilda,“ skrifaði mbl.is í fyrirsögn í gær. Þar sagði frá því að Svandís Svavars­dótt­ir mat­vælaráðherra mun leggja til við Alþingi að veiðigjöld sem lögð er á sjáv­ar­út­veg­inn verði hækkuð. Um leið benti hún á van­traust al­menn­ings til sjáv­ar­út­vegs­ins og að ósk væri um „sann­gjarn­ari“ skipt­ingu tekna af nýt­ingu sjáv­ar­auðlind­ar­inn­ar. Kvaðst hún vilja að „al­menn­ing­ur fái sýni­legri hlut­deild í af­komu við nýt­ingu sjáv­ar­auðlind­ar­inn­ar.“ Útfærsl­an sé þó ekki frágeng­in. Samkvæmt frétt mbl.is til­kynnti mat­vælaráðherra að stefnt verði að því að gera til­raun með upp­boð veiðiheim­ilda í sam­ræmi við til­lög­ur starfs­hópa verk­efn­is­ins þess efn­is. Sagði Svandís mik­il­vægt að stíga þetta skref í þeim til­gangi að varpa bet­ur ljós á hvernig verð mynd­ast í sjáv­ar­út­vegi. Er verðmyndun vandamál í sjávarútvegi? Hugsanlega gætu einhverjir sjómenn haldið því fram út frá skiptaprósentu en launakostnaður íslensks sjávarútvegs er hvort sem er mun hærri en annars staðar. Því verður að telja gagnrýni á verðmyndun heldur óljósa leið til að gera stórtækar breytingar á sjávarútvegi.

Einnig má spyrja hví ráðherra hyggst breyta útreikningum veiðigjalds sem eru í raun mjög einfaldir í dag en þeir eru reiknað af tegundum í aflamarki. Veiðigjaldið kemur af framleigð veiða eða 33% af því sem eftir stendur þegar búið er að draga frá tekjum kostnaðinn við veiðar, laun, olíu, veiðarfæri og þess háttar. Er ástæða til að breyta þessu?

Talið er að einn af hverjum fimm veiddum fiskum í heiminum sé ólöglega veiddur, aflinn óskráður eða veiðarnar stjórnlausar. Við Íslendingar glímum við lúxusvanda í sjávarútvegi sem sumir telja að geti gefið pólitísk tækifæri. Þar liggur hættan.