Flestir Íslendingar þekkja til Marels og oftar en ekki tala landsmenn um fyrirtækið með stolti. Marel hefur ásamt Össuri verið í fylkingarbrjósti íslenskra tæknifyrirtækja og saga þessara félaga reynst farsæl og mörgum til hvatningar og eftirbreytni. Össur er reyndar að stórum hluta í eigu danskra fjárfesta í dag en Íslendingar eru enn í lykilstöðum. Össur færðist í danskt eignarhald eftir bankahrunið en betur tókst til með Marel sem er skráð í Kauphöll Íslands og er undir íslenskri stjórn og eignarhaldi. Félagið var lengi vel það verðmætasta í kauphöllinni en undanfarið ár hefur gefið á bátinn og bréf félagsins lækkað verulega, íslenskum fjárfestum til armæðu.
Það er hægt að tala um ævintýri þegar Marel er annars vegar. Marel hf. var stofnað í mars 1983 og fyrstu vikurnar störfuðu tveir menn hjá fyrirtækinu. Vorið 2023 var fjöldi starfsfólks um átta þúsund í meira en 30 löndum. Á 40 árum hafði Marel breyst úr sprotafyrirtæki, sem einsetti sér að beita nýjustu tækni til að bæta hráefnisnýtingu í sjávarútvegi, í hátæknirisa sem framleiddir tæki fyrir margar greinar matvælaiðnaðar.
Eigendur Marels ákváðu að láta skrá sögu félagsins og var Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur fenginn til verksins en hann er reyndur sagnfræðingur og farsæll sögumaður. Í því riti sem nú liggur fyrir er fyrsti kafi sögu Marels skráður eða árin frá 1983 til 1999. Gunnar Þór hefur haft aðgang að gögnum félagsins en segja má að hann horfi mjög á félagið innanfrá. Að sumu leyti er þessi saga því skráð í gegnum starfsmenn og reynslu þeirra og þó vissulega endurspeglist þróun í íslensku efnahagslífi vel í gegnum bókina.
Það er auðvitað merkilegt að skoða sögu og þróun fyrirtækis eins og Marels og þá mikilvægt að hafa í huga að margir eru kallaðir en fáir útvaldir í fyrirtækjaheiminum. Það er því fágætt að félög nái að þróast eins og Marel og því áhugavert fyrir þá sem vilja skilja hvað ræður árangri, hvaða ákvarðanir eru teknar og hverjar heppnast og hverjar ekki. Hér er þetta allt rakið með ágætlega skýrum hætti. Gunnar Þór byggir rit sitt mikið á samtölum við starfsmenn sem eru vitaskuld stoltir af árangrinum. Ekki er að sjá að mistökin séu dregin undan sem eykur auðvitað trúverðugleika frásagnarinnar. Er ekki að efa að rit sem þetta er lærdómríkt öllum frumkvöðlum og fyrirtækjastjórnendum og reyndar öllum þeim sem vilja setja sig inn það hvað skilur á milli feigs og ófeigs í fyrirtækjarekstri.
Danir kaupa íslenska frumkvöðla
Á tyllidögum vilja Íslendingar eigna sér árangur Marel og stjórnmálamenn nota sögu félagsins oft sem dæmi um velheppnaða atvinnuuppbyggingu. Jú, vissulega er okkur Íslendingum mikilvægt að nota hugvitið og sköpunarkraftinn og kannanir hafa sýnt að í Íslendingum býr frumkvöðlaandi þannig að landsmenn hafa ýmislegt með sér í þeim efnum. En það er ekki tilviljun að mörg okkar bestu og glæsilegustu fyrirtæki lenda í höndum erlendra fjárfesta. Þar eru Danir einstaklega duglegir að næla sér í okkar bestu fyrirtæki eins og nýleg kaup danska fyrirtækisins Coloplast á íslenska lækningavörufyrirtækinu Kerecis fyrir tæplega 175 milljarða króna sýnir. Heimamarkaður og stærð hagkerfisins skiptir miklu en í tilviki Coloplast þá buðu þeir upp á öflugt dreifi- og sölukerfi sem auðveldar mjög sölu vara Kerecis.
Í tilviki Marels (og reyndar Össurar) framan af þá skipti miklu að hafa aðgang að hlutabréfamarkaði og aðgengi að öflugu fjármálakerfi. Já, hér er verið að tala um íslensku bankanna fyrir hrun, margt var þar gert með ágætum hætti og þeir studdu sannarlega við vöxt og uppkaup Marels og Össurar. Kaup Marel á danska fyrirtækinu Carniteck árið 1997 voru mikilvæg, rétt eins og kaup Össurar á öllum hlutabréfum bandaríska stoðtækjafyrirtækisins Flex-Foot, Inc árið 2000.
„Nýja Ísland“
Kaflinn „Nýja Ísland“ er forvitnilegur en þar leggur höfundur nokkuð mat á þróun efnahagsmál í tengslum við breytingar hjá Marel. Bent er á að þó að Marel hafi orðið alþjóðlegra með hverjum deginum hafi félagið fyrst og fremst verið íslenskt. Höfundur segir að ýmislegt hafi breyst á tíunda áratug síðustu aldar. „Ýmislegt breyttist í atvinnu- og viðskiptalífinu á þessum árum. Samband íslenskra samvinnufélaga heyrði sögunni til og nýjar persónur og nýir leikendur létu til sín taka. Síðasti áratugur 20. aldar hefur verið kallaður „áratugur nýrra manna í viðskiptalífinu.“
Það er rétt að margt breyttist og þarft að rifja það upp „Eftir margra ára efnahagslægð hófst kröftugt hagvaxtarskeið hérlendis þegar komið var framundir 1995. Meðalhagvöxtur á árunum 1994-2000 var 4%. Almenn hagsæld jókst en á sama tíma höfðu ýmsir áhyggjur af vaxandi misskiptingu. Einkavæðing ríkisfyrirtækja var í deiglunni. Orðið „útrás“ heyrðist æ oftar í umræðum um viðskiptalífið og stjórnmálamenn ræddu oft um hvernig ríkisvaldið gæti stutt við íslensk fyrirtæki í sókn þeirra inn á erlenda markaði,“ segir í bókinni (bls. 233).
Áhugaleysi stjórnvalda
En það er forvitnilegt að heyra lýsingu Geirs A. Gunnlaugssonar, sem var forstjóri Marels þegar félagið fór á flug og einn þeirra sem hefur lagt hvað mest til eflingar félagsins. „Mér fannst stjórnvöld sýna afskaplega takmarkaðan áhuga á því sem við vorum að gera,“ segir Geir í bókinni og bætir við. „Ég man varla eftir því að utanríkisþjónustan hafi að fyrra bragði haft samband við okkur til að aðstoða eða að við höfum fundið hjá okkur þörf til að biðja um aðstoð þeirra, utanríkisráðuneytið sýndi ekki áhuga á Marel á þessum miklu vaxtarárum á tíunda áratugnum.“
Höfundur rekur nokkur tilvik þar sem aðkoma stjórnvalda hefði mátt vera meiri. En vissulega skipti máli að meiri stöðugleiki var í íslenskum stjórnmálum frá og með fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1991 og nokkrum árum seinna fór hagvöxtur að aukast verulega. Marel naut þó góðs af aðild að EES en ekki skipti síður máli að kvótakerfið í sjávarútvegi gat af sér öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem voru í stakk búin til að fylgja þróun Marels eftir og styðja við hana. Þessi fyrirtæki gátu fjárfest í dýrum búnaði sem Marel framleiddi og þannig aukið framleiðni sína. Þannig má segja að öflugari sjávarútvegur hafi fylgt eftir og stutt við þróun fyrirtækisins sem og annarra tæknifyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa verið að festa sér rætur á svipuðum tíma.
Eins og áður segir nær sagan fram til ársins 1999 og fjallar því fyrst og fremst um uppbyggingartíma Marels. Höfundur boða aðra bók (í það minnsta) enda nóg eftir að segja frá í kjölfar næstu 25 ára í sögu félagsins.
Ævintýrið Marel
Útgefandi: Mál og menning
Höfundur: Gunnar Þór Bjarnason
2023
288 bls.