c

Pistlar:

16. október 2023 kl. 16:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mannúðarkrísa sósíalista í Venesúela

Gríðarleg fjölgun hælisleitenda hér á landi hefur fært mikinn kostnað og álag á samfélagið. Margir hafa því eðlilega spurt hvort við séum á réttri braut og hvort rétt sé að taka við flóttamönnum frá svæðum þar sem ekki ríkir beinlínis stríðsástand. Eitt þeirra svæða sem skapar mikinn fjölda hælisleitenda er hið fjarlæga land Venesúela sem hefur verið undir stjórn sósíalista í þrjá áratugi en hér hefur margoft verið fjallað um stjórnarfar þar undir stjórn Hugo Chávez og eftirmanns hans og núverandi forseta Nicolás Maduro.venesúela flotti

Óhætt er að segja að lýðréttindi fólks í Venesúela hafi stöðugt verið að versna samfara því að efnahagur landsins hefur verið í kalda kolum. Þrátt fyrir óöldina tók Venesúela sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna (United Nations Human Rights Council) árið 2019 en var kosið út úr því aftur árið 2022 þegar mönnum var orðið ljóst hve óviðeigandi var að hafa ríkið þarna inni. Drápsvélar stjórnvalda leika lausum hala en talið er að um 20% landsmanna hafi flúið. 

Áróðursvél sósíalista

En ástandið í Venesúela hefur fallið undir hefðbundna áróðursvél sósíalista og því reynt að villa fólki sýn á því hvað raunverulega stuðlar að ástandinu og hve slæmt það er. Þannig er vinsæl afsökun sósíalista að kenna efnahagslegum refsiaðgerðum Bandaríkjamanna um en þær beinast þó fyrst og fremst að því að koma í veg fyrir að forsprakkar sósíalistastjórnarinnar geti komið illa fengnum fjármunum sínum í öruggt skjól.

Besta aðferðin til að fá réttar upplýsingar er að ræða við fólkið sjálft, heyra í þeim Venesúelabúum sem hingað koma og fá að vita hjá þeim hvað veldur því að þeir gerast flóttamenn. Undantekningalaust segjast þeir vera að forðast ofbeldi og harðræði sósíalistastjórnarinnar. Það sé ástæðan fyrir því að þeir séu á flótta. Fyrir skömmu var vikuritið Heimildin með stutta umfjöllun um ástandið og ræddi við hælisleitendur frá Venesúela. Þeir sögðu það af og frá að aðstæðurnar í heimalandi þeirra fari batnandi. Á fjölmennum mótmælum vegna aðgerða Útlendingastofnunar fyrir stuttu lýstu venesúelskir hælisleitendur litlu sem engu aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimalandinu, að almenningur eigi ekki pening fyrir mat, ofbeldisfullum ránum og þöggun á vegum stjórnvalda. Ekki er að sjá að neinn telji til viðskiptaþvinganir Bandaríkjamanna eins og íslenskir sósíalistar reyna að halda fram.

Heimildin ræddi við hinn sýrlensk-venesúelska Marwan Alyoosef, sem hefur sótt um hæli hér á landi ásamt tvítugri dóttur sinni í kjölfar hótanna sem þau fengu frá venesúelsku mafíunni. Marwan Alyoosef spurði blaðamann Heimildarinnar: „Af hverju væri þetta fólk allt hér ef ástandið í heimalandinu væri gott?“ og bætti við: „Fólk borðar upp úr ruslatunnum, það fær hótanir.“

Heimildin vitnar í úrskurð kærunefndar útlendingamála en þar kemur fram að í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2023 segir fram að flestir íbúar Venesúela séu í þörf fyrir aðstoð vegna skorts á mat, vatni, heilbrigðisþjónustu og hreinlæti. Í skýrslu Freedom House frá 2023 kemur fram að „yfirvöld í landinu hafi takmarkað borgaraleg réttindi og sótt til saka pólitíska andstæðinga sína án réttlátrar málsmeðferðar. Þrátt fyrir að efnahagur landsins hafi náð vexti á ný eftir margra ára samdrátt sé enn mannúðarkrísa í landinu sem drifin sé af pólitísku ójafnvægi.“vene

Í pistli hér frá árinu 2019 var vitnað í viðtöl við fólk frá Venesúela sem íslenskir fjölmiðlar höfðu þá birt. Annars vegar var það viðtali við Maríu Carolinu Osorio, sem var læknir í Caracas í Venesúela, en það var Ríkissjónvarpið sem sýndi viðtalið við Maríu sem hafði fengið landvistarleyfi hér á landi. - Og svo hins vegar viðtal við Juan E. Martín­ez Badillo, kvik­mynda­gerðarmann í Venesúela og fyrr­ver­andi nem­anda við Mennta­skól­ann á Eg­ils­stöðum sem birtist á mbl.is. Rifjum upp hvernig þau lýsa stjórnarfari sósíalista.

Grimmilegt einræði

María segir að almenningur í Caracas verði að eyða deginum í að reyna að afla matar. Fólk þarf að bíða í löngum röðum til þess að komast að því hvað sé á boðstólum hverju sinni fyrir þann litla pening sem það hefur til umráða í verslunum þar sem nánast enginn matur er til, segir María.

Hún segir að í raun ríki grimmdarlegt einræði í landinu þar sem almenningur svelti heilu hungri og lyfjaskortur sé yfirþyrmandi. „Það eru engin krabbameinslyf til í landinu, engin lyf við sykursýki eða öðrum langvinnum sjúkdómum. Þess vegna fagnar almenningur öllum alþjóðabandalögum, ekki aðeins Bandaríkjunum heldur Chile, Kólumbíu, Brasilíu, Lima-hópnum og Kanada.“ Höfum í huga að viðskiptaþvinganir ná ekki til lyfja eða heilbrigðisvara.

Útlendingar skilja ekki neyðina

Juan E. Martínez Badillo sagðist þreyttur á því að útlendingar, sem skilji ekki stöðuna í ríkinu og hafi ekki reynt alvarlegar efnahagsþrengingar, spill­ingu og skort á eigin skinni, séu að lýsa yfir stuðningi við stjórn Maduros, arftaka Hugo Chavez, sósíalistaleiðtogans sem var við völd í ríkinu frá 1998 og fram til dánardags árið 2013.

„Venesúela er statt á mjög slæmum stað efnahagslega. Lágmarkslaunastarf stendur ekki undir framfærslukostnaði,“ sagði Juan, sem sjálfur er ekki með fasta vinnu en hann fær greitt fyrir kvikmyndagerðarstörf í Bandaríkjadölum, sem hann selur svo á svörtum markaði, þar sem allt annað og betra verð fæst fyrir erlenda gjaldmiðla en ef skipt er við stjórnvöld. Óðaverðbólga hefur fyrir löngu gert gjaldmiðil landsins marklausan.

„Ef þú færð dollara, þá getur þú selt þá á svarta markaðnum og orðið þér úti um góðan pening. Bólívarinn, gjaldmiðillinn okkar, er algjörlega verðlaus. Svo fólk vinnur á netinu og það er meira og minna þannig sem allir eru að komast af, eða með því að fá dollara senda frá ættingjum erlendis.“vene

Þessi viðtöl sýndu að líf fólks var og er skelfilegt í Venesúela. Þá kom fram að talið var að ríflega 20.000 manns höfðu verið myrt í landinu árið 2018. Samkvæmt Amnesty International er þessi tala enn hærri. Þá sem nú var ekkert að marka nokkuð sem kemur frá Maduro-stjórninni, svo mikið er víst.

Í ágúst síðastliðnum voru sex verkalýðsleiðtogar, sem höfðu einfaldlega krafist betri vinnuaðstæðna, dæmdir í 16 ára fangelsi eftir að hafa verið handteknir án dómsúrskurðar og verið í haldi í meira en ár við illan aðbúnað. Þetta er það sem íslenskir sósíalistar eru að verja þegar þeir verja stjórnarfar sósíalista í Venesúela.