Í hinu daglega stefnumóti sem við flest eigum við fréttir heimsins getur verið erfitt að velja og hafna, skilja og greina eða átta sig á yfir höfuð hvar sannleikurinn liggur. Við höfum vanist kenningunni um að við lifum í einu alheimsþorpi þar sem fjölmiðlarnir demba yfir okkur viðstöðulaust upplýsingum hvaðanæva úr heiminum. Fjarlægir staðir verða þannig að miðju tilveru okkar enda erum við mötuð af allskonar upplýsingum sem síðan getur verið snúið að meðtaka eða skilja, hvað þá sannreyna. Með tilkomu fréttastöðva sem vakta allan heiminn fáum við atburðina beint í símann nánast um leið og þeir gerast. Þessar alheimsstöðvar eru óþreytandi við að upplýsa okkur og eru með fréttaritara í öllum heimshornum.
Stundum taka atburðir í einstaka löndum eða landsvæðum yfir fréttadagskránna. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins hefur oft verið fyrirferðamikið eins og við sjáum nú. Svo mjög að átök Ísraela og Palestínumanna hafa kæft nær allar fréttir af stríðinu í Úkraínu. Sýrlandsstríðið sem hófst 2014 féll lengi vel í skugga átaka ísraelska hersins og Hamas á þeim tíma. Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hafði drepið að minnsta kosti 15 þúsund mótmælendur áður en athyglin stóru fréttastöðvanna náði þangað. Stundum er talað um gleymd stríð eins og á við átök víða í Afríku og afskektum löndum eins og Jemen. Það á ekki við um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs.
Sænski landsliðsbúningurinn dauðasök?
En það er ekki einungis að við lifum í heimsþorpi fréttanna heldur hafa fólksflutningar og fjölmenning víða skapað nýja átakafleti. Við fáum að fylgjast með því í tímaflakkinu hvernig þróunin er í nágranalöndum okkar sem eru jafnan nokkrum árum á undan okkur. Svíar hafa nú vaknað upp við vondan draum. Það er þeim erfitt að tveir Svíar voru skotnir til bana í miðborg Brussel fyrir það eitt að klæðast sænska landsliðsbúningnum. Múslímskur hryðjuverkamaður í hefndarleiðangri hrópaði vígorð áður en hann drýgði ódæðisverk sitt. Rétt eins og þegar ungur téténíi myrti sögukennara og særði tvo aðra lífshættulega með hníf í skóla í Arras í norðurhluta Frakklands um miðjan mánuðinn. Morðinginn, Mohammed Moguchkov, kallaði að sögn sjónarvotta „Allahu akbar“ (Guð er mestur) á arabísku áður en hann lagði til fórnarlamba sinna. Franskir fjölmiðlar segja að hann hafi svarið hollustueið við öfgasamtökin Íslamska ríkið á hljóðupptöku fyrir árás sína.
Yfirvöld í Frakkland settu landið á viðbúnaðarstig og forseti landsins, Emmanúel Macron, sagði að franska ríkið myndi ekki sætta sig við að átök úr öðrum heimshluta væru flutt til Frakklands. Frönsk stjórnvöld hafa bannað öll mótmæli vegna Palestínu en íslamistar eru það margir í landinu að þeir komast upp með að hundsa reglur yfirvalda. Spurt er því hvernig frönsk yfirvöld ætla að ráða við ástandið? Hver ráði í Frakklandi yfir höfuð?
Vissu af hættunni
Árásarmaðurinn í Arras var á vaktlista yfir fólk sem vitað er að af stafar öryggisáhætta vegna tengsla við róttæka íslamista. Fjölmiðlar á staðnum greindu frá því að hann væri fyrrum nemandi í Gambetta-Carnot skólanum en hann er fæddur árið 2003 í suðurhluta Rússlands, nánartiltekið í Téténíu. Hann kom til Frakklands árið 2008 með fjölskyldu sinni. Franskir fjölmiðla segja að drengurinn hafi verið skilgreindur sem möguleg öryggisáhætta nokkrum dögum fyrir atvikið og hefði verið undir eftirliti leyniþjónustunnar. Hann var meira að segja stöðvaður af lögreglu skömmu fyrir árásina. Sömu sögu má segja af morðingjanum í Brussel. Hann var þekktur ofbeldismaður og undir eftirliti. Honum hafði verið vísað brott frá Svíþjóð og Belgíu. Allt kom þó fyrir ekki.
En bæði Belgía og Svíþjóð virðast ráðalaus gagnvart innfluttu ofbeldi. Aðrar þjóðir Vestur-Evrópu hyggjast bregðast við og Olaf Scholz Þýskalandskanslari hefur tilkynnt stefnubreytingu í landamæraeftirliti. Fólk sem dvelst þar ólöglega skal flutt burtu. Þjóðverjar hafa gríðarlegar áhyggjur af ofbeldi gagnvart gyðingum, ekki frá hægri öfgamönnum heldur innfluttum þjóðfélagshópum sem styðja íslam. Þar er umræðan í deilu Íslands og Palestínu allt öðru vísi en hér á Íslandi. Athyglisvert er að Ríkisútvarpið virðist hreinlega ekki hafa áttað sig á þessu. Þar eru samtökin Ísland - Palestína enn heimagangur, en þau eru skipuð mörgum öfgavinstrimönnum, eins og alkunna er. En það eru vitaskuld allnokkur pólitísk tíðindi ef aðrir en hægri flokkar á borð við Viktor Orban í Ungverjalandi, Svíþjóðardemókrata og Alternative für Deutschland tala fyrir aukinni stjórnun landamæra.
Vaxandi gyðingaofsóknir
Síðustu áratugi hefur ofbeldi gagnvart gyðingum í Frakklandi aukist verulega. Þess vegna hafa margir brugðið á það ráð að flytja til Ísrael eins og gert var að umtalsefni hér í pistli fyrir skömmu. Aðeins tvö ár eru síðan annar franskur sögukennari, Samuel Paty, var afhöfðaður og þá hét Macron að taka á vandamálum vegna öfgaíslamista. Hann virðist ætla sér það en mögulega er of seint fyrir sjálfan Frakklandsforseta snúa við þróuninni. Frakkland er nú á viðbúnaðarstigi.
Gyðingar hafa lengst af verið landlaus þjóð sem hraktist á milli landa eftir því sem ofsóknir hnigu eða risu. Þeir voru þó alltaf til þess að gera fámennur hópur á hverjum stað og hreiðruðu oftast um sig í tilteknum hverfum og létu lítið fyrir sér fara. Þau mótmæli og átök sem nú sjást á Vesturlöndum sýna að fólksflutningar vegna flóttamanna hafa skapað nýja háværa kröfuhópa í hinni langvinnu baráttu fyrir botni Miðjarðarhafsins. Nú velta menn fyrir sér hvernig eigi að nota orð eins og „hryðjuverk“, „hryðjuverkasamtök“ og „hryðjuverkamaður“ sem virðast vera ansi afstæð hugtök hjá sumum hér á landi. Þrátt fyrir óumdeild hryðjuverk hafa margir veigrað sér við að kalla Hamas samtökin, sem öllu stýra á Gaza og hófu núverandi átök, hryðjuverkasamtök. Það hefur hins vegar ekki vafist fyrir stjórum margra vestrænna þjóða.
Það má rifja upp að í viðtali við bandaríska fjölmiðilinn Politico sagði Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að of margir útlendingar frá framandi menningarheimum, sem aðhylltust framandi trúarbrögð, hefðu fengið að flytja til Evrópu. Kissinger, sem er af gyðingaættum, sagði að sér hefði fundist erfitt að horfa upp á fagnaðarlæti stuðningsmanna Hamas í Þýskalandi vegna morða og gíslatöku almennra borgara í Ísrael laugardaginn 7. október síðastliðinn. Hvað sem því líður þá hafa atburðirnir nú og stuðningurinn við innrásina inn í Ísrael, vakið ýmsa upp af værum blundi. Sjáum hvað setur.
Þær myndir sem fylgja greininni eru teknar upp úr sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins og sýna börn af palestínskum uppruna mótmæla í Reykjavík.