c

Pistlar:

25. október 2023 kl. 21:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Venesúela og hin sósíalíska leið til helvítis

Efnahagur flestra vestrænna ríkja sveiflast frá einum tíma til annars, stundum er samdráttur og þess á milli hagvöxtur. Í stærri þróaðri ríkjum eru þessar sveiflur fremur hægar. Þó vissulega sé hægt að sjá einhverskonar langtímaþróun þá halda þessi ríki sér þokkalega á floti frá einum tíma til annars styðjist menn á annað borð við markaðsbúskap. Fátítt er að sjá lönd nánast hrynja en það hefur þó gerst hjá einstaka ríkjum þar sem sósíalistar hafa komist til valda.Skjámynd 2023-10-25 213558

Afleiðingar af slíkum tilraunum sjást í versnandi efnahag, skorti á mannúð, vaxandi spillingu, óstjórn og að lokum óöld. Gleggsta dæmið um þetta er Venesúela, áður ríkasta land Suður-Ameríku. Ógæfan þar er rakin beint til uppgangs sósíalista eins og áður hefur komið fram í pistlum hér. Undir stjórn sósíalista hvarf ríkið frá hefðbundinni efnahagsstjórn og réðist í þjóðnýtingu fyrirtækja. Þessi aðgerð átti ekkert skylt við þau skandinavísku velferðarkerfi sem reist voru á grunni sterks einkarekins atvinnulífs. Því miður misskilja margir þetta orsakasamhengi og því mikilvægt að fara yfir hvað fór úrskeiðis.venezuela

Hér hefur áður verið vísað í ummæli og reynslu þeirra Venesúelabúa sem flúðu ættland sitt en saga þeirra er yfirleitt á einn veg. Röng stefna, óstjórn, spilling og ofbeldi sósíalistastjórnarinnar hefur nú hrakið um einn af hverjum fimm íbúum landsins á brott en í ágúst síðastliðnum höfðu 7,7 milljónir manna flúið landið. Einstaka sósíalistar reyna að bera í bætifláka fyrir þetta ástandi og vilja kenna lækkandi olíuverði eða refsiaðgerðum Bandaríkjanna um. Nær ekkert af vandamálum Venesúela má þó rekja til þess. Í þessu sambandi er fróðlegt að rýna í skrif Daniel Di Martino hagfræðings frá Venesúela sem nú er búsettur í Bandaríkjunum og skrifar fyrir Manhattan Institute hugveituna.

Daniel bendir á að spilling og óstjórn í Venesúela séu bein afleiðing af aukinni miðstýringu hagkerfisins í nafni sósíalisma. Í raun hafa lægra olíuverð og refsiaðgerðir Bandaríkjanna sáralítið með kreppuna þar að gera. Þess í stað er hungursneyð og fólksflótta veruleiki sem Venesúelabúar standa frammi fyrir og það sé afleiðing af þeirri sósíalísku stefnu sem einræðisherrarnir Hugo Chavez og Nicolas Maduro hafa framfylgt. Svo einfalt er það.

Þjóðnýting sósíalista hefst

Hagfræðingar segja að það séu þrjár meginástæður fyrir því hvernig nú er komið í Venesúela. Þar skiptir mestu stefna sem Chavez hóf að framfylgja árið 1999 og til hennar verður núverandi kreppa að mestu leyti rakin. Í fyrsta lagi ákvað Chavez að ráðast í víðtæka þjóðnýtingu einkafyrirtækja á mörgum stigum. Í öðru lagi voru sett á gjaldeyris- og verðlagshöft sem bjöguðu allt verðlag. Að endingu var rekin fullkomlega óábyrg stefna í ríkisfjármálum sem meðal annars fólst í innistæðulausu velferðarkerfi sem byggðist á seðlaprentun og hallarekstri.

Ein af fyrstu aðgerðum Chavez var að þjóðnýta hluta landbúnaðargeirans. Yfirlýst markmið var að draga úr fátækt og ójöfnuði með því að taka land í nýtingu frá ríkum landeigendum til að gefa fátækum verkamönnum. Á árabilinu 1999 til 2016 rændi stjórn hans þannig meira en 6 milljónum hektara lands frá réttmætum eigendum.vene1

Þjóðnýtingin, eðli málsins samkvæmt, eyðilagði framleiðslu í viðkomandi atvinnugreinum. Auðvitað hafði enginn innan ríkiskerfisins getu til að reka þúsundir fyrirtækja á skilvirkan hátt þannig að þau skili hagnaði og standi undir þróun og fjárfestingu. Þess í stað kepptust embættismenn við að þóknast kjósendum með því að selja vörur á lágu verði og ráða sífellt fleiri starfsmenn. Þessari óstjórn var haldið áfram þó að allir sæju að þetta stefni atvinnugreininni í hættu. Sama má svo segja um aðrar atvinnugreinar sem voru þjóðnýttar.

Það fór eins og hagfræðikenningar sögðu til um, eftir því sem ríkisvaldið tók yfir meira af landbúnaðariðnaðinum, dróst matvælaframleiðsla Venesúela meira saman. Samdrátturinn nam um 75% á tveimur áratugum á meðan íbúum landsins fjölgaði um 33%. Þetta var uppskrift að skorti og hörmungum. Það er eitt einkenni á sósíalískum hagkerfum að þau hætta að brauðfæða sig.

En erfiðleikarnir í landbúnaðinum stöðvaði ekki stjórn sósíalista því áfram var ráðist í að þjóðnýta landbúnað, orkuiðnað og rafmagnsdreifingu, vatnsveitur, olíuiðnaðinn, bankastarfsemi, stórmarkaði, byggingariðnað og aðrar mikilvægar greinar. Í öllum þessum starfsgreinum tóku sósíalistar meira og meira yfir, fjölguðu stöðugt fólki á launaskrá og seldu frá sér vörur með lítilli álagningu. Óhjákvæmileg niðurstaða af þessu var að framkalla rekstrarerfiðleika, svo sem tíðar rafmagnstruflanir á landsvísu, truflanir á vatnsþjónustu, hraðminnkandi olíuframleiðsla og gjaldþrot ríkisfyrirtækja. Þessir sósíalísku stjórnarhættir urðu til dæmis til þess að fjölmargir sérfræðingar í olíuvinnslu fluttu til Kanada, þar sem vel var tekið á móti þeim. Eru þeir nú mikilvægur hluti ört vaxandi olíu- og gasframleiðslu þar í landi.

Rústuðu gjaldmiðilskerfinu

En það var ekki nóg fyrir stjórn sósíalista að yfirtaka mikilvægustu greinar atvinnulífsins. Þeir vildu einnig skipta sér af gjaldeyris- og peningamarkaði landsins. Árið 2003 innleiddi Chavez gjaldeyriseftirlitskerfi þar sem stjórnvöld byrjuðu kerfisbundið að ofmeta gengið milli bólivarsins, gjaldmiðils Venesúela og Bandaríkjadals.

Eitt markmið kerfisins var að draga úr verðbólgu með því að halda gjaldmiðlinum of háum sem leiddi til þess að innfluttar vörur voru í reynd niðurgreiddar í gegnum of sterkan gjaldmiðil. En gjaldeyriseftirlitið hafði einnig í för með sér að stjórnin varð að skammta tiltæka Bandaríkjadali til vöruinnflytjenda þar sem eftirspurn eftir dölum var meiri en framboðið.Skjámynd 2023-10-25 211622

Allt leiddi þetta til þess að svartur markaður fyrir gjaldeyri varð að veruleika og spilltir stjórnarliðar og þeir heppnu einstaklingar (sic!) sem fengu úthlutað ódýrum Bandaríkjadölum högnuðust myndarlega. Vera var, að kerfið jók í raun verðbólgu þar sem ofmat gjaldmiðilsins dró úr olíutekjum ríkisins í gjaldmiðli Venesúela, sem leiddi til þess að stjórnin prentaði stöðugt meiri peninga til að mæta fjárlagahallanum sem fylgdi og gróf þannig undan eigin gjaldmiðli.

Verðþak á vörur

Verðlagshöft og verðþak er vinsælt umræðuefni meðal sósíalista. Sósíalistastjórnin í Venesúela vildi ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum og innleiddi verðþak á hundruð grunnvara eins og nautakjöt, mjólk og klósettpappír. Á þessu tilbúna lága verði voru fleiri tilbúnir til að kaupa þessar vörur en um leið var kippt fótunum undan þeim örfáu einkareknu verksmiðjum sem eftir voru. Þeim var gert ómögulegt að hagnast á fyrirskipaða ríkisverðinu. Smám saman neyddust eigendur þeirra til að draga úr framleiðslu eða stöðva verksmiðjurnar algerlega enda ekki rekstrargrundvöllur lengur. Skortur á eins einfaldri framleiðsluvöru eins og klósettpappír er eitt af helstu sameiginlegu einkennum sósíalískra hagkerfa.

Í stað þess að þessi verðlagshöft kæmu hinum fátæku til góða, leiddi verðþak fyrirsjáanlega til skorts sem að lokum neyddi neytendur til að standa í biðröð tímunum saman á meðan starfsmenn stórmarkaða og vel tengdir einstaklingar fengu þær vörur sem þeir þurftu. Biðraðir eftir nauðsynjum er annað megineinkenni sósíalískra hagkerfa.Skjámynd 2023-10-25 211742

Velferðarkerfi fjármagnað með seðlaprentun

Ef til vill var skaðlegasti hluti sósíalistaverkefnisins í Venesúela sá hluti sem alþjóðlegir fjölmiðlar og vinstrisinnar lofuðu mest, nefnilega velferðaráætlanir. Sósíalistastjórnin skapaði félagsleg „verkefni“ sem miðuðu að því að takast á við fátækt, ólæsi, heilbrigðisþjónustu og fleira. Og þrátt fyrir að hafa notið hærri olíutekna ríkisins vegna tíföldunar olíuverðs, úr 10 dölum tunnan árið 1999 í meira en 100 dali árið 2008, fjármagnaði stjórnin vaxandi halla með aukinni peningaprentun. Víðtækar velferðaráætlanir og umfangsmiklar opinberar framkvæmdir skópu kjöraðstæður fyrir enn meiri spillingu.

Allt þetta hefur valdið kreppunni í Venesúela. Ekki vinavæðing, spilling, lækkandi olíuverð eða refsiaðgerðir Bandaríkjanna, heldur einfaldlega sósíalískt rugl! Allt fór þetta öðru vísi en ætlað var. Velferðaráætlanir sem áttu að hjálpa fátækum juku í raun framfærslukostnað. Gjaldeyriseftirlit sem miðaði að því að draga úr verðbólgu jók hana og skapaði stórfellda spillingu. Þjóðnýtingin sem átti að veita verkamönnum „vald“ yfir framleiðslutækjunum skildi þá eftir atvinnulausa og svanga.

Spillt stjórnarfar getur vissulega valdið margvíslegum vandamálum, en ef ekki kæmi til sósíalismi væri miklu minna um óðaverðbólgu og útbreiddan skort. Þar að auki verður að horfa til þess að um þessar mundir selst olía frá Venesúela fyrir tvisvar til þrisvar sinnum hærra verð en árið 1999, leiðrétt fyrir verðbólgu. Og eina refsiaðgerð Bandaríkjanna, sem hefur einhver áhrif á venjulega Venesúelabúa, bannið við olíuinnflutningi, var sett á 2019 en þá hafði verðbólga og skortur hrjáð landið í mörg ár. Venesúelabúar hafa þjáðst vegna óstjórnar sósíalista síðustu 20 ár og lært að það er ekki til neitt sem heitir ókeypis hádegisverður. Það er alltaf einhver sem borgar hann og í þessu tilviki almenningur í Venesúela.