c

Pistlar:

28. október 2023 kl. 13:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Satt og logið á Gaza

Gríðarlegt áróðursstríð fer nú fram fyrir botni Miðjarðarhafsins og er vandasamt að fá áreiðanlegar upplýsingar um gang mála þó að augu heimsins beinist þangað. Sjálfur hef ég reynt að fylgjast með atburðarásinni í gegnum þær alþjóðlegu stöðvar sem ég horfi jafnan á, sem eru BBC, Sky News, France 24 og Al Jazeera. Endurvarp þess birtist í íslenskum miðlum og auðvitað á samfélagsmiðlum sem er stútfullir af falsfréttum.gasa

Ákveðin tímamót urðu í átökunum 17. október þegar upplýst var um flugskeytaárás á al-Ahli Arab sjúkrahúsið á Gaza. Var því haldið fram, örfáum mínútum eftir sprenginguna að um 500 manns hefðu látist. Árásin vakti mikla reiði og viðbjóð um allan heim. Sú samúð sem Ísraelsmenn höfðu fengið eftir innrás Hamas liða inn í landið þann 7. október virtist hreinlega gufa upp. Ísraelsmenn virtust tapa þarna áróðursstríðinu.

Alla jafnan er í lagi að horfa á Al Jazeera sjónvarpsstöðina sem kostuð eru af yfirvöldum í olíuríkinu Katar en þar búa helstu forystumenn Hamas-samtakanna ásamt fjölskyldum sínum, í öruggri fjarlægð frá átökunum á Gaza. Daginn sem árásin á sjúkrahúsið átti sér stað setti Al Jazeera rauðan borða yfir stóran hluta skjásins þar sem sagði að 500 manns væru látnir. Þess á milli var sagt að hugsanlega hefðu fleiri farist og ekki var um annað rætt næstu daga.

Ábyrgðalaus sprengja

Nú virðist talið nær öruggt að sprengingin sem varð við sjúkrahúsið al-Ahli Arab hafi ekki verið af völdum Ísraelsmanna heldur hryðjuverkamanna Íslamska Jíhad, sem eru herská samtök Palestínumanna á Gaza-svæðinu. Þá sýna verksummerki að sjúkrahúsið sjálft var ekki sprengt, heldur bílastæði fyrir utan það. Ennfremur er talið að tölur um fjölda látinna voru blásnar upp af heilbrigðisráðuneyti Gaza, sem stýrt er af hryðjuverkasamtökunum Hamas. Þetta kemur fram í greiningum bandarísku fréttastofanna Associated Press og CNN. Leyniþjónustur Bandaríkjanna og Frakklands , auk fleiri leyniþjónustna, hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu að ólíklegt sé að Ísrael beri ábyrgð á sprengingunni. Ísraelar sjálfir hafa harðneitað því frá upphafi.gasa2

Á vef Ríkisútvarpsins er sagt frá því að AP fréttaveitan hafi greint tæplega 20 myndbönd af sprengingunni og augnablikunum fyrir og eftir hana sem og gervihnattarmyndir og önnur gögn af svæðinu. Niðurstaða greiningarinnar sýni að eldflaug sem var skotið upp á yfirráðasvæði Palestínu hafi brotnað í loftinu og sprengingin á spítalann orðið þegar eldflaugin hrapaði til jarðar. Um leið er vitnað í Justin Crump, fyrrum yfirmann hjá breska hernum og leyniþjónusturáðgjafa, sem segir algengt að eldflaugar bregðist, jafnvel hjá vestrænum herjum sem hafi yfir dýrasta búnaðinum að ráða. Því komi þetta ekki á óvart. Það sé þekkt að eldflaugar sem skotið hafi verið frá Gaza lendi þar og drepi almenna borgara í deilum sem þessum. Líklega er það raunin með eina af hverjum fimm sprengjum sem þeir senda á loft. „Þetta lítur út fyrir að vera hræðilegt slys, miðað við líklegasta mat,“ vitnar Ríkisútvarpið til hans. Hið vinstri sinnaða dagblað New York Times telur sig þó enn hafa sannanir fyrir því að Ísraelsmenn beri ábyrgð á árásinni. Hugsanlega munu Palestínumenn aldrei viðurkenna þetta. Þessi atburður hafði mjög neikvæðar afleiðingar fyrir Ísraelsmenn þótt efast megi um að þeir hafi komið þarna nærri.

Hryllingurinn 7. október gleymdur?

Árásin 7. október var versta árás á gyðinga síðan í Helförinni segja Ísraelsmenn en augljóslega hafa þeir verið búnir að tapa áróðursstríðinu löngu áður. Það sést meðal annars glögglega á viðbrögðunum við sprengingunni á bílastæðinu við sjúkrahúsið. Það sem gerðist raunverulega þennan laugardag í Ísrael hvarf í atburðarásina. En augljóslega var það sem gerðist þennan laugardag ástæða fyrir því hve hart ísraelsk stjórnvöld brugðust við. En þegar Ísraelsmönnum fannst enn meira halla á sig í áróðursstríðinu brugðu þeir á það ráð að bjóða tugum erlendra blaðamanna á sérstaka kynningu í herstöð í Tel Aviv. Þar var sýnt 45 mínútna langt safn myndskeiða frá deginum þegar Hamas-liðar réðust á almenna borgara í Ísrael. Tilgangur kynningarinnar var að sögn ísraelskra yfirvalda að vega upp á móti tilraunum til að afneita eða gera lítið úr þeim hryllilegu ofbeldisglæpum sem höfðu verið framdir. Myndskeiðin voru tekin úr farsímum, öryggismyndavélum, myndavélum bifreiða og úr GoPro myndavélum sem Hamas-liðar báru á sér. Meðal þess sem bar fyrir augu voru morð á heilu fjölskyldunum. Þannig eru dæmi um aftöku einnar fjölskyldu sem var streymt beint á facebook síðu eins fjölskyldumeðlimarins.gasa3

Eðli upplýsinganna fælir fjölmiðla frá eins og kom fram í þættinum Piers Morgan Uncensored þar sem breski fjölmiðlamaðurinn ræddi meðal annars við danska blaðamanninn Jotam Confino sem sagði að hann hefði ekki getað horft á myndefnið til enda. Augljóslega vilja Ísraelsmenn útskýra af hverju þeir taka málið af slíkri hörku en útskýringin er vandasöm.

Eyðilagði Hamas sögulegt tækifæri?

En hvað gekk Hamas til? Við blasir núna að árásin var skipulögð til að valda sem mestum hryllingi meðal almennings í Ísrael. Henni var stefnt alfarið að almennum borgurum meðal annars með það að markmiði að ná í gísla úr röðum þeirra. Vitað er að fyrir hvern gísl sem náðist að taka til Gaza fær sá Hamas-meðlimur sem það gerði íbúð og 10 þúsund bandaríkjadali í verðlaun.

Meira að segja ýmsir hliðhollir málstað Palestínumanna undraðist aðfarirnar. Sagnfræðingurinn kunni, Yuval Noah Harari, sagði í þætti hjá Rosemary Barton á CNN stöðinni að hryðjuveramenn Hamas hefðu augljóslega reynt að drepa eins marga og þeir gátu. Langtímamarkmið Hamas var hins vegar að stöðva allar viðræður Ísraela við arabaþjóðir sem sumar voru komnar vel á veg svo sem við Saudi-Araba, Marokkó, Barain, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sómalíu. Harari, sem er mjög gagnrýnin á stjórn Benjamins Netanyahu, segir að þarna hafi verið sögulegt tækifæri til að koma á eðlilegum samskiptum við hinn arabíska heim sem hefði getað komið af stað friðarferli milli Ísraela og Palestínumanna. Nú sé það allt fyrir bý. Hann sagðist óttast beitingu kjarnorkuvopna ef Hizbollah lætur verða af innrás frá Líbanon og Ísraelsmenn þurfi að verjast á mörgum vígstöðvum.

Tölur frá Hamas óáreiðanlegar

Eins og nefnt var í upphafi er erfitt að meta áreiðanleika upplýsinga sem berast af átakasvæðinu. Einu tölurnar sem berast um mannfall á Gaza koma frá heilbrigðisráðuneyti Hamas., Þar á bæ eru menn vitaskuld í yfirgír í áróðursstríðinu. „Ég hef ekki hugmynd um hvort að Palestínumenn séu að segja sannleikann um hversu margir eru drepnir. Ég er viss um að saklausir hafi verið drepnir og það kostar að heyja stríð,“ hafði The Guardian eftir Joe Biden forseti Bandaríkjanna fyrir stuttu og hann bætti við. „En ég hef ekki trú á fjöldanum sem Palestínumenn nefna.“gas4

Á fimmtudaginn sagði heilbrigðisráðuneytið í 212 blaðsíðna skýrslu að sprengjuárásir Ísraela á Gaza hefðu þegar banað 7.028 Palestínumönnum, og þar af væru 2.913 börn. Í skýrslunni eru tiltekin nöfn, kennitölur, aldur og kyn. Þetta mannfall hefði orðið á þeim næstum þremur vikum sem liðnar eru frá því Hamas drap um 1.400 Ísraela og rændi meira en 200 öðrum í árás sinni. Sem Hjálmtýr Heiðdal, talsmaður Íslands Palestínu kallar raunar „útrás“ Hamas-liða.

Tala látinna frá Hamas-reknu heilbrigðisráðuneyti er ekki treystandi, segir Luke Baker fyrrverandi yfirmaður Reuters í Miðausturlöndum. Hann sagði í samtali við dagblaðið Telegraph að gögn frá Gaza séu mjög vafasöm þar sem embættismenn, sem neita að hlíta samþykktum fjölda látinna að fyrirskipun Hamas, séu í lífshættu. „Tölurnar eru ef til vill ekki fullkomlega nákvæmar frá mínútu til mínútu,“ sagði Michael Ryan, hjá neyðaráætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, í samtali við AP fréttastofuna. „En þeir endurspegla að miklu leyti fjölda látinna og slasaðra,“ bætti hann við. Hvað sem því um líður er það blákaldur sannleikurinn að fjölmörg saklaus fórnarlömb gjalda fyrir þessi átök með lífi sínu. Ef til vill er það eitthvað sem hinir vellauðugu stjórnendur Hamas, sem búsettir eru í Katar, hefðu átt að taka með í reikninginn þegar þeir lögðu á ráðin um árásina á Ísrael.