c

Pistlar:

9. nóvember 2023 kl. 17:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Blóðbaðið í Sýrlandi og bandalag viljugra

Við fáum daglega tölur yfir fallna frá átökunum á Gaza. Hryllilegar tölur, sér í lagi þegar fjöldi látinna barna er birtur. Látum liggja milli hluta að þessar tölur koma frá aðilum nátengdum Hamas-samtökunum, sem sannarlega hófu þessi átök. Athygli vekur að í tölunum koma aldrei fram hve margir Hamasliðar eru fallnir. Eru það einungis óbreyttir borgarar sem farast núna? Tölurnar yfir fallna og særða eru eigi að síður ískyggilegar en þegar þetta er skrifað eru um 10.500 íbúar á Gaza látnir samkvæmt Hamas. Það er til viðbótar þeim 1400 Ísraelsmönnum sem voru myrtir þann, 7. október, auk þess sem 250 ísraelskir borgarar voru teknir gíslingu.

Sagnfræði er fyrirferðamikil í huga margra þegar reynt er að rýna í orsakir og afleiðingar átakanna fyrir botni Miðjarðarhafsins. Þarna er ríflega 2000 ára saga undir og hjaðningavígin gengið á víxl um árin. En við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann til að finna mannskæðar styrjaldir sem voru stærri en fengu minni athygli. Sum stríðin gleymdust um lengri eða skemmri tíma, önnur alveg.syr1

Um hálf milljón múslima féll í Sýrlandi

Hefjum yfirferðina í Sýrlandi en þar hófst borgarastyrjöld í kjölfar arabíska vorsins 2011. Lengi vel var lítið fjallað um stríðið þar. Síðast þegar voru átök milli Ísraela og Palestínumanna árið 2014 tók enginn eftir því vikum saman að á sama tíma var Bashar Hafez al-Assad forseti Sýrlands að murka lífið úr um 15 til 20 þúsund löndum sínum. Áætlaður heildarfjölda dauðsfalla í sýrlensku borgarastyrjöldinni er nokkuð á reiki eins og lesa má um á Wikipedíu. Þar sveiflast tala látinna á milli 503 þúsund og upp í um 613 þúsund, en þær tölur ná fram til mars 2023. Enn eru átök og hryðjuverk í landinu. Í lok september 2021 lýstu Sameinuðu þjóðirnar því yfir að þær hefðu skjalfest dauðsföll fyrir að minnsta kosti 350 þúsund „tilgreindra einstaklinga“ í átökunum sem áttu sér stað á milli mars 2011 og mars 2021. Um leið var varað við vantalningu og fæli í sér lágmarksfjölda fallina.

Skelfilegasta ár átakanna í Sýrlandi var 2015, þegar um 110.000 manns týndu lífi. Um miðjan mars 2022 greindu samtök stjórnarandstæðinga Syrian Observatory for Human Rights (SOHR) frá því að fjöldi barna sem létust í átökunum hefði aukist í 25.546 og að 15.437 konur hefðu einnig verið drepnar.

Aftökur án dóms og laga

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) birti upplýsingar á síðasta ári um að minnsta kosti 306.887 óbreyttir borgarar hefðu verið drepnir í Sýrlandi í átökunum sem stóðu á milli mars 2011 og mars 2021, eða um 1,5% íbúa landsins við upphaf stríð. Þessi tala innihélt ekki óbein dauðsföll sem þó má rekja til stríðsins. Samkvæmt GCR2P félagasamtökunum, er talið að að minnsta kosti 580 þúsund manns hafi verið drepnir fram til desember 2022. Um leið hafi 13 milljónir Sýrlendinga hrakist á vergang og 6,7 milljónir manna neyðst til að flýja Sýrland. Að sögn samtakanna hafa hersveitir stjórnvalda handtekið og pyntað mikinn fjölda fólks. Þá hafa fjölmargir verið teknir af lífi án dóms og laga. Árið 2015 var talið að um 200 þúsund pólitískir fangar hafi verið í Sýrlandi.

Blóðbaðið í Sýrlandi og ástandið þar var skelfilegt og enn ríkir þar skálmöld. Frá og með febrúar 2015 tilgreindi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna átökin í Sýrlandi sem „verstu mannúðarkreppu heimsins“, en yfirmaður nefndar Flóttamannastofnunarinnar í Sýrland sagði að sýrlensk stjórnvöld bæru ábyrgð á meirihluta mannfalls óbreyttra borgara. Samtökin Syrian Network for Human Rights áætla að sýrlensk stjórnvöld og erlendir bandamenn þeirra séu ábyrgir fyrir 91% alls mannfalls óbreyttra borgara.syr2

Viljugir bandamenn

Hverjir skyldu nú vera bandamenn sýrlenskra stjórnvalda? Jú, Baath-stjórn Sýrlands undir forystu Bashar al-Assad forseta hefur verið studd pólitískt og hernaðarlega af Íran og Rússlandi. Þá hefur hún einnig notið virks stuðnings frá Hezbollah hópnum í Líbanon sem nú ógnar norðurlandamærum Ísraels. Einnig hefur sýrlenski Palestínuhópurinn The Popular Front for the Liberation of Palestine (PFLP-GC) stutt Assad með ráðum og dáð. Fylkingin hefur engan sérstakan stuðning meðal Palestínumanna en hún hefur einnig hreiðrað um sig í Líbanon. PFLP-GC stóð fyrir fjölda árása á ísraelska borgara á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Má þar nefna Avivim skólarútuárásina í maí 1970 þar sem 9 börn og 3 fullorðnir féllu og árásina á Kiryat Shmona samyrkjubúið í apríl 1974 þar sem 18 voru drepnir, þar af 8 börn.

Margar þær fylkingar sem nú hafa hvað mest í heitingum við Ísraelsmenn eru blóðugar upp að öxlum eftir þátttöku sína í Sýrlands-stríðinu. Við getum velt fyrir okkur hvað þessir hópar gera í Ísrael ef varnir þar bresta, ef að annar dagur eins og laugardagurinn 7. október rennur upp. Það er sú sviðsmynd sem ísraelsk stjórnvöld fást við þó hún hafi farið framhjá íslenskum fréttaskýrendum, sem langflestir draga taum Hamassamtakanna. Fyrir þá sem ekki vita þá eru Hamassamtökin ekki innan PLO hópsins.syr3

Þjóðarmorð

Þá er eftir að nefna eitt af verstu óhæfuverkum Sýrlandsstríðsins en það átti sér stað í ágúst 2014 þegar hið svokallaða Íslamska ríki Íraks og Sýrlands (ISIS) réðist á minnihlutaþjóð Jasída sem bjó á svæðinu við Sinjar-fjalli í Nineveh-héraði í Írak. Talið er að um 400.000 Jasídar hafi búið þar fyrir blóðbaðið.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að meira en 5.000 Jasídar hafi verið drepnir og 7.000 stúlkur og konur neyddar í kynlífsþrælkun. Merk bók um þessa atburði, Síðasta stúlkan, endurminningar Nadiu Murad, kom út hér á landi árið 2019 og sagði sögu Jasída-stúlku sem lenti í kynlífsánauð. Drápin á Jasídunum fólust einfaldlega í aftökum á karlmönnum og drengjum. Nú hefur 81 fjöldagröf þegar fundist í Sinjar og talsmenn Jasída telja að þessar tölur séu of lágar og því sé vanmetið hvað þjóð þeirra þurfti að þola. Sumir telja að allt að 10.000 Jasídar hafi verið myrtir en þeir náðu aldrei sjálfir að snúast til varnar, rétt eins og Gyðingarnir í helförinni. Það var helst að Kúrdar gætu veitt þeim skjól en Obama-stjórnin svaf algerlega á verðinum þótt áköf áköll hefðu verið send til hennar þegar drápin hófust. Árið 2021 áætluðu Sameinu þjóðirnar að um 200.000 Jasídar væru enn á flótta frá heimilum sínum og 2.800 konur og börn væru en í haldi ISIS sem halda enn einhverjum svæðum í Írak.

Þessir atburðir eru taldir falla undir þjóðarmorð (e. genocide). Rannsóknarteymi Sameinuðu þjóðanna, sem ætlað er að koma lögum yfir þá sem frömdu glæpi í nafni Íslamska ríkisins Írak og tengdum svæðum hefur borið kennsl á 2.286 meinta gerendur þjóðarmorðsins, þar á meðal 188 erlenda bardagamenn. Margir vígamanna ISIS komu frá Vestur-Evrópu og sumir fóru aftur heim og reyndu að leynast þar.

Við erum minnt á það í þeim átökum sem eru nú á Gaza að Hamas-hreyfingin er marghöfða, í raun þarf sérfræðinga til að átta sig á hvað aðgreinir þessa íslömsku vígahópa. Ljóst er að margir þeir sem véla bak við tjöldin í baráttu Hamas eru með blóðuga sýrlenska fortíð.