Íslendingar standa frami fyrir einstakri atburðarás vegna eldvirkni á Reykjanesi. Flestir þekkja þá jarðsögu sem býr að baki og þær vísbendingar sem hún gefur okkur um framtíðina. Atburðarásin sem þarna er að raungerast gefur til kynna að við verðum að gera ráð fyrir þessu ástandi í mjög langan tíma, jafnvel árhundruð. Sú staðreynd knýr á um að við tökum ákvarðanir í skipulags- og mannvirkjamálum sem við vissum ekki að byðu okkar. Af efnahagslegum ástæðum verðum við að sína fyrirhyggjusemi en það eru ekki síður öryggissjónarmið sem skipta máli. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, sagði í samtali við Vísi um helgina að mögulega þurfi Íslendingar a að læra að lifa með þeim nýja veruleika að Reykjanesið væri „komið aftur í gang“. Við værum komin inn í nýtt eldgosatímabil. „Þessir atburðir geta endurtekið sig nokkuð oft á næstu nokkur hundruð árum,“ sagði Þorvaldur. „Reynslan segir okkur að þegar þetta fer í gang, fer allt í gang.“
Styrkja þarf Reykjavíkurflugvöll
Af þessu leiðir að allt er varðar mannvirki og búsetu á Reykjanesinu er nú til endurskoðunar. Það segir sig líklega sjálft að nýr flugvöllur rís ekki í Hvassahrauni þó að sumum reynist erfitt að jarða þá hugmynd sem var þó andvana fædd frá upphafi. Aðstæður núna kalla á að Reykjavíkurflugvöllur verði styrktur, í það minnsta svo hann sé vel starfhæfur næstu áratugi, einfaldlega vegna þess að við getum ekki verið án annars flugvallar hér á þéttbýlasta svæði landsins, svæði sem stendur í heild sinni frammi fyrir ógn sem kallar á algerlega nýja hugsun í skipulagsmálum eins og orð Þorvaldar benda til. Við getum fengið öskugos í sjó sem getur gert Keflavíkurflugvöll óstarfhæfan í einhvern tíma. Nú er skynsamlegt að hætta að þrengja að flugvellinum í Reykjavík og huga frekar að eflingu hans svo að hann dugi vel sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Í framtíðinni geta aðstæður breyst og hugsanleg annar flugvöllur hér á suðvesturhorninu tekið við sem varaflugvöllur. Þar er nærtækast að horfa á suðurlandsundirlendið þar sem fjöll ættu hvað minnst að trufla aðflug stórra véla. Samgöngur og skipulagsmál ættu að vera hugsuð með það í huga.
Mikilvægi Sundabrautar
En þegar talað er um að eldvirknin á Reykjanesinu kalli á endurmat í skipulagsáherslum þá verður að horfa til þess að sprungukerfi það sem er núna virkt nær alla leiðina uppá Hengilssvæðið. Það er því stórt svæði sem hér er undir og nýjustu atburðir sýna að ómögulegt er að segja til um hvert virknin leitar. Því er það svo, að skynsamlegt er að þróa byggð og þéttingu hennar í vestur og norður. Mikilvægi Sundabrautar verður enn meira núna og þó ekki væri nema vegna öryggisaðstæðna þá verður að flýta lagningu hennar. Á allt þetta var bent í pistli hér fyrir þremur árum. Þegar Grindavík var rýmd var hægt að bjóða upp á þrjár flóttaleiðir úr bænum. Við getum ekki sætt okkur við að Ártúnsbrekkan sé eina leiðin út úr Reykjavík.
Eins og margoft hefur verið bent á hér í pistlum er hægt að horfa til Sundabrautar sem byggðaþróunarverkefnis, byggðin getur þróast til austurs og norðurs og sjálfsagt að taka Geldinganesið undir byggð, jafnvel Viðey. En Sundabraut ásamt tvöföldun Hvalfjarðarganga gefur færi á mikilli uppbyggingu á Kjalarnesi og að lokum Akranesi. Eðlilegt er að beina stækkun hér á höfuðborgarsvæðinu þangað frekar en út á Reykjanesið.
Almennt þekkingarleysi
Ólafur G. Flóvens, jarðeðlisfræðingur og fyrrverandi forstjóri Íslenskra orkurannsókna, benti á í Facebook-færslu að hér ríki almennt þekkingarleysi á jarðfræði og menn gleymi að taka jarðfræðilega áhættu með í skipulagsvinnu. Hann segir að bestu dæmin um þetta séu hvernig byggð var sett á snjóflóðahættusvæði á síðustu öld. Hann vill ekki setja það á ábyrgð einhverra tiltekinna einstaklinga, frekar að um sé að ræða almennt þekkingarleysi.
Ólafur bendir á að því miður sé því víða lítið sinnt þótt almenn þekking hafi aukist á ákveðnum áhættuþáttum á síðustu áratugum, einkum snjóflóðahættu og jarðskjálftum. „En menn eru enn óþarflega sinnulausir um almennt öryggi samfélagsins eins og sjá má að lítið sem ekkert virðist hafa verið gert til að tryggja fullnægjandi orkuöryggi fyrir íbúa Suðurnesja þrátt fyrir augljósa ógn af vinnslustöðvun í Svartsengi sem hefur legið mjög skýrt fyrir síðan 2020,“ bendir Ólafur réttilega á. Við verðum að hætta að búa til skipulagslegan ómöguleika í kringum virkjanir og orkumannvirki. Atburðirnir á Reykjanesi sýna það glögglega.