c

Pistlar:

14. nóvember 2023 kl. 17:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gleymda stríðið í Jemen

Undanfarin áratug hafa einhver verstu og erfiðustu styrjaldarátök í heimi geisaði í Jemen, ríki sem er ríflega fimm sinnum stærra en Ísland, syðst á Arabíuskaganum. En þrátt fyrir fá stríð hafi leikið almenning jafn grátt og átökin í Jemen tala sumir um þetta sem gleymt stríð. Átökin hafa ekki verið í miðju heimsfréttanna og skýring á því er sú að hvorki Bandaríkin né Ísrael eiga aðkomu að þessum átökum. Þau eru alfarið á ábyrgð arabaheimsins, svo mjög að hægt er að tala um Jemen-stríðið sem staðgöngustríð (e.proxy war) þar sem höfuðandstæðingarnir eru Íran og Sádi-Arabía.jemen

Í Jemen búa ríflega 27 milljónir manna en landið hefur nú staðið frammi fyrir einhverri verstu mannúðarkreppu sem heimurinn hefur séð í áratugi. Stríði í Jemen er næstum því eins mannskætt og styrjöldin í Sýrlandi sem sagt var hér frá fyrir stuttu. Hundruð þúsunda manna hafa verið drepnir og milljónir hafa verið á vergangi eftir að Sádi-Arabía hóf beina hernaðarárás árið 2015 en í kjölfarið varð þetta fátækasta land arabaheimsins leikvöllur svæðisbundinna stórvelda. Sádi-Arabía telur uppreisnarmenn Hútífylkingarinnar, sem ráða yfir víðfeðmum hluta landsins, vera íranskan bandamann og því beina ógn við öryggi sitt. Sádar eru sem kunnugt er súnní-múslímar, sem eru mikill meirihluti múslíma í heiminum, og Íranar eru sjía-múslímar eins og fylgismenn Hútífylkingarinnar. Árið 1994 voru íslömsk lög (sharia) innleidd í Jemen sem hluti af stjórnarskrá landsins. 

Ringulreið arabíska vorsins

Segja má að Jemen sé enn eitt fórnarlamb arabíska vorsins, rétt eins og Sýrland og Líbýa. Frelsisbylgjan frá árinu 2011 leiddi að endingu til stjórnarkreppu í landinu sem vaxið hefur út í allsherjar borgarastyrjöld. Eins og víða annars staðar hófst þessi bylgja með mótmælum á götum úti þar sem fátækt, spillingu og atvinnuleysi var mótmælt. Ofan á ringulreiðina lýsti Ali Abdullah Saleh forseti landsins yfir afsögn sinni árið 2012. Þrátt fyrir að vera að mörgu leyti vondur stjórnandi færði hann landinu ákveðinn stöðugleika í kjölfar þess að hann varð fyrsti forseti landsins þegar Norður- og Suður-Jemen sameinuðust 1990. Spilling var allsráðandi en friður ríkti að mestu leyti, svona rétt eins og í Sýrlandi. En Saleh skynjaði ekki sinn vitjunartíma og vildi seinna breyta stjórnarskrá Jemen þannig að takmarkanir á tímalengd valdatíðar forseta væru afnumdar og gerast þannig forseti til lífstíðar. Eftir að það mistókst sagði Saleh af sér og Abdrabbuh Mansur Hadi tók við en hann var formlega kosinn forseti í febrúar 2012 enda einn í framboði.jemen2

Stigmögnun átakanna

En stöðugleikinn var fyrir bý og vopnuð átök í landinu mögnuðust upp meðal annars vegna þess hve óburðug öll stjórnsýsla landsins var meðan á valdatilfærslunni stóð. Átök stóðu milli Hútífylkingarinnar og Islah-hreyfingarinnar auk þess sem vígamenn frá Íslamska ríkinu og Al-Kaída höfðu sig í frammi. Í gruninn áttust hér við súnní-múslímar og sjía-múslímar og undirliggjandi voru hagsmunir Sádi-Araba og Írana. Hezbollah samtökin í Líbanon hafa einnig stutt Húta sem launuðu með að reyna að senda vanmáttuga árásardróna til Ísraels í núverandi átökum.

Í september 2014 hertók Hútífylkingin höfuðborgina Sana með aðstoð Salehs og lýstu sig lögmæta stjórnendur landsins. Saleh var myrtur af leyniskyttu í Sana í desember 2017. Allt þetta leiddi til stigmögnunar borgarastyrjaldarinnar og hernaðaraðgerðir Sádi-Araba í landinu jukust í kjölfarið en þeir fóru fyr­ir banda­lagi tíu ríkja, þeirra á meðal fimm ríkja við Persa­flóa. Stjórn­völd í Washingt­on upplýstu að Barack Obama hefði heim­ilað að Banda­rík­in veittu Sádi-Aröbum margvíslegan stuðning, þó án beinnar vopnaðrar íhlutunar.

Gríðarlegt mannfall

Sameinuðu þjóðirnar hafa áætlað að stríðið í Jemen hafi kostað 377.000 manns lífið fram í lok árs 2021, af beinum og óbeinum orsökum. Yfir 150.000 af þessum dauðsföllum voru bein afleiðing vopnaðra átaka, en mun fleiri hafa látist vegna hungurs og sjúkdóma vegna mannúðarkreppunnar sem stríðið veldur. Nærri 15.000 almennir borgarar hafa verið drepnir í beinum hernaðaraðgerðum, flestir í loftárásum bandalags undir forystu Sádi-Arabíu. Átökin hafa leitt til hungursneyðar hjá 17 milljónum manna. Skortur á hreinu drykkjarvatni vegna uppurinna vatnsbóla og eyðilegging innviða landsins hafa líka leitt til mesta kólerufaraldurs nútímans.

Í lok síðasta árs taldi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) að meira en 11.000 börn hefðu verið drepin eða limlest vegna átakanna í Jemen, eða að meðaltali fjögur á dag frá stigmögnun átakanna árið 2015. Þarna var aðeins um að ræða atvik sem hafa verið staðfest af SÞ, þá er þessi tollur vegna átakanna líklega mun hærri. Þrátt fyrir að vopnahléið sem SÞ hafði milligöngu um hafi leitt til þess að átökin hafi minnkað verulega, höfðu 62 börn til viðbótar verið drepin eða særð frá því að vopnahléinu lauk í byrjun október til loka nóvember á síðasta ári. Að minnsta kosti 74 börn voru meðal þeirra 164 sem létust eða slösuðust af völdum jarðsprengna og ósprunginna sprengja á tímabilinu júlí til september 2022 einum saman.

Nú þegar eru ríflega átta ár frá því að átökin stigmögnuðust þurfa meira en 23,4 milljónir manna, þar af 12,9 milljónir barna, á mannúðaraðstoð og vernd að halda, næstum þrír fjórðu allra íbúanna. Áætlað er að um 2,2 milljónir barna í Jemen séu bráðri hættu vegna vannæringar, þar af tæplega 540.000 börn undir fimm ára aldri sem þjást af alvarlegri bráðavannæringu og eiga í erfiðleikum með að lifa af.jemen3

Borgaraleg skotmörk

Þjáningar almennra borgara í herkví Hamas undir árás ísraelska hersins er í brennidepli heimsins núna. Samkvæmt Yemen Data Project hafði Sádi-Arabíu bandalagið framkvæmt 25.054 loftárásir í Jemen fram til loka mars 2022. Þar af voru um 28% á skotmörk sem greinilega voru auðkennd sem borgaraleg. Þar á meðal voru íbúðabyggðir, skólar og háskólar, sjúkrahús, markaðir, borgaraleg farartæki, moskur, verksmiðjur og fyrirtæki, mikilvægir innviðir, þar á meðal samgöngur og vatns- og orkumannvirki, íþrótta- og menningahús og býli og önnur landbúnaðarmannvirki.

Í loftárás Sádi-Araba á fjölfarið markaðstorg í Dayhan í ágúst 2018 dóu á milli 43 og 51 almennra borgara og 63 særðust. Flestir þeirra sem fórust voru börn, þegar skólabíllinn sem þau ferðuðust í varð fyrir sprengingunni. Börnin voru í vettvangsferð og heimsóttu kirkjugarð með helgidómum fyrir píslarvotta á staðnum. Staðfest er að sjúkrahús á staðnum á vegum Alþjóða Rauða krossins (ICRC) tók á móti líkum 29 barna eftir árásina.

Ekki var hægt að bera kennsl á um 39% skotmarkanna til viðbótar. Aðeins 32% skotmarka voru skilgreind sem hernaðarleg skotmörk. Óhætt er að segja að þremur árum eftir að stríðið fór af stað hafi landið verið í rúst og óbreyttir borgarar báru hitann og þungann af stríðinu. Sameinuðu þjóðirnar áætla að nærri þrjár milljónir barna séu án skóla í Jemen vegna yfirstandandi átaka, 3000 skólar hafa eyðilagst í árásunum og þriðjungi allra skóla í landinu lokað.

Með hnignandi hagkerfi þurfa mörg börn að finna vinnu til að aðstoða fjölskyldur sínar. Árið 2017 var stór hluti landsmanna í hættu vegna næringarskorts og hungurs, milljónir barna voru vannærð og fjöldi barna dó hreinlega.jemen4

Friður en kúgun

Þann 2. apríl 2022 samþykktu deiluaðilar tveggja mánaða vopnahlé. Þetta kom í kjölfarið á diplómatískum samskiptum Sádi-Arabíu og Írans, fyrir milligöngu Kínverja. Vopnahléið var endurnýjað tvisvar, en lauk í byrjun október fyrir ári. Þrátt fyrir að formlegu vopnahléi sé lokið hefur hernaður ekki hafist aftur af sama krafti, þó að stöku bardagar hafi haldið áfram. Sádí-Arabar slitu stjórnmálasambandi við Íran árið 2016 vegna deilunnar en samskiptunum var komið aftur á í apríl síðastliðnum.

Allir aðilar að átökunum hafa hvað eftir annað verið staðnir að alvarlegum mannréttindabrotum. Einkum hafa Hútar sýnt hörku og kúga almenning á svæðum sem þeir ráða yfir. Kvenréttindi hafa orðið fyrir miklum skaða, þar sem Hútar banna konum að ferðast án karlkyns „forráðamanns“. Þannig hefur kúgun hins borgaralegs samfélags aukist um allt land. Jemensku mannréttindasamtökin Mwatana for Human Rights hafa reynt að halda úti eftirliti og um leið kallað eftir erlendum afskiptum af þessum brotum en satt best að segja er heimurinn en heldur skeytingalaus um mannréttindabrot í Jemen, hvað sem veldur.

Þróunarhjálp Sameinuðu þjóðanna varaðri við þeim skelfilegu áhrifum sem stríðið hefur á þetta fátækasta ríki Miðausturlanda og ítrekað bent á að þar sé neyðin meiri en nokkurs staðar annars staðar. Neyðin hefur farið heldur vaxandi þó að vopnahléð veki smá vonir þó ótraust sé. Stofnunin spáði því í skýrslu fyrir tveimur árum að með sama framhaldi muni stríðið kosta um 1.300.000 mannslíf árið 2030, með beinum og óbeinum hætti.