c

Pistlar:

13. desember 2023 kl. 18:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fólksfjölgun og orkuskortur

Íslendingar fást við tvær mikilvægar sviðsmyndir um þessar mundir sem fara ekki vel saman og ef fer sem horfir munu lífskjör á Íslandi versna til muna. Hér er annars vegar átt við spá um orkuþörf og svo hins vegar spá um mannfjöldaþróun. Fólksfjölgun ein og sér kallar á aukna orku en gert er ráð fyrir að 5 til 10 MW þurfi til á hverju ári, einungis til að halda í horfinu og mæta fólksfjölgun og tilheyrandi kröfum í atvinnulífinu.virkjun

Eins og staðan er núna er fyrirsjáanlegur raforkuskortur í landinu, sem mun draga úr lífskjörum í framtíðinni og koma í veg fyrir boðuð orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti í umhverfisvæna orku. Þetta blasir við öllum og orsökin er skýr. Ástæðan er að ekki hefur verið virkjað nægilega mikið í fjölda ára, meðal annars vegna óskilvirkrar og lélegrar stjórnsýslu. Er nú svo komið að augljóslega hefur myndast nýr pólitískur meirihluti á Alþingi sem vill höggva á hnútinn og koma nýjum virkjanakostum í gegnum botnfrosið leyfiskerfi. Ef það verður gert er einsýnt að forstöðumenn þeirra stofnanna sem helst um véla er illa sætt áfram í stöðum sínum. Það væri þá nýr vitnisburður um að stjórnsýsluleg ábyrgð getur einnig náð til embættismanna. Hér hefur verið bent á komandi orkuskort í pistlum í langan tíma enda gat hver maður séð í hvað stefndi.

Tvær ónákvæmar spár

Hagstofan gaf í síðustu viku út mannfjöldaspá um að árið 2074, eftir 50 ár, yrðu Íslendingar 611 þúsund talsins. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins benti á að sagan sýnir að spálíkön Hagstofunnar hafa staðfastlega og stórkostlega vanmetið fólksfjölgun í landinu, sérstaklega eftir að útlendingum tók að fjölga svo ört á liðnum áratug. Þetta skiptir miklu þegar einnig má efast um spágildi Orkuspárnefndar sem er rekin undir hatti Orkustofnunar. Hvar erum stödd við ef hvorki mannfjöldaspá né orkuspá eru til þess að gefa okkur skynsamlega innsýn í hvað verður?virkjun2

Hafa verður í huga að árlegur vöxtur hins almenna markaðar á Íslandi hefur verið af stærðargráðunni 10-20 MW, án svokallaðra orkuskipta. Það er mjög bagalegt að þurfa að bíða í mörg ár eftir nýrri virkjun þegar markaðurinn kallar eftir auknu afli benti Eymundur Sigurðsson rafmagnsverkfræðingur á í grein í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Hann bendir á að þannig hafa glatast tækifæri til verðmætasköpunar fyrir komandi kynslóðir. Hér er rétt að hafa í huga að á yfirstandandi ári stefnir í að einungis ein 1,8 MW vindorkuvirkjun verði byggð! Það segir sig sjálft að það dugar engan veginn. Við vitum líka að það verða ekki reist fleiri álver eða stóriðjuver sem kalla á mikla orku. Það er hins vegar mikilvægt að halda þeim iðnaði sem þegar er til staðar og hefur skipt gríðarlega miklu við að byggja upp verðmæta þekkingu og starfsemi í orkufrekum iðnaði. Við eigum þegar fullhannaðar virkjanir og nú reynir á vilja löggjafans.

Að drepa málum á dreif

Andstæðingar virkjana gaslýsa gjarnan umræðuna og drepa málum á dreif. Ýmis eru rangir aðilar að kaupa orkuna eða það megi ná sparnaði fram með betri nýtingu. Nýleg skýrsla um að það sé hægt að spara um 8% í kerfinu með betri nýtingu segir ekkert til um kostnaðinn við að ná fram þessari nýtingu. Vissulega er sjálfsagt að sýna fyrirhyggju og sparsemi og það nær til bæði heita og kalda vatnsins auk rafmagnsins. En það breytir því ekki að krafa um áframhaldandi góð lífsskilyrði hér á landi byggist á því að til verði nægjanleg orka.