c

Pistlar:

15. desember 2023 kl. 15:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tölfræðingurinn og loftslagskirkjan

Stundum eiga fræðimenn innlegg í dægurmálaumræðuna sem vekur í senn athygli á málefninu sem um rætt en þó ekki síður umræðuhefðinni hér á landi. Grein dr. Helga Tómassonar, prófessors í hagrannsóknum og tölfræði, í Morgunblaðinu fyrr í vikunni var dæmi um þetta. Helgi er ekki daglegur gestur í íslenska umræðueldhúsinu en greinar hans vekja ávallt athygli, bæði vegna fræðilegrar aðferðar hans og einnig þess að nálgun hans gengur gjarnan gegn viðtekinni skoðun. Að þessu sinni ræðir Helgi loftslagsvísindi í tilefni nýafstaðins fundar COP28 í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Grein hans var skrifuð áður en niðurstaða fundarins lá fyrir.dub28

Óhætt er að segja að Helgi sé nokkuð gagnrýnin á tölfræðigrundvöll loftslagsvísindanna. Hann skrifaði meðal annars í greininni: „Skoðun á tímaröðum á veðurstofugögnum síðustu 200-300 ár sýnir að ekki er grundvöllur fyrir yfirlýsingum á borð við hamfarahlýnun allrar plánetunnar.“ Í grein sinni vitnar Helgi í fræðimennina John K. Dagsvik, Mariachiara Fortuna og Sigmund Hov Moen (How Does Temperature Vary Over Time?: Evidence on the Stationary and Fractal Nature of Temperature Fluctuations. Journal of the Royal Statistical Society Series A: Statistics in Society, Volume 183, Issue 3, June 2020). Í greininni taka þeir saman ítarlega lýsingu á þróun meðalhita í mánuði síðustu 200-300 ár á um 100 veðurstöðvum vítt og breitt um jörðina. Dagsvik er vísindamaður sem lengst af hefur starfað á Hagstofu Noregs, Moen rekur gagnagrunninn rimfrost.no, þar sem ýmsum gögum um m.a. hitastig og koltvísýring er safnað saman, og Fortuna er gagnasérfræðingur sem hefur lagað og leiðrétt gögnin frá rimfrost.no og safnað saman í gagnagrunn.

Í liði með fyrrverandi hagstofustjóra Ástralíu

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Helgi fjallar um loftslagsmál en fyrir tveimur árum kom grein hans, „Tölfræðilegt sjónarhorn á skýrslur IPCC“. Þá benti Helgi meðal annars á að um eldri skýrslu IPCC hafi tölfræðidoktorinn og fyrrverandi hagstofustjóri Ástralíu, Dennis Trewin, gert alvarlegar athugasemdir strax árið 2008 í OECD-skýrslu í kafla 32: Gagnrýni Dennis Trewins gekk út á að því miður hafi vantað tölfræðinga í sérfræðingateymi IPCC. Útkoman innihaldi því alvarlega galla. Þessir gallar séu til þess fallnir að ýkja loftslagsbreytingar framtíðarinnar hefur Helgi eftir Trewin.

Þessi nýjasta grein Helga vakti athygli en ekki síður viðtal sem hann fór í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni skömmu eftir birtingu greinarinnar. Fyrirsögn viðtalsins var: „Engin hamfararhlýnun í gangi.“ Ríkisútvarpið hefur ekki rætt við hann sem er staðfesting þess að hann gengur gegn viðteknum skoðunum. Stundum er orðið „loftslagskirkja“ notað um þá sannfæringu margra að umræðu um orsakir og ástæður loftslagsbreytinga af mannavöldum sé í raun lokið. Í raun sé aðeins eftir að taka ákvörðun um hvernig brugðist verði við afleiðingunum. Um þetta séu 99% vísindamanna sammála eins og þáttagerðakona í Reykjavík síðdegis benti Helga á og „að allar rannsóknir sem sýni eitthvað annað séu bara illa gerðar og illa hannaðar.“ Helgi svaraði því til að hann hefði aldrei séð þessi 99% og rifjaði upp að eins og saga HC Andersen hefði sýnt þá þurfti bara einn strák til að sýna að keisarinn væri nakinn!dub282


„Rausið“ í Helga

En margir hafa brugðist illa við skrifum og ummælum Helga og þá sérstaklega þeir sem skrifa á Facebook-hópinn, Loftslagsbreytingar - umræða og fréttir. Óhætt er að segja að umræðan þar sé Helga ekki vinsamleg enda nálgun hans villutrú eða eins og Geir Guðmundsson verkfræðingur bendir á þá telja þeir að ríki „stórkostleg gleði hjá íslenskum loftslagsafneiturum yfir að loksins sé komin "vísindaleg sönnun" á því sem þeir hafa alltaf vitað, að það sé engin hlýnun í gangi.“ Sveinn Atli Gunnarsson, ritstjóri vefsins loftslag.is, segir hugleiðingar Helga „sprenghlægilegar“ á köflum. Einar Karl Friðriksson efnafræðingur segir „ástæðulítið að taka mark á óhefðbundnum og órökstuddum hagfræðitilgátum frá slíkum manni með því að bjóða honum í útvarpið,“ og kallar grein Helga „raus“. Aðrir þátttakendur í þessari umræðu gagnrýna Bylgjuna fyrir að taka Helga í viðtal og grein hans sé vitnisburður um lágkúru Morgunblaðsins. Óhætt er að segja að í fáum bergmálshellum sé hljómburðurinn skýrari og meira eintóna. Um leið er því haldið fram að þeir John K. Dagsvik, Mariachiara Fortuna og Sigmund Hov Moen hafi allir verið gerðir afturreka með rannsóknir sínar.

Fleiri afneitunarsinnar

Al Gore var lengi vel eini maðurinn sem hafði fengið Nóbelsverðlaunin fyrir loftslagsmál en Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, gerði grín að Al Gore, varaforseta sínum, og sagði að þegar aðrir finndu vor í lofti segði Al Gore það vera sönnun fyrir hlýnun jarðar! Um áhrif loftslagsbreytinga gildir síður en svo sátt meðal Nóbelsverðlaunahafa. Hér hefur áður verið rifjuð upp afstaða Norðmannsins Ivar Giæver sem fékk nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1973 vegna rannsókna í skammtafræði á hálfleiðurum og ofurleiðni. Giæver hefur ítrekað lýst efasemdum sínum um hlýnun jarðar og kallað umræðu um hana „ný trúarbrögð“. Þann 13. september 2011 sagði Giæver sig úr Samtökum amerískra eðlisfræðinga (American Physical Society) vegna afstöðu sinnar. Á samkomu nóbelsverðlaunahafa 1. júlí 2015 hélt hann ræðu sem eftir var tekið. Gagnrýni hans er af margvíslegum toga, allt frá því hvernig mælingar á breytingum hitastigs hafa átt sér stað yfir í þær ályktanir sem af þeim hafa verið dregnar. Á Youtube má finna nokkra áhugaverða fyrirlestra Ivars Giæver.

Það er vandamál innan þessa umræðuheims að þeir sem eru ekki innan loftslagskirkjunnar eru gjarnan ásakaðir fyrir að vera annað hvort launuð handbendi olíuiðnaðarins eða hreinlega loftslagsafneitunarsinnar. Það hafa verið örlög ástralska jarðfræðingsins Ian Plimer sem var prófessor í jarðfræði námuvinnslu við háskólann í Adelaide og prófessor emeritus í jarðvísindum við háskólann í Melbourne þar sem hann var prófessor og yfirmaður jarðfræðideildar 1991 til 2005. Hann hefur unnið til margra alþjóðlegra verðlauna fyrir vísindi og hefur tvisvar hlotið Eureka-verðlaunin. Hann er höfundur bókarinnar Heaven and Earth: Global Warming - The Missing Science, gefin út af Connor Court Publishing. Plimer hefur eins og hagstofustjóri hans sagt um spár IPCC: „Hver einasta spá sem þeir hafa gert hefur verið röng... Þær hafa enn ekki, eftir 30 ár, sýnt okkur að CO2 losun manna knýr hlýnun jarðar. Þetta hefur verið stanslaus áróðursherferð í 30 ár.”dub283

Ekki hluti af 99 prósentunum

Auðvitað er til stór hópur vísindamanna sem orðar efasemdir gagnvart loftslagskirkjunni þó fráleitt sé að kalla það afneitunarsinna. Það hefur sínar vísindalegu efasemdir um margt sem þar er haldið fram undir formerkjum viðtekinna skoðanna (concencus). Vísindamenn eins og Judith Curry, William Happer, Richard Lindzen, John Christy og Roy Spencer eru þar á meðal. Allt fólk með farasælan akademískan feril en er nú á eftirlaunaaldri og hefur haldið uppi málefnalegum athugasemdum við málflutning ýmissa aðgerðasinna. Að hluta til snýst þetta um afstöðu til vísinda og hvernig þeim er beitt. Fleiri mætti nefna eins og Lennart Bengtsson en hann er sænskur veðurfræðingur. Rannsóknir hans hafa beinst að loftslagsmálum, öfgaviðburðum, loftslagsbreytileika og fyrirsjáanleika loftslags. Hann gaf út bókina Hvað verður um loftslagið? (Vad händer med klimatet) fyrir tveimur árum þar sem hann orðar efasemdir sínar. Umsögn um hann á Wikipedíu sýnir glögglega þau vandamál sem vefurinn á við að glíma en aktívistar nota hann gjarnan til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Þá er ástæða til að geta Björns Lomborgs, doktors í stjórnmálafræði frá Kaupmannaháskóla. Hann er fyrrverandi forstjóri Umhverfismatsstofnunar danska ríkisins í Kaupmannahöfn og stýrir nú Kaupmannahafnarhugveitunni en greinar eftir hann birtast meðal annars reglulega í Morgunblaðinu. Hann varð alþjóðlega þekktur fyrir metsölubók sína The Skeptical Environmentalist (2001). Þar sagði hann að mörg umhverfismál séu ofmetin og var fyrir vikið gagnrýndur víða. Árið 2002 stofnuðu Lomborg og Umhverfismatsstofnunin Kaupmannahafnarhugveitunni (Copenhagen Consensus). Árið 2004 var hann skráður einn af 100 áhrifamestu mönnum Time. Fyrir ári síðan birtist í Morgunblaðinu grein eftir Björn og Jordan B. Peterson, prófessor emeritus við Toronto-háskóla, þar sem þeir leitast við að útskýra algert árangursleysi í loftslagsmálum, meðal annars með tilliti til háleitra markmiða á heimsráðstefnum. Það er kjarninn í gagnrýni Björns, forgangsröðun fjármuna sé röng og of miklum fjármunum varið í að berjast við loftslagsbreytingar, en of litlum í að bæta líf fólks.

Í þessari hugleiðingu um efasemdamann mætti allt eins nefna William D. Nordhaus, frá Yale University, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2018 fyrir að innleiða langtímahugsun í loftslagsmálum og tengja það við hagfræðikenningar. Hann hefur að hluta til skipt um skoðun. Þó að loftslagsvísindamenn vari við því að loftslagsbreytingar gætu verið skelfilegar fyrir efnahag heimsins, fullyrðir Nordhaus í dag að þær muni fráleitt vera eins skaðlegar og sumir telja.

Má vera að sannleikurinn sé þarna einhversstaðar mitt á milli. Loftslagsmódelin eru gríðarlega flókin og hljóta alltaf að kalla á athugasemdir sérfræðinga eins og Helga. „Heimurinn mun ekki farast ef hann hlýnar um meira en 1,5 gráður,“ sagði Jim Skea, í júlí síðastliðnum, þá nýkjörinn formaður milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), í samtali við þýska dagblaðið Der Spiegel. „Það mun hins vegar verða hættulegri heimur,“ bætti hann við. Skea er þekktur fyrir að hafa bjartsýnna viðhorf til loftslagsbreytinga en margir af starfsbræðrum hans. En orð hans minna samt á að margir vísindamenn hafa orðað efasemdir sem eru á skjön við marga þá spádóma sem taldir eru vísindalega sannaðir, eru formaðar inn í niðurstöður og skýrslur IPCC og fá síðan pólitíska helgun í stjórnmálum samtímans. Það ættu fleiri að hafa í huga.