c

Pistlar:

20. desember 2023 kl. 12:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Eldsumbrot og neyðarréttur

Gosið á Reykjanesi var ekki búið að standa lengi þegar flugumferðastjórar höfðu afturkallað allar verkfallsboðanir og ólíklegt að kröfur þeirra verði að veruleika á meðan á eldgosinu stendur. Af hverju svona snögg breyting? Jú, öllum má vera ljóst að þegar svo skyndilega verður gerbreyting á forsendum flugrekstrar þá er heldur tilgangslítið að halda í kröfur sem fáir höfðu innsýn í eða skyldu yfirhöfuð. Gosmökkurinn gerði ástandið heiðskýrt, eins mótsagnakennt og það er. Í raun má segja að einhverskonar neyðarréttur (force majeure) hafi tekið yfir og allar forsendur breyttust. Ekkert er eins og áður var en hve langvinnar verða breytingarnar og hvaða áhrif hafa þær á afstöðu almennings til ýmissa stefnumarkandi ákvarðanna. Fær neyðarrétturinn fólk kannski til að hugsa skýrt?eldgos

Eldgosið skapar algerlega ófyrirséðar aðstæður og tekur að hluta til völdin af okkur mannfólkinu. Upphafskraftur gossins var ógnvekjandi og við þannig minnt á hve máttlítil við getum verið gagnvart náttúruöflunum ef við höldum ekki vöku okkar. Eigi að síður verðum við að reyna að undirbúa okkur og taka skynsamar ákvarðanir. Um leið er ýmsu sem áður var talið mikilvægara en annað vikið til hliðar, svo sem verkfallsrétti flugumferðarstjóra. Svo vildi til að í umræðuþættinum Silfrinu, sem var einmitt í loftinu þegar gosið hófst, var rætt um þann möguleika að kalla Alþingi saman og setja lög á flugumferðarstjóra. Margt bendir til þess að slík lagasetning hafi verið í bígerð þó margir eigi erfitt með að viðurkenna það. Fæstir stjórnmálamenn eru svo kjarkmiklir að þeir segi það sem þeir meina umbúðalaust. Hugsanlega halda þeir að kjósendur þoli það ekki, en þeir vita það ekki því þeir hafa ekki prófað það. Aðrir drekkja hugsun sinni í málþófi eins og ræðukóngur Alþings.

Nýtt mat á aðstæðum

En þessir atburðir og þær ákvarðanir sem þeir kalla á sýna glögglega hve skjótt hlutirnir geta breyst og þá um leið dregið fram algerleg nýtt mat á aðstæðum og þörfum samfélagsins. Risavaxnir varnargarðar hafa þegar risið á Reykjanesi í von um að vernda nauðsynlega innviði og þá er lögum um umhverfismat vikið snarlega til hliðar en þau hafa stundum tafið nauðsynlegar framkvæmdir um áratugi. Er svo komið að lagaflækjan ýttir undir ákvarðanafælni embættismanna sem standa kannski ekki of traustum fótum í fræðunum. Þegar opinberir embættismenn heykjast á því að taka ákvarðanir með öllum þeim biðleikjum sem opinber stjórnsýsla leyfir þá er eins og tíminn stöðvist.

Við vitum ekki hvernig varnargarðarnir reynast en það er án efa fyrirhafnarinnar virði að reyna að reisa þá. Líklega þarf að halda áfram að byggja slíka garða. Vonandi eru fleiri en jarðfræðingarnir að læra af framvindu gossins. Stjórnvöld og almannavarnayfirvöld verða líka að þróa með sér þekkingu jafnóðum og jarðeldunum vindur fram enda ekkert sem bendir til þess að þeim sé að ljúka í bráð.eldvarn

Kyrrstaðan í orkuöflun rofin

Hér fyrir stuttu var bent á að eldsumbrotin kalla á algert endurmat á byggðaþróun hér á suðvesturhorninu. Við verðum að horfast í augu við að það getur verið erfitt að fylgja eftir öllum þeim uppbyggingaráformum sem eru á Reykjanesi. Um leið verðum við að tryggja að flugsamgöngur til og frá landinu séu traustar. Það segir okkur að það þarf að halda í Reykjavíkurflugvöll mikið lengur, huga að nýjum varaflugvelli og þróa byggð til vesturs og norður á höfuðborgarsvæðinu. Um leið þarf að efla sveitarfélög á Suðurlandi og styrkja innviði þar þannig að fólksfjöldaþróun beinist þangað í framtíðinni.

En mest um vert er að rjúfa kyrrstöðu í orkuframkvæmdum. Við getum misst út mikilvæg orkumannvirki á Reykjanesi og því þarf að hefjast handa við virkjanir sem eru fullhannaðar og ljúka uppbyggingu dreifikerfisins svo unnt sé að tryggja hámarksafkastagetu orkukerfisins. Miðað við hvernig ástandið er núna er ekki eftir neinu að bíða.