c

Pistlar:

21. desember 2023 kl. 18:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Arabíska vorið og öfgaíslam í Líbýu

Í september síðastliðnum urðu einhverjar mestu hamfarir í manna minnum í Líbýu við sunnanvert Miðjarðarhafið þegar lægðarkerfi sem fékk nafnið Daníel gekk yfir. Eftir mikið úrhelli brast hálfrar aldar gömul stífla við bæinn Derna í austurhluta Líbýu og stór hluti bæjarbúa fórst. Enn eru ekki áreiðanlegar tölur til um fjölda þeirra sem fórust en eftirmálin hefur dregið fram það fullkomna stjórnleysi sem ríkir í landinu þar sem þau yfirvöld, sem enn finnast, eru algerlega vanhæf og erlent hjálparstarf geldur þess á meðan íbúarnir þjást. Líklegt er að álíka margir hafi látist vegna flóðanna og eru nú fallnir á Gaza-svæðinu.libía

Þegar hamfarirnar skullu yfir var fyrsta yfirlýsing Kais Saied, núverandi forseta nágranaríkisins Túnis, að kenna gyðingum um. Á ríkisstjórnarfundi 18. september, nokkrum dögum eftir hamfarirnar, benti hann á að það kæmi ekki á óvart að stormurinn bæri nafn spámanns gyðinga eða Daníel. Saied sagði það enga tilviljun heldur væri þetta staðfesting þess hve djúp áhrif síonista væru á hug og heila!

Íbúar Líbýu þurftu sárlega á hjálp nágranna sinna og alþjóðasamfélagsins en fengu í staðinn talsvert af slíku andgyðingslegu rugli. Já, gyðingar eru vinsæll blóraböggull í ríkjum íslam enda telja þeir sér ekki vært í þessum löndum. Skautun samfélaganna eykst og ástandið verður viðkvæmara.

Austurhluta Líbýu er nú stýrt af stríðsherra að nafni Khalifa Haftar og hann hefur fyrst og fremst hugsað um að hygla frændum sínum og reynst ófær um að styðja við nauðsynlegar björgunaraðgerðir. Ofan á allt er Líbýa nú helsti flutningsstaður flóttamanna og farandfólks sem reyna að komast sjóleiðina til Evrópu. Hlutskipti þessa flóttafólks er hræðilegt en það er í senn fórnarlömb þrælasala og annarra skipulagðra glæpahópa en meðfylgjandi mynd er tekin í sérstöku búðum fyrir þessa flóttamenn í Líbýu.libiaref

Ættbálkaþjóðfélög arabaheimsins

Vesturveldin bera mikla ábyrgða á ástandinu í Líbýu í dag en það reyndist ekki góð ákvörðun að hrekja Muammar Abu Minyar alGaddafi (1942-2011) frá völdum árið 2011. Þrátt fyrir að hann væri einn þaulsætnasti einræðisherra heims þá var hann sameiningarafl í landi sem var sundrað í kjarnann, rétt eins og Saddam Hussein var í Írak og fegarnir Hafez og Bashar Hafez al-Assad reyndu að vera í Sýrlandi, í það minnsta framan af.

Þessi lönd eru í grunninn ættbálkaþjóðfélög og hafa litla sem enga forsendu fyrir lýðræðislegu þjóðskipulagi auk þess sem trúarklofningur súnníta og sjíta magnar upp óeininguna. Tilraun Bandaríkjamanna til að koma á lýðræði í þessum löndum var dæmd til að mistakast eins og við erum stöðugt minnt á. Eina ríkið í Miðausturlöndum, sem getur talist lýðræðisríki, er þrátt fyrir allt Ísrael. Palestínskir ríkisborgarar í Ísrael hafa haft kosningarétt í ísraelskum kosningum frá fyrstu kosningum í Ísrael árið 1949 og njóta því meiri lýðræðislegra réttinda en flestir trúbræður þeirra.

Á streymisveitunni Netflix má nú sjá stórmyndina um Arabíu-Lawrence (1888-1935) sem var best þekktur fyrir aðkomu sína í hernaðaraðgerðum Breta í Sínaí og Palestínu og uppreisn Araba gegn Tyrkjaveldi í fyrri heimsstyrjöldinni. Myndin er frá árinu 1962 og stórfengleg um margt en dregur skýrt fram sundurlindi ættbálka og þjóða á þessum slóðum en helsta afrek Arabíu-Lawrence var einmitt að sameina Araba gegn Tyrkjum sem skipti miklu um gang styrjaldarinnar þarna. Hertakan á Damaskus var mikilvæg á þeim tíma en er lýst með kostulegum hætti í myndinni en þar er gert grín að sundurlindi Araba.gadda

Límið í einræðisherrum

Gaddafi var aðeins 27 ára þegar hann hrifsaði til sín völdin í herforingjabyltingu í Líbýu árið 1969 og sat á valdastóli eftir það. Í upphafi var hann staðráðinn í að stýra landinu í samræmi við byltingarkenningar marxista. Níu-tíundu Líbýu eru eyðimörk en landið er auðugt af olíu og Gaddafi hafði því nægt fé milli handanna til að fjármagna ýmis gæluverkefni, svo sem að styðja byltingahópa og hryðjuverkamenn. Hann var því lengi álitinn vandræðabarn í arabaheiminum. Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, sá sig tilneyddan til að fyrirskipa loftárásir á Trípólí, höfuðborg Líbýu, árið 1986 vegna stuðnings Gaddafís við hryðjuverkamenn og mátti þá litlu muna að Gaddafi léti lífið. Síðar var Gaddafi sakaður um að hafa stutt við bakið á hryðjuverkamönnunum sem sprengdu flugvél Pan Am-flugfélagsins yfir Lockerbie í Skotlandi árið 1988 en 270 manns létust í ódæðinu. Seinna snérist Gaddafi hugur og vildi friðmælast við Vesturlönd og fordæmdi opinberlega árásirnar á New York og Washington og sagði þær „hræðilegar og skaðlegar“.

Þessar ímyndaraðgerðir Gaddafis hófust fyrir alvöru árið 1997. Þá rak hann hryðjuverkamanninn Abu Nidal og samtök hans á brott frá Líbýu en Nidal var sagður hafa mörg hundruð líf á samviskunni eftir langan hryðjuverkaferil. Hann leitaði a’ lokum skjóls hjá Saddam í Írak. Gaddafi reyndi einnig að kveða niður samtök íslamskra harðlínumanna í Líbýu, meðal annars samtök manna sem börðust við hlið Osama bin Ladens sem talin var bera ábyrgð á hryðjuverkunum í Bandaríkjunum. Segja má að allt frá árinu 1999 hafi Gaddafi snúið baki við „arabískum sósíalisma“ og þess í stað hafið umbætur efnahagsmálum, meðal annars með einkavæðingu og um leið reynt að bæta samskiptin við vesturveldin og samstöðu milli Afríkuríkja. Gaddafi gerði framan af tilkall til þess að vera leiðtogi innan Arabaheimsins en síðar gerði hann minna af því hlutast til um málefni nágrannalanda Líbýu og var þess í stað farin að byggja skóla og sjúkrahús og hætti að eyða peningum í hryðjuverkasamtök. Það er engin ástæða til að gylla stjórn Gaddafis því eins og kom fram í bókinni Í landi karlmanna eftir Hisham Matar þá ríkti ógnaröld undir hans stjórn.

Arabíska vorið og öfgaíslam

En arabíska vorið náði líka til Líbýu og árið 2011 brutust út mótmæli gegn víðtækri spillingu og atvinnuleysi í austurhluta landsins. Óeirðirnar leiddu til borgarastyrjaldar og Atlantshafsbandalagið ákvað að grípa inn í til stuðnings andstæðingum Gaddafi, meðal annars með stuðningi Jóhönnustjórnarinnar hér heima sem frægt var. Stjórninni var steypt af stóli og Gaddafi flúði til Sirte en var handsamaður þar og drepinn af uppreisnarmönnunum í framahaldi þess.

Eftir á að hyggja fylgdi ákveðin stöðugleiki Gaddafí og eftir dauða hans tók óöld við og ári síðar var John Christopher Stevens, sendiherra Bandaríkjanna í Líbýu, og þrír aðrir drepnir í árás múgs manna á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í Benghazi. Þá var orðið ljóst að íslamskir öfgahópar voru komnir með veruleg völd í landinu og kynntu undir átök staðbundinna vígahópa. 

Flóðin í september síðastliðnum sýna vel bjargaleysi almennings í Líbýu en öll þessi saga dregur líka fram hve hrapalega Vesturlönd hafa greint ástandið í Líbíu, sem eftir stutt frelsisvor hefur dregist inn í ringulreið trúarofstækis og ættbálkaóeirða eins og er því miður dæmigert fyrir þennan heimshluta. Eina sem sameinar Líbýumenn og önnur Arabalönd á svæðinu er hatur á Ísrael og Vesturlöndum.