c

Pistlar:

29. desember 2023 kl. 10:05

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjávarútvegurinn: Stöðugleiki og farsæld

Flestir sem horfa á íslenskan sjávarútveg af hlutlægni og sanngirni sjá að margt hefur tekist vel. Þar má nefna að sköpuð hefur verið einkar góð lagaleg umgjörð utan um fiskveiðar og segja má að með innleiðingu aflamarkskerfisins og framsali veiðiheimilda hafi stjórnvöld lagt grunninn að uppbyggingu og velgengni íslensks sjávarútvegs. Þetta er staðreynd en á þessu hafa menn hins vegar margar skoðanir. „Það er eðlilegt að reglurnar séu landsmönnum hugleiknar og viðbúið að í áranna rás séu gerðar ýmsar minni háttar breytingar og betrumbætur á kerfinu, en brýnt er að missa ekki sjónar á því hversu mikilvægt það er fyrir sjávarútveginn, og um leið fyrir hagsæld í landinu, að sem mestur stöðugleiki og fyrirsjáanleiki sé til staðar.“fiskur

Þessi orð eru höfð eftir Hrefnu Karlsdóttur í Morgunblaðinu í byrjun mánaðarins en Hrefna er með doktorsgráðu í hagsögu frá Gautaborgarháskóla en þar rannsakaði hún fyrstu samningaviðræðurnar sem gerðar voru á á vettvangi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Frá árinu 2017 hefur Hrefna starfað sem sérfræðingur hjá SFS þar sem hún vinnur einkum að málum er varða fiskveiðistjórnun og samninga við erlend ríki, en hún var áður hjá Hagstofu Íslands, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og Fiskistofu. Hrefna hefur því bæði vegna menntunar og reynslu mikla þekkingu á íslenskum sjávarútvegi en það er kannski tímanna tákn að þetta er í fyrsta sinn sem pistlaskrifari sér fjölmiðil ræða við hana um þessi mál.

En gefum Hrefnu orðið: „Við búum í dag við kerfi sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu og skapar hvata til að hámarka þau verðmæti sem hægt er að gera úr takmarkaðri en endurnýjanlegri auðlind. Íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum gengur vel að selja afurðir á erlendum mörkuðum þrátt fyrir mjög harða samkeppni, og það er brýnt að skilja að árangur greinarinnar er ekki eitthvað sem gerðist af sjálfu sér, heldur er hann afrakstur langtímaþróunar sem hófst á 9. áratugnum,“ útskýrir Hrefna í Morgunblaðsviðtalinu. Í dag er það svo að margir skilja ekki það samkeppnisumhverfi sem íslenskur sjávarútvegur þarf að glíma við eins og rætt var um hér í pistli fyrir ári síðan. Hvernig má það til dæmis vera að Rússafiskur streymir inn í vinnslur í Póllandi í miðju viðskiptabanni á Rússland?lodna

Lykilinn að langtímahugsun

En hagsögufræðingurinn Hrefna bendir á mikilvæga þætti í þróun aflamarkskerfisins. „Þó að aflamarkskerfi hafi verið komið á þá er það fyrst þegar veiðiheimildir verða framseljanlegar í upphafi 10. áratugarins að hægt er að ráðast í nauðsynlega hagræðingu og auka skilvirkni og algjör viðsnúningur varð frá því sem áður var, þegar tap var á bæði veiðum og vinnslu, en á sama tíma var dregið úr veiðiálagi á þorskinum. Það tók þó áratug þar til að afkoma í greininni varð betri og enn lengri tíma að byggja upp þorskstofninn, okkar mikilvægasta fiskstofn. Þau tryggu fiskveiðiréttindi sem felast í kerfinu eru lykillinn að því að skapa langtímahugsun í sjávarútvegi sem ég held að sé einnig mikilvæg forsenda fyrir því að þegar byggja þarf upp fiskstofn með mögulega skerðingu í aflamarki – sem tekur á í rekstri fyrirtækja – þá skiptir máli að þeir sem taka á sig skerðinguna viti að þegar árangur slíkra aðgerða skilar sér þá fái menn skerðinguna til baka.“

Hrefna ítrekar að trygg fiskveiðiréttindi og sá fyrirsjáanleiki sem felst í þeim sé algjör forsenda fyrir því að hægt sé að skipuleggja starfsemi innan sjávarútvegsins. „Til að mynda fjárfestingar sem hafa orðið í betri skipum og bættri vinnslutækni sem aftur hafa leitt til aukinnar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni á mörkuðum. Það er fjárfest í gæðum og hagkvæmni, ekki auknum afla.“fisksala

Samkeppnin við Norðmenn

Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvar greinin væri stödd í dag ef ekki væri fyrir þessar fjárfestingar? Hrefna segir við blaðamanna Morgunblaðsins að það sé mjög áhugavert að bera íslenskan sjávarútveg saman við sjávarútveg annarra þjóða. „Norskur sjávarútvegur er nærtækt dæmi, og veiðar Norðmanna á þorski alveg sérstaklega, en eins og margir vita þá fer stór hluti af þorskafla Norðmanna til vinnslu í Kína og þaðan á markaði á Vesturlöndum. Við erum að keppa við afurðir sem eru unnar í löndum þar sem laun eru lág, því skiptir svo miklu máli að íslenskur sjávarútvegur geti verið samkeppnishæfur á sama tíma og við vinnum fiskinn hér heima. Það að fyrirtæki hafi getað fjárfest í nýrri vinnslutækni hefur skapað okkur forskot í þessum efnum. Við þurfum hins vegar sífellt að vera að bæta okkur og þróa til að halda þessu forskoti og samkeppnishæfni okkar,“ segir Hrefna.

Ávinningurinn birtist á ýmsa aðra vegu og nefnir Hrefna að fyrirkomulag fiskveiða á Íslandi hjálpi til að stuðla að stöðugleika í atvinnu í sjávarútveginum. „Á Íslandi eru flest störf í sjávarútvegi heilsársstörf, ólíkt því sem þekkist í mörgum nágrannalöndum okkar þar sem algengt er að vinna í kringum fiskveiðar og -vinnslu sé árstíðabundin. Þá hefur tæknivæðing greinarinnar líka breytt eðli þeirra starfa sem unnin eru í sjávarútvegi: Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru í auknum mæli að ráða til sín sérhæft og menntað starfsfólk.“

Nýsköpun og hliðarafurðir úr sjávarútvegi

Hrefna segir heldur ekki mega gleyma samstarfi sjávarútvegsins og annarra greina, til dæmis áralöngu samstarfi sjávarútvegsfyrirtækja og iðnfyrirtækja í þróun vinnslu- og tæknibúnaðar fyrir skip og fiskvinnslur. Nýsköpunarfyrirtæki hafi líka nýtt hliðarafurðir úr sjávarútvegi með frábærum árangri og nægir þar að nefna nýsköpunarfyrirtækin Kerecis og Primex.

„Þá hefur það sýnt sig að öflugur sjávarútvegur reynist hagkerfinu ómissandi stoð þegar á móti blæs. Við sáum það til dæmis gerast í bankahruninu, og aftur í kórónuveirufaraldrinum, sjávarútvegurinn er hryggjarstykki þjóðarbúsins,“ útskýrir Hrefna. „Greininni tekst jafnframt að standa af sér hvert áfallið á fætur öðru, og laga sig að breyttum aðstæðum frá ári til árs.

Það var til dæmis verulegur skellur þegar Rússlandsmarkaður lokaðist á sínum tíma, en sjávarútvegurinn tókst á við vandann og fann nýja markaði fyrir afurðir sínar. Í faraldrinum þurfti einnig að aðlagast breyttum mörkuðum, nánast yfir nótt. Þegar önnur eins áföll dynja á skiptir miklu máli að sjávarútvegurinn sé í stakk búinn til að takast á við slíkt, sem leiðir okkur aftur að því hve mikilvægt það er að stöðugleiki sé í því kerfi sem sjávarútvegurinn starfar innan. Nóg er af óstöðugleika í auðlindinni sem verið er að nýta og á mörkuðum fyrir afurðir.“

Það er mikilvægt að leggja við hlustir þegar fræðimenn eins og Hrefna ræða íslenskan sjávarútveg. Það kemur ekki á óvart að flestir þeir fræðimenn sem vilja láta taka sig alvarlega ræða þessi mál af yfirvegun og skynsemi. Hinir eru oftar en ekki staddir í einhverskonar vinsældapólitík.