c

Pistlar:

30. desember 2023 kl. 17:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjöldamorð á kristnum mönnum í Nígeríu

Nígería er fjölmennasta ríki Afríku og einnig fjölmennasta þjóð heims þar sem kristnir og múslimar deila þjóðerni. Um leið er Nígería hættulegasta land í heimi fyrir kristna menn. Talið er að ríflega 60 þúsund menn hafi verið drepnir í Nígeríu, flestir kristnir, það sem af er þessari öld en í heildina hafi um 75 þúsund manns verið drepnir síðan ofsóknirnar hófust. Um tvær milljónir manna hafa neyðst til að flýja átökin.

Drápin eru framkvæmd af íslömskum trúarhópum og þar er Boko Haram öfgahreyfingin mikilvirkust. Sumir vilja ganga svo langt að líkja ástandinu í Nígeríu við þjóðarmorð (genoicide). Þegar þessar frásagnir eru skoðaðar vekur það mann til umhugsunar um hve lítið er um málið fjallað í vestrænum miðlum. Hugsanlega er það vegna þess að átökin fara fram í afskektum héruðum inni í miðri Afríku. En þegar rýnt er í umfjöllun Wikipedíu alfræðivefsins koma fram langar og nákvæmar frásagnir af ólýsanlegum illvirkjum, þar sem meðal annars er lýst drápi á börnum og hvernig þau eru misnotuð af liðsmönnum Boko Haram, meðal annars til sjálfsmorðsárása.boko

Þróun mála í Nígeríu ætti að varða heiminn miklu, ekki aðeins er landið fjölmennasta og stærsta lýðræðisríki álfunnar heldur eru náttúruauðlindir þess miklar. Í landinu búa nú um 210 milljónir manna og fólksfjölgun er mikil. Því er spáð að Nígería verði eitt það fjölmennasta í heimi eftir nokkra áratugi.

Nígera er land þjóðarbrotanna en talið er að um 500 slík séu í landinu. Um helmingur íbúa landsins eru kristnir. Uppgangur Boko Haram hefur skapað mikinn óstöðugleika í landinu en hreyfingin leitast við að steypa núverandi stjórnvöldum í Nígeríu og koma á íslamskri stjórn en til þessa hafa þeir einkum látið til sín taka í norðurhluta landsins. Framferði þeirra er í takt við það ástand sem skapast hefur í löndunum sunnan Sahara þar sem íslamskir öfgahópar hafa mjög látið til sín taka með stigvaxandi ofbeldi. Aðgerðir Boko Haram hafa beinst gegn veraldlegum skólum og kirkjum og árásir þeirra valda mikilli skelfingu í röðum kristinna enda hatrammar og oft eru framin mikil illvirki.

Menningarheimur íslam

Þó að tilvist íslams í Vestur-Afríku nái aftur til áttundu aldar, var útbreiðsla trúarinnar á svæðum sem nú eru nútímaríkin Senegal, Gambía, Gíneu, Búrkína Fasó, Níger, Malí og Nígería í raun tekin í hægu og flóknu ferli. Margt af því sem við vitum um fyrstu sögu Vestur-Afríku kemur frá miðaldasögum skrifaðar af arabískum og norður-afrískum landfræðingum og sagnfræðingum. Sérfræðingar hafa ýmsar skýringar á því af hverju Afríkubúar snerust til íslamstrúar. Sumir leggja áherslu á efnahagslega hvata, aðrir benda á að andlegur boðskapur íslams hafi náð til innfæddra og enn aðrir leggja áherslu áhrif arabíska stafrófsins og læsis til að auðvelda þá ríkisuppbyggingu sem varð. Íslam tók ekki aðeins yfir trú fólks á þessum svæðum heldur skapaði einnig áhugaverðan menningarheim.

Hægt er að draga sögu íslams í Vestur-Afríku saman í þrjú, innilokun, blöndun og umbætur. Á fyrsta stigi brugðust afrískir konungar við áhrifum múslima með því að aðgreina múslimsk samfélög frá öðrum þjóðfélagsþegnum, á öðru stigi blandaðist íslam við staðbundnar hefðir þar sem íbúar tileinkuðu sér íslamska venjur. Á þriðja stiginu hafa afrískir múslimir þrýst á umbætur í viðleitni sinni við að losa samfélög sín við þessar blönduðu venjur sem komu til á öðru stigi og innleiða þess í stað Sharia-lög. Þessi aðgreining í þrjú þrep segir vitaskuld ekki alla söguna en getur hjálpað til við að varpa ljósi á sögulega þróun miðaldaveldanna Gana, Malí og Songhay og 19. aldar jihads sem leiddu síðan til stofnunar Sokoto kalífadæmisins í Hausalandi og Umarian fylkisins í Senegambiu (Senegel og Gambíu).boko2

Berjast gegn öllum vestrænum áhrifum

Samtökin voru stofnuð árið 2002 í borginni Maiduguri, fyrsti leiðtoginn var múslimaklerkurinn Muhammed Yusef. Hann stofnaði trúarmiðstöð með skóla og mosku sem notaður var til að safna nýliðum fyrir jihadista. Það var ekki fyrr en 2009 sem fyrstu átökin urðu, árás var gerð á lögreglustöðvar og fleiri byggingar í Maiduguri. Hundruð Boko Haram-manna féllu en samtökin héldu áfram að eflast og boðar nú jihad um alla Nígeríu og Mið-Afríku. Svo snemma sem árið 2010 skilgreindu Bandaríkin þrjá af æðstu liðsmönnum Boko Haram sem hryðjuverkamenn. Í Washington óttuðust menn að samtökin ættu samstarf við hópa, tengda al-Qaeda, í Afríku en einnig hafa þeir verið í samstarfi við Íslamska ríki Íraks og Sýrlands (ISIS). Liðsmenn Boko Haram berjast gegn öllum vestrænum áhrifum en líka öllum sem ekki samþykkja ýtrustu túlkun á gömlum lögum og hefðum íslams. Meðal þess sem er bannað er þátttaka í kosningum, að nota buxur eða skyrtu og að sjálfsögðu veraldleg menntun. Konur eiga alls ekki að mennta sig og eiga bara að vera heima og eiga börn. Heitið Boko Haram vísar til þess að vestræn menning er syndsamleg.

Boko Haram-menn urðu frægir á heimsvísu þegar þeir réðust á heimavistaskóla stúlkna í Chibok í Borno-fylki í Nígeríu í byrjun árs 2014 og rændu tæplega 300 stúlkum og myrtu og drápu aðra starfsmenn skólans. Skömmu síðar drápu þeir mörg hundruð manns í annarri árás. Síðan hafa þeir haldið áfram þessum mannránum og hneppa stúlkur í ánauð eins og aðrir jihadista hafa gert. Stundum næst að semja um lausnargjald og þá er einhverjum sleppt en oftar en ekki eru stúlkur neyddar í hjónaband og að snúast til íslam. Hluta stúlknanna var sleppt árið 2017 í fangaskiptum.boko3

Nota börn í sjálfsmorðsárásir

Í sumum stærri borgunum Nígeríu hafa íbúar myndað vopnaðar sjálfboðaliðssveitir og þá leggja Boko Haram-menn ekki til atlögu. Þeir finna auðveldari fórnarlömb, einkum á svæðum í norðausturhlutanum sem eru afskekkt og erfið yfirferðar vegna mikilla frumskóga. Öryggismál hafa verið fyrirferðamikil í kosningum í Nígeríu undanfarin áratug.

Aðfarir samtakanna eru grimmileg og skýrsla Sameinuðu þjóðanna frá 2018 dró fram að 44 börn voru látin fremja sjálfsvígssprengjuárásir af liðsmönnum Boko Haram árið á undan. Í einni af hverjum fimm sjálfsmorðsárásum samtakanna kemur barn við sögu. Doune Porter starfsmaður UNICEF sagði við fjölmiðla á þessum tíma að börnin sem um ræðir eigi það flest sameiginlegt að hafa mátt þola svívirðilega meðferð af hálfu liðsmanna samtakanna.

Boko Haram stýra með skelfingu og hafa yfir að ráða um 15 til 20 þúsund liðsmönnum, allt karlmenn sem virðast algerlega firrtir í hugmyndaheimi sínum. Bandalög þeirra við aðrar öfgahreyfingar eru oft óljós og erfitt að skilgreina þau öðru vísi en glæpasamtök með trúarlegum slagorðum. Hreyfingin fjármagnar sig meðal annars með mannránum og er nú svo komið að Vesturlandabúum er ráðlagt frá því að fara um stór svæði Mið-Afríku. Það hefur reynst þrautinni þyngra að kveða niður hreyfinguna og skiptir engu þó að nígerísk stjórnvöld hafi oft brugðið á það ráð að fá erlenda málaliða í lið með sér.