c

Pistlar:

2. janúar 2024 kl. 21:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Byggð í landi elds og íss

Íslenskt samfélag stendur meðal þeirra fremstu í heimi á flestum mælikvörðum sem taka til hagsældar og velferðar. Við erum í flokki með Norðurlöndunum sem eru líklega þau samfélög heims sem bjóða flestum þegnum sínum upp á auðsæld, velferð og stuðning. Norræna módelið virðist njóta almennrar tiltrúar þegar kemur að mannréttindum og velferð íbúa. Ísland er auðugt þjóðfélag og hefur gengið í gegnum ótrúlegar breytingar frá því í upphafi 20. aldar. Á þeim tíma hefur verið byggt upp nútímalegt velferðarþjóðfélag með traustar efnahaglega undirstöður sem byggir á þekkingu og getu landsmanna til að búa í harðbýlu landi.eldurhr

Við erum minnt á það þessi misseri þegar byggðinni í Grindavík er ógnað en þar er ein farsælasta verstöð landsins. Það er erfitt að setja sig inn í hvað íbúar bæjarins þurfa að ganga í gegnum en vonandi að þeir upplifi stuðning og samkennd annarra landsmanna. Aðrir íbúar landsins sjá bara tölur um að byggðin í Grindavík kosti 150 milljarða króna þegar verið er að meta kosti þess að reisa varnargarða til að verja heimili og lífsstrit þrjú þúsund Íslendinga. Nú þegar höfum við sett um 60 milljarða króna í ofanflóðavarnir víða um land og erum þar rétt hálfnuð. Slíkar varnir eru forsendur frekari byggðar þar en þetta eru háar tölur fyrir fámennt samfélag.

Það er auðvitað merkilegt að við skulum telja okkur í aðstöðu til að takast á við náttúruöflin með þessum hætti og vonandi að slíkir garðar geti verndað byggðina í Grindavík. Allt sem við höfum í þessari baráttu er þekking, reynsla og geta vísindamanna og verkfræðinga við að takast á við það sem getur hugsanlega gerst og á eftir að gerast. Daglega heyrum við rætt um sviðsmyndir en þessar sömu sviðsmyndir eru hluti af veruleika fólksins sem þarna býr. Hér hefur áður verið vikið að mikilvægi þess að við skoðum byggðaþróun á suðvesturhorni landsins í ljósi nýtilkominnar eldvirkni á Suðurnesjunum. Þar sem annars staðar verðum við að sýna fyrirhyggjusemi byggða á þekkingu en náttúruöflin setja nú fyrir okkur óvænt úrlausnarefni.eldvarn

Uppbygging grunnatvinnugreina

Eins og áður sagði þá höfum við sem þjóð ferðast langa leið þessa rúmu öld sem við höfum verið að byggja upp nútímasamfélag hér á Íslandi. Lengst af höfðum við aðeins eina útflutningsgrein sem bjó til gríðarlegar sveiflur eftir því hvernig fiskaðist og ástandi á erlendum mörkuðum en þar áttum við lengi undir högg að sækja. Við höfum byggt upp sjálfbæran sjávarútveg með traustu regluverki sem skilar landsmönnum miklum verðmætum. Þar höfum við haft gæfu til að láta þekkingu og reynslu leiða okkur áfram í skynsömum skrefum.

Þegar við hófum að reisa stórvirkjanir var það til þess að skapa nýja stoð undir útflutning landsmanna. Rafmagn til útflutnings hefur lagt grunn að nýjum starfsgreinum og eflt verkfræðilega þekkingu landsmanna gríðarlega. Nú seljum við nágranaþjóðum okkar þekkingu og reynslu af því að reka orkumannvirki. Þar hefur gríðarmikið breyst á nokkrum áratugum.

Um leið höfum við byggt upp fleiri stoðir undir útflutning landsmanna. Ferðaþjónustan er orðin gríðarlega öflug og hefur breytt miklu og haft í för með sér miklar fjárfestingar um allt land. Nú er svo komið að við þurfum að leggja mat á hvernig við viljum haga þróuninni, við nánast búum við velgengnisvanda þegar kemur að ferðaþjónustunni. Salan á Kerecis og skráning Alvotechs sýna glögglega stöðu þekkingariðnaðar hér á landi sem fjórða útflutningsstoðin. Þar hafa orðið gríðarmiklar breytingar á undanförnum árum.virkjun2

Markaðskerfi forsenda velferðarkerfisins

Norræna velferðarmódelið byggist á að markaðsdrifið hagkerfi standi undir öllum þeim réttindum sem við höfum innleitt til handa borgurum landsins. Þegar lífeyrissjóðskerfið er tekið með fer um helmingur landsframleiðslunnar í skatta og lífeyri. Við verðum að gæta þess að markaðsvélin vinni vel og óhindrað til þess að við getum haldið uppi góðum lífskjörum.

Nú eru Íslendingar í þann mund að verða 400.000 talsins, ekki há tala í alþjóðlegum samanburði en fjölgunin er hröð hér á landi. Ef við ætlum að tryggja áfram góð lífskjör verðum við að sína fyrirhyggjusemi í grunnatvinnuvegum okkar og tryggja að orka sé næg í landinu og stofnanir þess virki. Það ætti að vera ærið verkefni fyrir komandi kynslóðir.